Sagan af einkavæðingu Búnaðarbankans

saga 2011bBjörn Jón Bragason. „Sagan af einkavæðingu Búnaðarbankans“. Saga 49/2 (2011): 100-127

Efni: Í greininni er fjallað um einkavæðingu Búnaðarbankans, sölu til S-hóps og undanfara einkavæðingar bankans. Komið er inn á hlutverk Björgólfsfeðga í einkavæðingarferlinu. Höfundi finnst að einkavæðingu Búnaðarbankans ekki hafa verið gefið jafnmikið vægi og einkavæðingu Landsbankans í sögulegri umræðu og því vill hann breyta með þessari grein.

Bakgrunnur: Höfundur er hann menntaður sagnfræðingur með mastersgráðu í sama fagi. Einnig lauk hann BA-prófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Greinin flokkast sem sagnfræðirannsókn og á að taka á sögulegu hliðinni á einkavæðingu Búnaðarbankans. Fjallað er um tímabilið frá 1997, eða frá því að ríkið bauð fyrst til sölu hluta í ríkisbönkunum og allt fram til ársins 2005, þegar tvö ár voru liðin frá einkavæðingu Búnaðarbankans.

Umfjöllun: Ætlun höfundar er að öllum líkindum að fræða almenning um þá hlið einkavæðingarinnar sem snertir Búnaðarbankann. Hann víkur að aðild banka og félaga að einkavæðingu ríkisbankanna, auk þess að segja frá aðild hina ýmsu ráðherra í ríkisstjórn á þessu tímabili. Einnig er aðild Björgúlfsfeðga gerð skil. Segja verður eins og er að umfjöllunin er örlítið einsleit. Meginþorri heimilda eru munnlegar heimildir, fengnar ýmist frá Björgólfsfeðgum, Eiríki S. Jónssyni, sem á þessum tíma var formaður Kaldbaks, eins fjárfestingahópanna sem koma við sögu í einkavæðingaferli ríkisbankanna, eða ónafngreindum heimildamönnum úr viðskipta-og bankalífinu. Einnig vakti það athygli að höfundur verksins notar Eirík S. Jónsson sem heimild fyrir beinni tilvitnun í orð Ólafs Ólafssonar í einkasamtali og verður undirrituð að efast um hvort það sé traustvekjandi meðferð heimilda.

Umfjöllunin verður einnig oft svolítið yfirborðsleg og stiklað er yfir þá hluti sem vert hefði verið að fara örlítið dýpra í, sem skekkir frásögnina og sögulegar staðreyndir. Við lestur virðist mér augljóst að höfundur staðsetur sig örlítið til hægri þar sem Framsóknarmenn eiga örlítið undir högg að sækja og gjörðir flestra nema sjálfstæðismanna eru fordæmdar. Vert er þó að taka fram að greinin var ágætis lesning og gaf ágæta innsýn inn í ferli einkavæðingu Búnaðarbankans, en þó einungis frá vissu sjónarhorni.

Elsie Kristinsdóttir, nemandi í stjórnmálafræði, nóvember 2014

Sjá ennfremur:

  • Helgi Skúli Kjartansson, „Í tröllahöndum. Um einkavæðingu Búnaðarbankans“, Saga 50:1 (2012): 125‒42.