Greinasafn fyrir flokkinn: Almenningur

Átakanleg viðtöl

maybe„Í Maybe I Should Have nálgast Gunnar  bankahrunið 2008 á frumlegan og skemmtilegan hátt. Myndin er hröð og skemmtileg og heldur áhorfendum við efnið allan tímann,“ segir Kolbrún Fjóla Rúnarsdóttir í umsögn um heimildamynd Gunnars Sigurðssonar frá árinu 2010. Hún segir ennfremur „Átakanlegust eru viðtölin við nokkra einstaklinga á Guernsey sem settu ævisparnað sinn inn á Icesave reikninga og höfðu aðeins fengið helminginn af honum til baka þegar myndin var gerð.“

Söguhetjur hrunsins

GUDBLESSI„Þótt viðtölin í myndinni eigi að sýna nokkurs konar þverskurð af þjóðfélaginu kemur í ljós að hér eru söguhetjurnar Sturla Jónsson, vörubílstjórinn með gjallarhornið sem fór í framboð, einstæða móðirin er Eva Hauksdóttir, ein þeirra sem gekk hvað harðast fram í mótmælunum og lögreglumaðurinn er Dúni Geirsson, sonur Geirs Jóns Þórissonar, fyrrum yfirlögregluþjóns í Reykjavík,“ segir Arndís Þóra Sigfúsdóttir í umsögn sinni um heimildamynd Helga Felixsonar Guð blessi Ísland sem frumsýnd var árið 2009.

Dapurleg sýn

thraedir_valdsins„Bókin veitir dapurlega sýn á íslenskt samfélag, sem þó var ekki með öllu óvænt,“ segir Arnar Sverrisson í umsögn sinni um Þræði valdsins eftir Jóhann Hauksson hér á vefnum. Og Arnar bætir við: „Sú gróðrarstía spillingar á mörgum sviðum, sem bókin dregur fram í dagsljósið, hefur vafalítið verið ríkur jarðvegur þeirra samfélagsþátta, sem mestu máli skiptu við hamfarirnar 2008, þegar íslenska bankakerfið hrundi og draumur fólks, ríkisstjórnar og launþegasamtaka um hinn eilífa vöxt beið skipbrot.“

Forspá um hrunið

boðberiSkrítið er til þess að hugsa að myndin hafi verið gerð fyrir hrunið 2008 þar sem iðulega er vísað til efnahagslegs ástands, skulda og fyrrum góðæris,“ segir Anna Björg Auðunsdóttir meðal annars í umsögn um kvikmyndina Boðbera frá árinu 2010. Og hún bætir við: „Þegar Páll er til að mynda heima hjá sér að horfa á fréttir tengjast þær ávallt seðlabankastjóra, leiknum af Magnúsi Jónssyni, sem er höfuðpaur spilltu djöflanna. Hann segir meðal annars við fréttamenn: „ef [krónan] styrkist ekki þarf að hækka stýrivexti“ og „við urðum að hækka vextina til að bregðast við aðstæðum“. Forsætisráðherra er svo spurður um orðin í kjölfarið og segist alltaf styðja aðgerðir seðlabankastjóra í öllu.

Reddari útrásarvíkinga

vormenn„Birgir rís til metorða úr engu, hann verður reddari úrtásarvíkinganna hvort sem þarf að „fegra bókhaldið, græða á yfirtökum og svíkja hluthafa“,“ segir Steinunn Emilsdóttir í lýsingu sinni á einni aðalpersónu skáldsögunnar Vormenn Íslands eftir Mikael Torfason, en hún kom út árið 2009. Og Steinunn bætir við: „Birgir er bæði öfga- og hrokafullur, harðduglegur og agaður. Allt eru þetta karlmennskueinkenni sem þóttu aðlaðandi í fari útrásarvíkinganna. Hann gat hins vegar ekki tekið þátt í niðurlægingu kvenna á hóruhúsum í bissnissferðum erlendis og er að sama skapi ófær um að stunda framhjáhald.“

Einastaklingur í kreppu

litlu daudarnir„Stefán Máni er að vinna úr tilfinningum sem virðast tengdar hruninu og varpar ljósi á trámað sem þjóðfélagið varð fyrir,“ segir Sandra Jónsdóttir í umsögn um skáldsöguna Litlu dauðarnir eftir Stefán Mána sem út kom haustið 2014. Og hún bætir við: „En þó svo að hrunið sé í forgrunni er það ekki það sem drífur söguna áfram. Öðru fremur er þetta saga brotins einstaklings í tilvistarkreppu, sem getur ekki tekið skrefið framávið og gert upp fortíð sína.“

Kaldhæðnislegar þakkir

Takk-útrásarvíkingar„Bókin er bæði fljótlesin og skemmtileg. Oftar en ekki verður textinn jafnvel til þess að lesandinn þarf að leggja hana frá sér og flissa yfir því sem höfundur skrifar,“ segir Anna Björg Auðunsdóttir í umfjöllun um bókina Takk útrásarvíkingar eftir Láru Björgu Björnsdóttur. Bókin, sem kom út árið 2010, er eins konar endurminningarrit sem lýsir meðal annars áhrifum bankahrunsins á höfundinn. Að sögn Önnu Bjargar notar Lára hugtakið „Takk útrásarvíkingar“ með kaldhæðnislegum hætti „þegar allt er á niðurleið hjá henni. Þakklætinu er beint að útrásarvíkingum á þann hátt að hún kennir þeim um hvernig fór og ekki bara í hennar lífi heldur í samfélaginu almennt.“

Útrásin í bakgrunni

vonarstraeti„Þegar upp er staðið fjallar myndin meira um breyskleika og átök manneskjunnar en um útrásina og misskiptingu auðs og valda. Þessi atriði eru fremur í bakgrunni, en þau veita henni dýpt og um leið lengra líf en ella,“ segir Sjöfn Hauksdóttir í umsögn um kvikmyndina Vonarstræti frá árinu 2014. Hún var  þriðja mynd leikstjórans Baldvins Z og sópaði til sín 14 Edduverðlaunum, þar á meðal sem besta kvikmyndin.