Mánaðarskipt færslusafn fyrir: mars 2015

Kaldhæðnislegar þakkir

Takk-útrásarvíkingar„Bókin er bæði fljótlesin og skemmtileg. Oftar en ekki verður textinn jafnvel til þess að lesandinn þarf að leggja hana frá sér og flissa yfir því sem höfundur skrifar,“ segir Anna Björg Auðunsdóttir í umfjöllun um bókina Takk útrásarvíkingar eftir Láru Björgu Björnsdóttur. Bókin, sem kom út árið 2010, er eins konar endurminningarrit sem lýsir meðal annars áhrifum bankahrunsins á höfundinn. Að sögn Önnu Bjargar notar Lára hugtakið „Takk útrásarvíkingar“ með kaldhæðnislegum hætti „þegar allt er á niðurleið hjá henni. Þakklætinu er beint að útrásarvíkingum á þann hátt að hún kennir þeim um hvernig fór og ekki bara í hennar lífi heldur í samfélaginu almennt.“

Á ekki afturkvæmt

mannorð„Starkaður er sannfærður um hann eigi ekki afturkvæmt í samfélagið með því að sýna iðrun og yfirbót. Það má til sanns vegar færa því dæmin hafa sýnt að öll viðleitni af hendi útrásarvíkinganna í þá átt hafa verið vegin og léttvæg fundin,“ segir Steinunn Emilsdóttir í umsögn um skáldsöguna Mannorð eftir Bjarna Bjarnason. Bókin, sem út kom árið 2011, lýsir afar óvenjulegum tilraunum íslensks útrásarvíkings til að endurheimta glatað mannorð sitt.

Útrásin í bakgrunni

vonarstraeti„Þegar upp er staðið fjallar myndin meira um breyskleika og átök manneskjunnar en um útrásina og misskiptingu auðs og valda. Þessi atriði eru fremur í bakgrunni, en þau veita henni dýpt og um leið lengra líf en ella,“ segir Sjöfn Hauksdóttir í umsögn um kvikmyndina Vonarstræti frá árinu 2014. Hún var  þriðja mynd leikstjórans Baldvins Z og sópaði til sín 14 Edduverðlaunum, þar á meðal sem besta kvikmyndin.

Máttlitlir mótmælendur

píslarvottar„Ef sögupersónur eiga að endurspegla mótmælendur á Austurvelli eru þær helst fulltrúar fyrir þær týpur sem aðeins mættu þangað til þess að sýna sig og sjá aðra,“ segir Bergrún Andradóttir í umsögn um Píslarvottar án hæfileika, skáldsögu eftir Kára Tulinius frá árinu 2010. Sagan gerist í september og nóvember 2008 og lýsir hópi ungs fólks sem á sér þann draum að stunda hryðjuverk. Þau geta þó ekki orðið sammála um nafn á hópinn og því verður lítið úr aðgerðunum sjálfum.

Spennandi hryllingur

konur„Kostir verksins eru fyrst og fremst nýstárleg frásagnaraðferð (a.m.k. á íslenskan mælikvarða). Hún gerir höfundi kleift að koma efninu rækilega til skila, hvort sem lesanda líkar betur eða verr. Þrátt fyrir óþægilegar lýsingar er sagan nefnilega svo spennandi að nánast ómögulegt er að leggja hana frá sér, “ segir Elín Þórsdóttir í umfjöllun sinni um skáldsöguna Konur eftir Steinar Braga frá árinu 2008.  En Elín finnur líka vissa galla á verkinu og segir þá helst felast „í ótrúverðugum aðstæðum á köflum en þar er mér efst í huga ofsahræðsla Evu í upphafi“.

Litli bankamaðurinn

Bankster_1„Markús er í stöðu ‚litla bankamannsins‘ og eiginleg sekt hans er ekki í fyrirrúmi, en samt sem áður má sjá merki undirliggjandi sektarkenndar hjá honum,“ segir Már Másson Maack meðal annars í umfjöllun sinni um skáldsöguna Bankster eftir Guðmund Óskarsson frá árinu 2009. Og Már bætir við: „Litli bankamaðurinn hefur lítið að segja um stefnumótanir þeirra sem voru í æðstu stöðum en hefur samt sem áður hag af því að þær skili gróða. Við Íslendingar gætum að einhverju leyti verið skilgreindir sem litlir bankamenn.“