Bankar í ljóma þjóðernishyggju

skirnir 2014Kristín Loftsdóttir og Már Wolfgang Mixa. „Bankar í ljóma þjóðernishyggju, Efnahagshrun, hnattvæðing og menning”. Skírnir 188  (haust 2014): 91-115.

Efni: Greinin fjallar um hvernig íslensku bönkunum tókst að umvefja sig íslenskri þjóðernisímynd, sem gerði að að verkum að útrás á þeirra vegum varð í hugum manna verkefni íslensku þjóðarinnar sem heildar. Til varð samstaða meðal hennar um það mikilvæga viðfangsefni að efla Ísland en ekki síður að sýna umheiminum að hér byggi þjóð meðal þjóða í friðsamlegri útrás en þó í anda víkinga.

Bakgrunnur: Höfundarnir eru hjón, Kristín Loftsdóttir prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, sem m.a hefur fengist við rannsóknir tengdar þjóðerni, og Wolfgang Már Mixa, doktorsnemi við Háskólann í Reykjavík sem kom að ritun skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um fall íslenskra sparisjóða. Kristín og Már segja nálgun sína þverfaglega og leggja áherslu á að efnahagslegar breytur séu hluti þess sem mannfræðingar hafa lengi skoðað og að innan hagfræði megi sjá aukna áherslu á að skilja efnahagsleg málefni út frá hugmyndum um menningu.

Mat: Eftir inngang um efni og skilgreiningu á verkefninu er fjallað um hvernig íslenska bankakerfið þróaðist. Í upphafi er þó farið yfir þróun íslenskra þjóðernishugmynda og því lýst hvernig íslensk stjórnvöld hafi „lengi vel stofnanavætt sérvalin tákn íslenskrar menningar og haft þannig áhrif á skilning almennings á því hvað er mikilvægt íslensku þjóðerni”(s. 94). Síðan er rakin þróun bankaviðskipta á Íslandi, fjallað um sparisjóði sem voru/eru tengdir sinni heimabyggð og hvernig bankar voru stofnaðir vegna sérstakra atvinnugreina en einnig hvert hlutverk þeirra var á landsvísu. Landsbankinn, banki alla landsmanna er sagður hafa haft nokkra sérstöðu þar. Seðlabanki Íslands var stofnaður 1961 en fram að því hafði Landsbanki Íslands gengt eins konar hlutverki seðlabanka. Frekari tímamót urðu á níunda áratugnum með ákveðinni nútímavæðingu, sem lauk með inngöngu í Evrópska efnahagssvæðið 1994. Ferli einkavæðingar hófst síðan 1998 og lauk 2002, þegar ríkið seldi sinn hlut í þremur stærstu bönkunum. Við inngöngu Íslands í Evrópska efnahagssvæðið þótti eðlilegt að regluverk íslenska fjármálakerfisins tæki mið af því evrópska, enda hafði það nú aðgang að öllu svæðinu til viðskipta. Höfundar telja kaldhæðnislegt, að hið mikla innflæði fjármagns sem nú tók að streyma til landsins kom að mestu frá Evrópu. „Íslensku aðilarnir töldu fáa vænlega fjárfestingarkosti innanlands og notuðu fjármagnið til að fjárfesta í evrópskum fyrirtækjum(98). En þetta voru fyrirtæki sem þegar voru þekkt af Íslendingum t.d. verslunarkeðjur í London og Kaupmannahöfn. Íslenska bankakerfið var nú ekki lengur staðbundið kerfi og hugtakið um útrásarvíkinga, samofið óljósri víkingaarfleifð Íslands, varð til” (101).

Frá og með árinu 2003 varð gríðarlegur og áður óþekktur vöxtur varðandi banka- og verðbréfamarkaði Íslands. Farið var að túlka þessa velgengni bankanna sem afleiðingu af „eðli” Íslendinga og vísað var til erlendra viðskipta þeirra sem íslenskrar útrásar og menn tengdu hana einkennum þjóðarinnar.  Auglýsingar bankanna sem áður höfðu tengst gæðum og þjónustu, tóku að snúast um að „…nýta sér tilvísun til lands og þjóðar með myndum af íslensku landslagi eða sameiningartáknum íslensku þjóðarinnar, svo sem listaverkum eða listamönnum” (s. 102). Gagnrýni og áhyggjum erlendra aðila af íslensku útrásinni og skuldsetningu bankanna var vísað á bug og annarleg sjónarmið sögð búa þar að baki.

Höfundar vitna í grein Kristínar í Ritinu frá árinu 2007 þar sem haldið var fram að þátttaka þjóðarinnar í hinum hnattvædda heimi hafi verið samtvinnuð orðræðunni um sjálfsmyndir og þjóðarímynd og að hið alþjóðlega og þjóðlega hafi ekki verið andstæður í þeirri orðræðu, heldur hvort fyrir sig mikilvægt í sjálfsmynd þjóðarinnar. Þau benda einnig á hvernig umræðan um íslenska bankakerfið var án sýnilegra tengsla við sögulega þróun fjármálakerfis á Íslandi eða bankana sjálfa. Áhersla á óljóst víkingaeðli og skjóta ákvarðanatöku, sjálfstæði og sveigjanleika voru þættir sem ekki höfðu áður verið til staðar í íslensku bankakerfi. Kristín og Már ítreka að lokum að hluti skýringarinnar á því hversvegna viðvörunarmerki um ofþenslu voru hunsuð sé fólginn í þjóðernislegri túlkun alþjóðavæðingarinnar og það sýni hversu oft sé erfitt að „aðskilja greiningu á menningu og fjármálum” (110).

Það var vel til fundið hjá höfundum að tengja saman nálganir mannfræði og hagfræði og öðlast þannig sannfærandi og ferska sýn á hrun bankanna á Íslandi 2008. Á hinn bóginn er ekki víst að rannsóknin hún höfði til almennings, þar sem hún byggir á kenningum mannfræðinnar, þar sem efnahagsmál hafa jafnan verið stór þáttur og þeirri nýju nálgun hagfræðinnar að leggja að jöfnu hugtök eins og menningu og þjóðerni og tæknileg úrlausnarefni. Notuð eru hugtök eins og „vöruhús menningarlegra leikmynda”, og „hugmyndir í anda eðlishyggju um þjóðmenningu”, sem gætu virkað framandi. Ennfremur er ekki víst að utan fræðanna sé fyrir hendi þekking á aðferðum sem notaðar eru við öflun heimilda, sem að mestu eru fengnar með eigindlegum aðferðum. Greinin er tiltölulega þægileg aflestrar þrátt fyrir þessa fræðilegu nálgun en ég held að hún geti ekki talist auðlesin, nema þeim sem þekkja eitthvað til hinna fjölmörgu höfunda, sem vísað er til.

Dagbjört Torfadóttir, nemandi í sagnfræði, nóvember 2014