Mánaðarskipt færslusafn fyrir: apríl 2015

Öfgatrúin á peningana

attabladarosinMár Másson Maack fjallar í nýjum pistli um  Áttablaðarósina, spennusögu sem Óttar M. Norðfjörð sendi frá sér árið 2010. Már segir þar þar meðal annars: „Óttar gerir … grein fyrir því hvernig öfgatrúin á vald peninga, sem kemur oft og tíðum upp í íslenskum hrunbókmenntum, hefur áhrif á fólk í öllum lögum samfélagsins. Hvort sem það er vandræði fátækrar fjölskyldu, vændi og ofbeldisglæpir í undirheimum Reykjavíkur eða hrottalegir viðskiptahættir í efstu lögum samfélagsins, virðist rauði þráðurinn vera tengdur peningum og hugsunarhætti útrásarinnar.“

Aðdáandi útrásarinnar

svörtuloft„Það skemmtilegasta við nálgun höfundar á hrunið er að Sigurður Óli er fremur hlyntur útrásinni. Það er heldur óvanalegt að sjá aðalpersónu í sögu tala vel um útrásarvíkinga án þess að hann átti sig, að minnsta kosti síðar, á villu síns vegar,“ segir Sjöfn Hauksdóttir meðal annars í umsögn um glæpasöguna Svörtuloft eftir Arnald Indríðason frá 2009. Í verkinu rannsakar Sigurður Óli, félagi Erlendar, morð á konu sem grunuð er um fjárkúgun en þarf einnig að takast á við bankamenn og handrukkara.

Ágengir fjölmiðlar

morgunengill„Morgunengill er sakamálasaga sem tekst á við mál sem eru raunveruleg í íslenskum samtíma, s.s. fjölmiðlafár eða peningahneyksli. Í sögunni leika fjölmiðlar stórt hlutverk en þeir gera sér mat úr því fári sem bankakreppan hefur skapað. Þá eru þeir sérstaklega á höttunum eftir hneykslismálum útrásarvíkinga, hvort sem þau tengjast peningum þeirra eða persónulífi,“ segir Elín Þórsdóttir meðal annars í umsögn sinni um Morgunengil, sakamálasögu sem Árni Þórarinsson sendi frá sér árið 2010. Meðal persóna í verkinu  útrásarvíkingurinn Ölver Margrétarson Steinsson, sem verður fyrir þeirri ógæfu að dóttur hans er rænt.

Jakkaföt eða djöflahamur

ufsagrylur„Tvífari Veigars Mar minnir okkur á að láta ekki hefndarfýsnina blinda okkur,“ segir Einar Kári Jóhannsson í umsögn sinni um leikritið Ufsagrýlur eftir Sjón sem sett var af svið af LabLoka í Hafnarfjarðarleikhúsinu árið 2010. Og Einar bætir við: „Við megum ekki líta fram hjá okkar ábyrgð á málum né gleyma manneskjunni undir yfirborðinu, hvort sem það yfirborð eru jakkaföt eða djöflahamur. Inn við beinið eru útrásarvíkingar sömu litlu strákarnir og stelpurnar og við hin.“

Einastaklingur í kreppu

litlu daudarnir„Stefán Máni er að vinna úr tilfinningum sem virðast tengdar hruninu og varpar ljósi á trámað sem þjóðfélagið varð fyrir,“ segir Sandra Jónsdóttir í umsögn um skáldsöguna Litlu dauðarnir eftir Stefán Mána sem út kom haustið 2014. Og hún bætir við: „En þó svo að hrunið sé í forgrunni er það ekki það sem drífur söguna áfram. Öðru fremur er þetta saga brotins einstaklings í tilvistarkreppu, sem getur ekki tekið skrefið framávið og gert upp fortíð sína.“