Aðalfyrirlesari : Eva Joly

Eva Joly er rannsóknardómari og evrópuþingmaður sem hefur sérhæft sig í baráttu gegn fjármálaspillingu. Árið 1994 varð hún yfirrannsóknardómari þegar hún varð lykilmaður í stærsta spillingarmáli sem upp hefur komið í Frakklandi þegar olíufélagið Elf Aquitaine var grunað um misferli. Rannsóknir hennar leiddu til dóms og sakfellingar yfir fjölda háttsettra embættis- og stjórnmálamanna. Hún hefur í kjölfar þess veitt stofnunum og ríkisstjórnum ráðgjöf í tengslum við spillingu og peningaþvætti, auk þess að hafa fengið alþjólegar viðurkenningar fyrir störf sín.

Hinn 10. mars 2009 var Eva ráðin sem sérstakur ráðgjafi íslensku ríkisstjórnarinnar í kjölfar bankahrunsins haustið á undan. Hún starfaði í þessu verkefni í 18 mánuði en lét af störfum um líkt leyti og hún hóf að undirbúa forsetaframboð sitt í Frakklandi 2012. Í fyrirlestri sínum mun hún líta um öxl og lýsa sinni sýn á hrun íslensku bankanna og uppgjörið við það.