Iceland as Icarus

challengeRobert Wade. „Iceland as Icarus“. Challenge: The Magazine of Economic Affairs 52/3 (2009): 5−33.

Efni:  Í greininni fjallar Robert Wade um aðdraganda bankahrunins. Hann byrjar reyndar á að rekja  sögu Íslands frá árinu 1262 þegar landsmenn gengu Noregegskonungi á hönd en aðaláherslan er lögð  á árin fyrir hrun og fram yfir búsáhaldabyltinguna í janúar 2009. Greinin er í senn yfirlit yfir atburðarásina og greining á orsökum hennar og afleiðingum, auk þess sem fjallað er um stemninguna í þjóðfélaginu á umræddu þennslutímabili.

Bakgrunnur: Robert Wade er prófessor í stjórnmálahagfræði frá London School of Economics. Hann hefur yfirgripsmikla þekkingu á viðfangsefninu, vísar til eigin rannsókna en einnig í rannsóknir og fræðigreinar eftir aðra fræðimenn s.s. Robert Aliber, Anne Sibert, Eirík Bergmann,  Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, Stefán Ólafsson og Hannes H. Gissurarson.

Umfjöllun: Greinin er kaflaskipt og er með ellefu millifyrirsagnir. Undir fyrstu millifyrirsögn á eftir inngangi er rætt um pólitískar og efnahagslegar aðstæður í landinu á 20. öldinni. Næst er stuttlega fjallað um bankahrunið sjálft og stemninguna í þjóðfélaginu mánuðina á eftir. Þá veltir höfundur fyrir sér hvort kreppa hefði orðið á Íslandi ef alþjóðlega fjármálakreppan hefði ekki verið til staðar og á eftir því hvort aðgerðir stjórnvalda hefðu getað fyrirbyggt eða mildað fall bankanna. Í næsta kafla gefur höfundur svör við því hver beri ábyrgðina á hruninu og þar á eftir ræðir hann um hvers vegna Seðlabankinn hafi ekki stuðlað frekar að því að draga úr vexti bankanna. Þá er fjallað um starfsemi hins opinbera á Íslandi. Að lokum er aðild Íslands að Evrópusambandinu til umfjöllunar auk þess sem fjallað er um valkosti Íslendinga í gjaldeyrismálum. Greinin er þannig í senn yfirlit og greining.

Wade notar söguna af Íkarusi sem myndlíkingu fyrir þá gífurlegu þenslu sem hér var og leiddi á endanum til bankahrunsins. Íkarus forðaði sér úr útlegð með því að fljúga burt á vængjum úr vaxi og fjöðrum. Hann hirti ekki um aðvaranir og flaug of nálægt sólinni, vængirnir bráðnuðu og Íkarus hrapaði í sjóinn. Höfundur telur að þrátt fyrir að alþjóðleg fjármálakreppa hafi vissulega verið til staðar, þá hafi bankahrunið á Íslandi líklega orðið vegna ofvaxtar bankanna og stærðar þeirra, samanborið við stærð íslenska hagkerfisins. Bendir höfundur á að þegar bankarnir fóru að eiga í erfiðleikum með að endurfjármagna sig, sumarið og haustið 2006, hefðu stjórnvöld, Seðlabankinn, eigendur bankanna og aðrir átt að gera sér grein fyrir því að eitthvað væri að og hægja þyrfti á vexti bankanna. Þess í stað var Singer & Friedlander og Icesave innláns-reikningunum komið á laggirnar sem stuðluðu enn frekar að vexti bankanna. Þar sem starfsemi bankanna erlendis heyrði beint undir íslensku bankana, var það íslenskra stjórnvalda að hafa eftirlit með starfseminni en ekki þarlendra stjórnvalda. Segir höfundur að ytra hafi nánast eingöngu verið litið til lausafjárstöðu bankanna en ekki á eignir þeirra og að á Íslandi hafi stjórnvöld lítið sem ekkert litið eftir starfsemi bankanna erlendis. Þannig hafi eftirliti með stöðu bankanna og starfsemi þeirra verið afar ábótavant.

Höfundur telur að frændskapur, óformleg samskipti og aðrir þættir sem koma til vegna smæðar þjóðarinnar og endurspeglast í starfsháttum, ráðningum og stöðuveitingum innan hins opinbera, megi telja til áhrifavalda hrunsins. Að lokum er vert að benda á að höfundur telur hrunið sjálft í rauninni ekki stærsta vandamálið, heldur lifnaðarhættir og neysluvenjur Íslendinga.

Greinin er þægileg aflestrar að því leyti að höfundur notar ekki fræðilegt eða flókið mál og á nánast hver sem er að geta lesið hana og haft gagn af (að því gefnu að viðkomandi lesi og skilji ensku). Höfundur skrifar oft og tíðum á nokkuð hnyttinn og skemmtilegan máta. Hann notar gjarnan skemmtilegar líkingar og útskýringar sem einfaldar mjög lestur greinarinnar og skilning á viðfangsefni hennar. Dæmi um þetta er niðurlag kaflans „Was a Meltdown in Iceland Likely Even Without a Global Crisis?“ Þar kemur fram að höfundur telur hrunið sjálft ekki stærsta vandamál íslensku þjóðarinnar, heldur hafi lifnaðarhættir okkar og neysluvenjur komið í bakið á okkur. Endar kaflinn á eftirfarandi orðum: ,,Icelanders have been enjoying a nearly free lunch, and at the end of the day, as Milton Friedman said, there is no free lunch.”

Þeir sem þekkja eitthvað til Robert Wade og skrifa hans hafa líklega áttað sig á pólitískum skoðunum hans, sem flestir myndu telja mjög vinstrisinnaðar. Eini einstaklingurinn sem nefndur er á nafn sem beinn gerandi í atburðarásinni er Davíð Oddsson. Ljóst er af greininni að höfundi þykir ekki mikið til Davíðs koma og telur starfshætti hans og vinnubrögð í Seðlabankanum meðal orsaka hrunsins.  Sem dæmi má nefna eftirfarandi ummæli um Davíð:

„Oddsson’s friends and critics alike attest to his manipulative abilities in interpersonal relations, as though he could out-Machiavelli Machiavelli. His many critics describe him as Iceland’s J. Edgar Hoover, a serial collector of resentments, feuds, and information about the intimate lives of colleagues to be deployed in later negotiations. He has not lived outside Iceland, has no background in monetary economics, and understands little about international finance.”

Fleiri dæmi um slíka umfjöllun má finna í textanum, þar sem afstaða höfundar gagnvart málefninu kemur nokkuð bersýnilega í ljós. Þannig er ljóst að skrifin eru ekki hlutlæg en þrátt fyrir það er mjög margt til í skrifum höfundar og í fljótu bragði er ekki hægt að greina neinar beinar rangfærslur í umfjöllun hans. Niðurstaðan er sú, að þrátt fyrir að nokkra hlutdrægni megi greina í umfjölluninni, er hún vönduð og ljóst að höfundur hefur mikla þekkingu á viðfangsefninu. Óhætt er að mæla með lestri greinarinnar en þó er mikilvægt að líta á umfjöllunina gagnrýnum augum.

Jóhanna Sigurjónsdóttir, nemandi í sagnfræði, nóvember 2014