Greinasafn fyrir flokkinn: Skáldsögur

Manngerð atburðarás?

Halendid-175x269„Í gegnum alla bókina eru skil raunveruleika og ímyndunar óljós og undir lok sögunnar verður atburðarásin eins og manngerð, rétt eins og atburðarás hrunsins. Það spratt ekki upp úr engu heldur var það röð aðgerða og aðgerðarleysis,“ segir Bergrún Andradóttir meðal annars í umsögn sinni um Hálendið eftir Steinar Braga. Og hún bætir við: „Þegar á allt er litið tekst höfundi vel upp, frásögnin leikur sér með ímyndunarafl lesanda, sem gæti þurft hjálp við að átta sig á hvað snúi upp og hvað niður að lestri loknum.“

Matarlist smáborgarans

sandárbokinEinar Kári Jóhannsson fjallar um Sandárbókina eftir Gyrði Elíasson í nýrri færslu hér á vefnum. Verkið fjallar um listamann sem býr í sjálfskipaðri útlegð í hjólahýsahverfi fjarri is borgarinnar.  Í umsögn sinni segir Einar Kári um þennnan listamann: „Á kvöldin situr hann úti með skissubók og teiknar reykjarsúlur sem leggja frá grillum. Sjálfur kann hann ekki að grilla, sem hann kallar „göfuga matarlist smáborgarans“ (20), og finnst eins og nágrannarnir séu frá annarri plánetu. Þetta kallast á við eina af fleygustu setningum góðærisins; lýsingu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar á Sjálfstæðismönnum sem vilja helst græða á daginn en grilla á kvöldin. Orðin lýsa vel tíðarandi áranna fyrir hrun þegar græðgi var dyggð.“

Reddari útrásarvíkinga

vormenn„Birgir rís til metorða úr engu, hann verður reddari úrtásarvíkinganna hvort sem þarf að „fegra bókhaldið, græða á yfirtökum og svíkja hluthafa“,“ segir Steinunn Emilsdóttir í lýsingu sinni á einni aðalpersónu skáldsögunnar Vormenn Íslands eftir Mikael Torfason, en hún kom út árið 2009. Og Steinunn bætir við: „Birgir er bæði öfga- og hrokafullur, harðduglegur og agaður. Allt eru þetta karlmennskueinkenni sem þóttu aðlaðandi í fari útrásarvíkinganna. Hann gat hins vegar ekki tekið þátt í niðurlægingu kvenna á hóruhúsum í bissnissferðum erlendis og er að sama skapi ófær um að stunda framhjáhald.“

Ágengir fjölmiðlar

morgunengill„Morgunengill er sakamálasaga sem tekst á við mál sem eru raunveruleg í íslenskum samtíma, s.s. fjölmiðlafár eða peningahneyksli. Í sögunni leika fjölmiðlar stórt hlutverk en þeir gera sér mat úr því fári sem bankakreppan hefur skapað. Þá eru þeir sérstaklega á höttunum eftir hneykslismálum útrásarvíkinga, hvort sem þau tengjast peningum þeirra eða persónulífi,“ segir Elín Þórsdóttir meðal annars í umsögn sinni um Morgunengil, sakamálasögu sem Árni Þórarinsson sendi frá sér árið 2010. Meðal persóna í verkinu  útrásarvíkingurinn Ölver Margrétarson Steinsson, sem verður fyrir þeirri ógæfu að dóttur hans er rænt.

Einastaklingur í kreppu

litlu daudarnir„Stefán Máni er að vinna úr tilfinningum sem virðast tengdar hruninu og varpar ljósi á trámað sem þjóðfélagið varð fyrir,“ segir Sandra Jónsdóttir í umsögn um skáldsöguna Litlu dauðarnir eftir Stefán Mána sem út kom haustið 2014. Og hún bætir við: „En þó svo að hrunið sé í forgrunni er það ekki það sem drífur söguna áfram. Öðru fremur er þetta saga brotins einstaklings í tilvistarkreppu, sem getur ekki tekið skrefið framávið og gert upp fortíð sína.“

Á ekki afturkvæmt

mannorð„Starkaður er sannfærður um hann eigi ekki afturkvæmt í samfélagið með því að sýna iðrun og yfirbót. Það má til sanns vegar færa því dæmin hafa sýnt að öll viðleitni af hendi útrásarvíkinganna í þá átt hafa verið vegin og léttvæg fundin,“ segir Steinunn Emilsdóttir í umsögn um skáldsöguna Mannorð eftir Bjarna Bjarnason. Bókin, sem út kom árið 2011, lýsir afar óvenjulegum tilraunum íslensks útrásarvíkings til að endurheimta glatað mannorð sitt.

Máttlitlir mótmælendur

píslarvottar„Ef sögupersónur eiga að endurspegla mótmælendur á Austurvelli eru þær helst fulltrúar fyrir þær týpur sem aðeins mættu þangað til þess að sýna sig og sjá aðra,“ segir Bergrún Andradóttir í umsögn um Píslarvottar án hæfileika, skáldsögu eftir Kára Tulinius frá árinu 2010. Sagan gerist í september og nóvember 2008 og lýsir hópi ungs fólks sem á sér þann draum að stunda hryðjuverk. Þau geta þó ekki orðið sammála um nafn á hópinn og því verður lítið úr aðgerðunum sjálfum.

Spennandi hryllingur

konur„Kostir verksins eru fyrst og fremst nýstárleg frásagnaraðferð (a.m.k. á íslenskan mælikvarða). Hún gerir höfundi kleift að koma efninu rækilega til skila, hvort sem lesanda líkar betur eða verr. Þrátt fyrir óþægilegar lýsingar er sagan nefnilega svo spennandi að nánast ómögulegt er að leggja hana frá sér, “ segir Elín Þórsdóttir í umfjöllun sinni um skáldsöguna Konur eftir Steinar Braga frá árinu 2008.  En Elín finnur líka vissa galla á verkinu og segir þá helst felast „í ótrúverðugum aðstæðum á köflum en þar er mér efst í huga ofsahræðsla Evu í upphafi“.

Litli bankamaðurinn

Bankster_1„Markús er í stöðu ‚litla bankamannsins‘ og eiginleg sekt hans er ekki í fyrirrúmi, en samt sem áður má sjá merki undirliggjandi sektarkenndar hjá honum,“ segir Már Másson Maack meðal annars í umfjöllun sinni um skáldsöguna Bankster eftir Guðmund Óskarsson frá árinu 2009. Og Már bætir við: „Litli bankamaðurinn hefur lítið að segja um stefnumótanir þeirra sem voru í æðstu stöðum en hefur samt sem áður hag af því að þær skili gróða. Við Íslendingar gætum að einhverju leyti verið skilgreindir sem litlir bankamenn.“

Skáldaskjól

samhengi_hlutanna„Sem spennusaga fer frásögnin fremur hægt af stað en fyrir þá sem hafa áhuga og almenna þekkingu á sviptingum í íslensku viðskiptalífi á undanförnum árum vegur á móti kitlandi forvitni um hve nærri veruleikanum höfundurinn fer í skrifum sínum.“ Þetta er mat Jóns Karls Helgasonar á spennusögunni Samhengi hlutanna eftir Sigrúnu Davíðsdóttur sem byggist öðrum þræði á veruleika hrunsins. Sagan kom út árið 2011.