Vogun vinnur

saga 2009Guðni Elísson. „Vogun vinnur… Hvar liggja rætur íslenska fjármálahrunsins? ” Saga XLVII:2 (2009): 117-146.

Efni: Greinin er skrifuð um hálfu ári eftir hrunið og þar er fjallað um íslensku útrásina og fjármálahrunið sem varð í október 2008. Guðni hefur að markmiði að leita að rótum hrunsins. Viðfangsefninu eru gerð skil á tvenns konar tímaplönum, annars vegar fjallar hann um árin frá upphafi útrásarinnar (einkum frá einkavæðingu bankanna) til bankahrunsins í október 2008. Hins vegar rekur meinta forsögu, sem spannar mestalla 20. öldina eða jafnvel alla Íslandssöguna frá landnámi. Höfundur ályktar að „[t]áknmyndir víkingaheimsins voru gjarnan skammt undan hvar sem hinir nýríku Íslendingar voru á ferð” (124).

Bakgrunnur:  Guðni er prófessor í almennum bókmenntum við Háskóla Íslands og var forseti Íslensku- og menningardeildar skólans árin 2012-2014. Höfundur er þaulkunnugur sögunni á tíma hrunsins og sögu Íslendinga yfirleitt og leitar fanga í huglæg vísindi (hugtök og skilgreiningar bókmennta) jafnt og raunvísindi (tölulegar niðurstöður). Það má nefna að önnur grein um hrunið, „Staðleysan Ísland og mýtan um okkur sjálf”, birtist eftir Guðna í Tímariti Máls og menningar (2009/4) auk greinarinnar „Ísland, anno núll, Rannsóknarskýrslan, spuninn, ábyrgðin og staðleysustjórnmál”, í sama riti (2010/2).

Mat: Guðni skiptir efninu í fjóra kafla. Hér er að hluta um að ræða yfirlit um þá umfjöllun, sem þegar hefur komið fram um orsakir hrunsins og gerendur í því en hún sett í samhengi sem þjónar þeirri víðu greiningu sem höfundur hefur í huga. Aðallega er stuðst við íslenskar greinar og bækur. Horft er af hærri sjónarhóli en þeir gera sem hafa fyrst og fremst fengist við að skýra afmörkuð efni eða notað þröngt sjónarhorn, s.s. að ásaka ákveðna aðila um hrunið eða að réttlæta gerðir sínar eða annarra.

Guðni segir umfjöllun um hrunið aðallega hafa skipst í tvo flokka, þá sem fordæma aðgerðir útrásaráranna og þá sem voru í hópi gerenda.      Kaflaheitið „Bjó hrunið í okkur sjálfum?“ bendir til að þar sé leitað eftir því hvort finna megi orsakir hrunsins hjá Íslendingum sjálfum. Guðni spyr hvort leita eigi orsaka hjá stjórnmálamönnum sem komu bönkunum í hendur nýrra eigenda sem þeim voru þóknanlegir, eða hjá stjórnum bankanna sjálfra sem lögðu áherslu á sífellt meiri hagnað, eins og Ólafur Arnarson hagfræðingur heldur fram. Guðni lætur ekki ógetið þáttar reynslulausra starfsmanna bankanna, sem byggir á mati Ármanns Þorvaldssonar fyrrum framkvæmdastjóra Kaupþing Singer & Friedlander í Lundúnum.

Í framhaldi af því kafar Guðni dýpra; hvort hugsanlega megi rekja hrunið til framkomu Breta eða annarra aðgerða útlendinga og leitar þá í smiðju þeirra sem hafa fjallað um útrásina og hrunið. Einnig veltir Guðni því fyrir sér „hvort finna megi eitthvað í rótgróinni sjálfsmynd Íslendinga sem skýrt geti þá orsakaþætti sem leiddu til hrunsins”(s. 123). Hann leitar í því sambandi fanga hjá þeim sem hafa fjallað um sjálfsmynd Íslendinga og dregur fram hugmyndir um eðli þeirra; til víkingaheimsins, gullaldarinnar, niðurlægingatímabilsins (þjóð án sjálfræðis) og sjálfstæðisbaráttunnar. Sótt er í bókmenntir gamlar og nýjar en ekki síst bent á hve táknmyndir víkingaheimsins voru oft nálægar í útrásinni. Sömuleiðis er leitað í smiðju útlendinga, t.a.m. Simons Anholt, bresks ímyndarsérfræðings. Ef til vill er tveggja orða álit eða mat erlends mannfræðings sem hér hafði dvalist ef til vill besta lýsingin á sjálfsmynd þjóðarinnar: „Hrokafullt sakleysi” (129).

 Í kafla sem ber heitið „Má persónugera vandann?“ er fjallað um einstaklinga, sekt þeirra og sakleysi. Hverjum á að kenna um hrunið? Geir H. Haarde forsætisráðherra lagði strax áherslu á að ekki mætti persónugera vandann. Guðni rekur umfjöllun Ólafs Arnarsonar sem hefur gengið mjög langt í því að sakfella ákveðna einstaklinga, fyrst og fremst Davíð Oddsson. Guðna finnst það of langt gengið og spyr hvað megi þá segja um aðra nafngreinda einstaklinga í stjórnmálum, bönkum, stofnunum og viðskiptalífi.

Spurningunni um sakleysi íslensks almennings er sömuleiðis varpað fram. Guðni greinir frá afstöðu Írisar Erlingsdóttur fjölmiðlafræðings  sem „…varar eindregið við þeim hvítþvotti sem íslenskur almenningur hefur stundað á sjálfum sér undanfarin misseri…” (s. 135). Niðurstaða Guðna er að þrátt fyrir heimskreppu hafi Íslendingar sérstöðu í samfélagi þjóðanna, þar sem hvergi hafi verið farið fram af meiri óvarkárni og hvergi hafi gjaldþrotin orðið eins stórbrotin og hjá útrásarvíkingunum og bönkunum þeirra.

Í kaflanum „Upphaf og endir í skáldlegu ljósi“ er því velt upp hvernig beri að skýra útrásartímabilið fyrir framtíðinni: Hvar á að byrja og verður niðurstaðan sú að hrun hafi alltaf verið óumflýjanlegt? Verður tímabilið litið í skáldlegu ljósi og þá kómísku, tragísku eða írónísku? Verður horft til hetjubókmennta, eins og Hannes Hólmsteinn Gissurarson gerir, verður túlkunarleiðin grátbrosleg að hætti Jónasar Kristjánssonar eða eru íronískar lýsingar Ármanns Þorvaldssonar málið, sem játar að hafa sjálfur ekkert kunnað í alþjóðlegum bankaviðskiptum þegar Kaupþingsmenn hófu útrásina. Bókmenntagagnrýnandinn Páll Baldvin Baldvinsson tengir frásögn Ármanns í bók hans Ævintýraeyjan við hið sígilda fyrirbæri heimsbókmenntanna „hinn raupsama riddara”(s. 142).

Í lokakaflanum „Vi vil købe Parken“ er gerð tilraun til að greina enn nánar sögu hrunsins og hvort þjóðin verði að horfast í augu við það sem hörðustu gagnrýnendur hennar halda fram. Guðni minnist á íróníska gagnrýnendur, sem gengu langt í gríninu og að þeir Íslendingar sem beiti slíkri söguskýringu megi búast við að verða sakaðir um að vera ekki þjóðhollir. „Fáir atburðir í Íslandssögunni bjóða jafn auðveldlega upp á íróniska túlkun og saga útrásaráranna sé hún lesin í heild sinni” (145) segir Guðni.

Grein Guðna Elíssonar er að mínu mati hlutlæg og vel rökstudd umfjöllun um útrásina og hrunið, þar sem fjöldi greina og bókarhlutar eru dregnar fram og skilgreindar. Það dylst ekki að höfundi þykir full ástæða til að fá einhvern botn í og greina hvað átti sér stað og hversvegna en hann lætur lesandanum eftir að draga sínar niðurstöður. Dómur hans birtist fyrst og fremst í samhengi frásagnarinnar og hvernig hann sýnir niðurstöður í gagnrýnu ljósi. Bein niðurstaða hans (s. 138) um sérstöðu Íslendinga hvað varðar heimskreppuna, þar sem hann útnefnir útrásarvíkingana og banka þeirra methafa í óvarkárni og gjaldþrotum, byggist í raun á tölfræðilegum niðurstöðum.

Greinin er afar læsileg þótt löng sé og málfar og stíll án hnökra, þrátt fyrir flóknar og samsettar setningar. Höfundi tekst vel að draga upp heildarmynd af umfjöllunarefninu en augljóslega er það ekki mynd sem er öllum að skapi. Margir munu alls ekki vilja horfast í augu við margt sem þar kemur fram, t.d. að þjóðin sé haldin minnimáttarkennd og í stöðguri leit eftir viðurkenningu útlendinga á því hversu frábær hún sé.

Dagbjört Torfadóttir, nemandi í sagnfræði, nóvember 2014