Hagkerfi bíður skipbrot

Jón Daníelsson og Gylfi Zoega. „Hagkerfi bíður skipbrot“. Skýrsla dagsett 9. febrúar 2009.

Efni: „Hagkerfi bíður skipbrot“ er fræðileg skýrsla eftir Jón Daníelsson og Gylfa Zoega sem gefin var út snemma árs 2009. Umfjöllunarefnið eru orsakir hrunsins og leiðir til úrbóta. Tímabilið sem um ræðir nær allt frá fyrri hluta 19. aldar og fram yfir áramótin 2008/2009. Þá er fjallað um stöðu landsins eins og hún var í febrúar 2009 þegar greinin birtist og einnig er spáð um framtíðarhorfur í landinu. Höfundar telja efnahagsstjórn landsins undangengin ár, peningastefnuna, pólitísk tengsl, fjármálaóstöðugleika, stærð bankakerfisins, krosseignatengsl, stofnanaumhverfið, lánasvall, gífurlega skuldsetningu, eftirlitsleysi, áhættu, óheppni og fleiri þætti til orsakavalda efnahagshrunsins. Fjallað er um leiðir til úrbóta og ber helst að nefna mikilvægi þess að endurvekja traust, hjá þjóðinni og á alþjóðavettvangi, á stofnunum ríkisins, auka gagnsæi og upplýsingaflæði um stöðu opinberra fjármála og leita aðferða til að létta greiðslubyrði heimila og fyrirtækja.

Bakgrunnur: Höfundar eru hagfræðingarnir Jón Daníelsson og Gylfi Zoega en báðir hafa rannsakað og skrifað um bankahrunið. Jón hefur starfað hjá hjá London School of Economics  og Gylfi hjá Háskóla Íslands og Birkbeck College, University of London. Höfundar verksins hafa báðir umtalsverða reynslu af háskólakennslu og rannsóknum í hagfræði og hlotið viðurkenningar fyrir framlög sín til fræðanna. Því er ljóst að þeir hafa yfirgripsmikla og djúpstæða þekkingu á málefninu. Í greininni er vísað til rannsókna þeirra beggja auk rannsókna og fræðigreina annarra fræðimanna s.s. Robert Wade, Robert Aliber, Ragnar Árnason og Þorvald Gylfason. Jafnframt því er vísað í skýrslur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Viðskiptaráðs Íslands og fleiri stofnana.

Umfjöllun: Greinin skiptist niður á ellefu kafla. Fyrsti kaflinn er inngangskafli þar sem stiklað er á stóru um efni greinarinnar. Annar kafli lýsir sögulegum bakgrunni hagkerfisins og í þeim þriðja er aðdragandi hrunsins rakinn. Kaflar fjögur og fimm fjalla um spákaupmennsku og viðvaranir og sá sjötti um viðbrögð ríkisstjórnarinnar við yfirvofandi erfiðleikum. Í sjöunda kafla er fjallað um bankakreppuna á Íslandi sem kerfisbundna kreppu og er nánari útskýring á því gefin. Áttundi kafli fjallar um þær leiðir sem farnar hafa verið til að glíma við kreppuna og níundi kafli er spá um framtíðarhorfur. Tíundi kafli er um leiðir til úrbóta og í þeim ellefta og síðasta eru dregnar ályktanir af því sem til umfjöllunar var í greininni. Greinin er þannig yfirlit yfir atburðarásina en einnig greining á henni, orsökum hennar og afleiðingum.

 

Fljótlega eftir útgáfu ritsmíðarinnar birtust höfundarnir tveir í viðtali í Kastljósi þar sem rætt var um efni hennar. Sagði Gylfi Zoega að tilgangurinn með verkinu væri að segja frá því hvað hafði í rauninni gerst. Hafi þeim fundist vanta að sagt væri hreint og beint frá því hvað gerðist, þar sem margir aðilar málsins hafi hagsmuna að gæta og verji því sína stöðu, sinn orðstí og sín völd. Höfundum tekst vel að útskýra orsakir hrunsins, aðdraganda þess og eftirmála í aðalatriðum, á tungumáli sem flestir skilja. Greinin er þægileg aflestrar að því leyti að höfundar nota ekki fræðilegt eða flókið mál og á nánast hver sem er að geta lesið greinina og haft gagn og jafnvel gaman að.

Höfundarnir eru hlutlægir í skrifum sínum, eru sanngjarnir en draga þó hvergi úr. Þeir telja ábyrgðina að miklu leyti liggja hjá bönkunum og í stjórnkerfinu en vert er að taka fram að hvergi eru nefnd nöfn, hvorki stjórnmálamanna, bankamanna né annarra sem áttu hlut að máli. Höfundar útskýra mál sitt vel, þeir vísa í heimildir og staðhæfingum þeirra fylgir rökstuðningur. Niðurstaðan er því sú að höfundum takist ætlunarverk sitt að útskýra fyrir almenningi, á stuttan en greinargóðan hátt, hvað í raun gerðist og hvers vegna svo fór sem fór.

Jóhanna Sigurjónsdóttir, nemandi í sagnfræði, nóvember 2014