Íslenska efnahagsundrið: Frá hagsæld

stjornmalstjornsyslaStefán Ólafsson. „Íslenska efnahagsundrið. Frá hagsæld til frjálshyggju og fjármálahruns”. Stjórnmál og stjórnsýsla  4/2 (2008): 231-256.

Efni: Greinin fjallar um rannsókn á breytingum á kaupmætti og hagvexti á Íslandi frá árinu 1944. Þær breytingar eru skoðaðar með tilliti til hins meinta „íslenska efnahagsundurs” sem fól í sér þá hugmynd að kaupmáttur og hagsæld hafi vaxið meira frá 1995 en áður þekktist á lýðveldistímanum. M.a. er fjallað er um hagsældarþróun á lýðveldistíma Íslands og góðærið frá 2003 sem byggði á skuldasöfnun. Einnig er fjallað um þá frjálshyggjutilraun sem leiddi til fjármálahruns að mati höfundar. Megintilgangur höfundar er að benda á að lífskjör á Íslandi voru orðin með því besta sem þekktist í heiminum löngu fyrir tíma hins meinta efnahagsundurs. Að mati höfundar átti hið raunverulega íslenska efnahagsundur sér stað á árunum 1960-1980.

Bakgrunnur: Stefán Ólafsson, höfundur greinarinnar er prófessor á félags- og mannvísindasviði Háskóla Íslands. Einnig er hann forstöðumaður Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands.

Umfjöllun: Greininni er skipt upp í fimm kafla. Í fyrsta kafla greinir höfundur hagsældarþróun á Íslandi frá 1945 og skoðar samdráttarskeið. Einnig fjallar höfundur um rannsókn Guðmundar Jónssonar, prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands, á íslenskum hagvexti frá 1870-1945. Í öðrum kafla er fjallað um þróun kaupmáttar frá 1955 og sambandi hagvaxtar og kaupmáttar. Næst er vikið að þeirri skuldasöfnun sem góðærið frá 2003 byggði á. Höfundur skoðar erlendar skuldir þjóðarbúsins frá 1947 og skuldastöðu þjóðarbúsins eins og hún var árið 2005 í alþjóðlegu samhengi. Þá er fjallað um skuldastöðu íslenskra heimila á árunum 1990-2006. Í fjórða kafla kemur fyrir gagnrýni höfundar á frjálshyggjuna og hvernig að henni var staðið á Íslandi. Á því tímabili komu ofurlaun til sögunnar, skattbyrði lágtekju- og meðaltekjuhópa jókst en lækkaði á stóreignafólk á sama tíma og almannatryggingakerfið veiktist, svo fátt eitt sé nefnt. Að endingu er fjallað um að Ísland varð ekki farsælt á árum frjálshyggjunnar. Höfundur skoðar m.a. lífsgæðamat Sameinuðu þjóðanna sem sýnir að Ísland var meðal þeirra landa sem bauð upp á einna mest lífsgæði í heiminum fyrir tíma frjálshyggjunnar.

Mikið er stuðst við töluleg gögn, mest frá Hagstofu Íslands. Töluleg gögn eru bæði framsett í töflum og í samfelldu máli þar sem þau eru jafnframt túlkuð. Vísað er til klassískra kenninga um fjármálakreppur og skrifa um frjálshyggjuna á Íslandi. Varðandi orsakir hrunsins á Íslandi er m.a. vísað til greiningar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Höfundur fjallar töluvert um breytingar á hagtölum á nokkrum áratugum. Til að fjalla um lok fyrsta áratugar yfirstandandi aldar þarf höfundur að styðjast við áætlanir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Seðlabanka Íslands frá þeim tíma sem greinin var skrifuð. Höfundur vísar til greiningar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á orsökum bankahrunsins frá 2008. Meiri upplýsingar gæti verið að finna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem fjallar ítarlega um orsakir falls íslensku bankanna sem kom út árið 2010. Framsetning efnis er skýr og er málfar gott. Höfundur gerir vel grein fyrir röksemdum sínum og niðurstöðum. Greinin er auðveld aflestrar og krefst ekki sérfræðiþekkingar.

Megintilgangur höfundar er að hrekja þá skoðun að efnahagsundur hafi átt sér stað á Íslandi frá 1995. Hann bendir t.d. á að hagvaxtarþróun á tímum hins meinta efnahagsundurs var að miklu leyti byggð á skuldasöfnun sem færði „Íslendinga að barmi þjóðargjaldþrots. Ólíkt öðrum góðæristímum lýðveldistímans var góðærinu mjög misskipt á árunum fyrir hrun (s. 234-235). Höfundur mælir á móti þeirri hetjulegu mynd sem dregin var upp af „útrásarvíkingunum” sem mátti helst ekki gagnrýna (s. 246). Höfundur kýs að nota orðið „spákaupmaður” í stað „útrásarvíkings”.

Stjórnvöld eru einnig gagnrýnd. Höfundur segir róttæka frjálshyggjumenn hafa talað niður eftirlitsrekstur. „Þegar leiðtogi frjálshyggju- og einkavæðingarstefnunanar, Davíð Oddsson, settist svo á stól seðlabankastjóra, […] voru litlar líkur á að hann [Davíð] gæti veitt einkabönkunum nauðsynlegt aðhald”. Afskipti Seðlabankans hefðu verið þvert á afskiptaleysisstefnu hinnar róttæku frjálshyggju. Höfundur segir að í fjölmiðlum hafi gjarnan verið dregin upp ævintýraleg mynd af útrásarvíkingum. Meint afrek útrásarvíkinganna og bankanna voru gjarnan túlkuð sem afleiðing af frjálshyggjustefnu ríkisstjórna Davíðs og Halldórs Ásgrímssonar (s. 247). Einn af meginhugmyndafræðingum frjálshyggjunnar á Íslandi, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, er sérstaklega gagnrýndur í greininni. Langa tilvitnun er að finna í bók Hannesar frá 2001, Hvernig getur Ísland orðið ríkasta land í heimi?, sem höfundur segir vera nokkurs konar leiðarvísi að starfsháttum ríkisstjórna Davíðs og Halldórs (s. 248). Höfundur er gagnrýninn á þá frjálshyggjustefnu sem náði fótfestu á Íslandi frá 1995. Gagnrýni höfundar er beitt og hefur eflaust fallið vel inn í tíðarandann rétt eftir hrun.

 Grétar Atli Davíðsson, nemandi í sagnfræði, nóvember 2014