Bankakerfið knésett

skirnir 2014Guðrún Johnsen. „Bankakerfið knésett”. Skírnir 188 (vor 2014): 9-36.

Efni: Í greininni er gefið yfirlit yfir sögu bankahrunsins, allt frá því að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks stefndi að einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans (og ýmissa annarra ríkisfyrirtækja) árið 1998 þar til íslensku bankarnir féllu í október 2008. Rætt er sérstaklega um einkavæðingarferli ríkisbankanna fram til 2003, þenslu bankanna fyrir hrun, viðvörunarorð sérfræðinga árið 2006 og viðbrögð við þeim, krosseignatengsl og þau óumflýjanlegu örlög sem bankarnir höfðu komið sér í fyrir hrun þeirra. Megintilgangur höfundar er orðaður með skýrum hætti í upphafi greinarinnar: Í ljósi þess að stefna núverandi eigenda nýju bankanna sé að selja þá á komandi misserum er nauðsynlegt að læra af þeim mistökum og skoða hvað var rangt gert þegar bankarnir voru einkavæddir á sínum tíma. Samskonar atburðarás sem hófst í kjölfar einkavæðingar bankanna megi ekki endurtaka sig (s. 11).

Bakgrunnur:  Guðrún Johnsen (f. 1973) er hagfræðingur að mennt. Hún starfar sem lektor hjá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Guðrún hefur setið í stjórn Arion banka frá 2010. Á árunum 2004-2006 starfaði hún sem sérfræðingur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þá starfaði hún einnig fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008.

Umfjöllun: Greinin er í tíu hlutum. Fyrstu tveir hlutarnir fjalla um einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans. Höfundur skiptir einkavæðingarferlinu í tvö tímabil, frá 1998-2001 og 2001-2003. Fjallað er um stefnubreytingu í einkavæðingarferlinu og hvernig undanþágum var beitt svo verðandi eigendur gætu eignast stærri hlut í bönkunum. Fjallað er um kaupendur Landsbankans og Búnaðarbankans og hvernig kaup þessara banka voru fjármögnuð. Guðrún víkur svo að því hve auðvelt var fyrir íslensku bankana að gefa út skuldabréf, fyrst í Evrópu og svo í Bandaríkjunum. Þá er fjallað um neikvætt mat greiningaraðila á íslenska bankakerfinu og hvernig stjórnmálamenn, eftirlitsaðilar og viðskipta- og bankamenn brugðust við þeim viðvörunarorðum. Í næstu tveimur hlutum er fjallað um hækkandi skuldatryggingarálag bankanna árið 2007 eftir að lán til bannkana höfðu minnkað og hvernig bankarnir brugðust við endurfjármögnunarþurrðinni með veðlánum í seðlabönkum og netreikningum. Einnig er greint frá innri vexti bankanna á árunum 2003-2008. Í áttunda hluta greinarinnar er fjallað um helstu lántakendahópa bankanna og þá áhættu sem myndaðist vegna útlánastarfsemi bankanna. Í því samhengi er fjallað sérstaklega um svokölluð kúlulán. Guðrún ræðir um krosseignatengsl, hvernig reglur um lán til tengdra aðila (þ.á.m. eigenda) voru margbrotnar og einnig hvernig tengdir aðilar lágmörkuðu eigin áhættu með lánum frá bönkunum. Að endingu gefur höfundur lítið fyrir þá fullyrðingu að bankarnir hafi fallið vegna alþjóðlegrar fjármálakreppu. Íslensku bankarnir höfðu skapað sér óumflýjanleg örlög, áhlaup innistæðueigenda á reikninga bankanna flýtti aðeins fyrir hruni bankakerfisins að mati höfundar. Til að afla sér lausafjár, viðhalda vextinum og endurfjármagna útgáfu skuldabréfa blekktu þeir Seðlabanka Íslands sem ekki tókst gagnvart erlendum seðlabönkum.

Greinin er yfirlitsgrein og ristir ekki djúpt varðandi einstök mál. Ítarlegri umfjöllun má m.a. finna í bók sama höfundar, Bringing Down the Banking System: Lessons from Iceland, sem kom út snemma árs 2014. Greinin er vel læsileg og á almennu máli. Höfundur vísar vel til heimilda og er heimildaskráin góð. Mest styðst Guðrún við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall íslensku bankanna 2008. Einnig vísar Guðrún mikið til fyrrnefndrar bókar sinnar.

Í greininni er fjallað á skýran og gagnrýninn hátt um það sem höfundi fannst fara úrskeiðis frá einkavæðingu bankanna fram að falli þeirra. Dæmi um slíkt er gagnrýni höfundar á söluferli bankanna. Árið 2001 var stefnt að því að selja hlut ríkisins í Landsbankanum og Búnaðarbankanum á næstu tveimur árum. Með því að setja „síðasta söludag” á bankana fól það í sér að verðið myndi sennilega lækka eftir því sem nær drægi síðasta söludegi (s. 13-14). Einnig fjallar höfundur um hvernig hlutabréfakaup Landsbankans og Búnaðarbankans voru fjármögnuð með lánum milli bankanna. Slíkt fyrirkomulag gerði bankana háða hvor öðrum og stuðlaði að óstöðugleika. Þarna hafi mistök verið gerð hjá þeim sem mótuðu stefnuna (s. 19.) Með viðbrögðum sínum við neikvæðu mati greiningaraðila á íslenska bankakerfinu árið 2006 „fórnuðu stefnumótandi aðilar og stjórnmálamenn í leiðtogahlutverkum dýrmætu tækifæri til að verja hagsmuni almennings og forða kerfinu frá frekari áhættu” (s. 21-22). Bankamenn fá einnig sinn skerf af gagnrýni. Slíkt dæmi má sjá á umfjöllun höfundar um kúlulán. Guðrún gagnrýnir bankana harðlega fyrir að hafa veitt lántakendum lán án greiðsluflæðis hafi viðkomandi aðilar getað greitt afborganir og vexti af sínum lánum (s. 26).

Höfundur á það til að notast við heldur almennt orðalag. Sagt er að íslenskir stjórnmála- og bankamenn hafi á erlendum vettvangi sagt gríðarmikinn vöxt íslensku bankanna felast í allsherjar áhættudreifingu, þannig væri íslenska hagkerfinu ekki ógnað samhliða vexti bankakerfisins (s. 23). Betra hefði verið að vitna í banka- og stjórnmálamenn sem lýst höfðu yfir þessari skoðun sinni. Einnig er nokkuð almennt fjallað um bankana, oft eru þeir ekki aðgreindir sérstaklega. Greinin væri þó sjálfsagt ekki stutt og almenn yfirborðsgrein ef kafað væri dýpra í þau mál sem eru til umfjöllunar. Höfundur mætti skýra betur hvað orsakaði það áhlaup innistæðueigenda sem hraðaði falli bankanna að mati höfundar. Aftur á móti útskýrir höfundur vel hvernig eigendur fyrirtækjasamstæða lágmörkuðu eigin áhættu sem færðist þannig yfir á skattgreiðendur (s. 29). Mun minna er fjallað um Íslandsbanka/Glitni en hina stóru bankana. Íslandsbanki var kominn í eigu einkaaðila fyrr en Landsbankinn og Búnaðarbankinn.

Höfundur segir mikilvægt að Íslendingar geri sér grein fyrir söluferlinu sem ríkið stóð fyrir á árunum 1998-2003 og þeim afleiðingum sem það hafði á efnahag Íslands. Íslendingar hafa ekki efni á því að sömu mistök endurtaki sig (s. 34). Ákveðin krafa um lærdóm af því ferli sem hófst með sölu Landsbankans og Búnaðarbankans og endaði með hruni næstum alls íslenska bankakerfisins er sem rauður þráður í gegnum greinina.

Grétar Atli Davíðsson, nemandi í sagfræði, nóvember 2014