Endurtekin stef

Skirnir 2009Guðrún Nordal. „Endurtekin stef um óhóf, ofsa og ágirnd.“ Skírnir 183 (vor 2009): 76-86.

Efni: Í upphafi greinarinnar fjallar höfundur um tímaskeið þegar sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar hefur verið ógnað, og ber saman við svipaðar kringumstæður í aðdraganda og við hrun íslensku bankanna árið 2008. Stundum hafi náttúruöflin krafið Íslendinga um að standa frammi fyrir slíkum ógnum, en höfundi finnst erfiðast að sætta sig við það, þegar slíkir hlutir stafa af manna völdum, eins og varð haustið 2008.

Bakgrunnur: Guðrún Nordal er prófessor og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Hún er með doktorsgráðu frá Oxford University, Christ Church College. Nefna má í þessu sambandi að doktorsritgerð höfundar fjallaði um Sturlungaöld svo að hún er á heimaslóð við þennan samanburð.

Mat: Höfundur ber í greininni saman sérstaklega atburði Sturlungaaldar og nútímans, en þó takmarkar hún sig við tímabilið frá 1235 þegar Sturla Sighvatsson kom til Íslands þar til árið 1255 að Flugumýrarbrenna varð. Hún tekur fram að vegna fámennis þjóðarinnar sé það nauðsynlegt að hafa skýrar leikreglur en þó sveigjanleika í samskiptum sem leiði af sér að jafnvægi á milli einstaklinga geti orðið sérlega viðkvæmt. Dæmin sanni að mikilvægt sé fyrir landsmenn að gæta meðalhófs svo að ekki fari illa. Hún nefnir til samanburðar við bankahrunið 2008 atburði, svo sem móðuharðindin á 18. öld og siðbreytinguna á 16. öld, en snýr sé svo að samanburði við fyrrgreint tímabil Suturlungaaldar.

Í samanburðinum gerir höfundur grein fyrir því að þjóðfélagsgerð 13. aldar hafi verið að mörgu leyti ólík þeirri í nútímanum en bendir á að mannleg náttúra sé söm við sig á hvaða öld sem við lifum og einnig að siðferðisgildin, sem samfélagsgerðin er reist á, séu sambærileg. Því sé samanburðurinn raunhæfari en ella. Höfundur bendir á að frásagnir af atburðum Sturlungaaldar hafi verið færðar til bókar af þátttakendum í óöldinni og því þurfi menn að vara sig við túlkun atburða. Einnig nefnir hún að á síðustu tveim öldum hafa menn skrumskælt frásagnirnar í ýmsum tilgangi, svo sem við sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. og 20. öld. Varar höfundur við því að við frásagnir af aðdraganda af hruni bankanna falli menn nú ekki í þá sömu gryfju og einfaldi samtímann í þeim tilgangi að hagnýta sér hann í hvers kyns málflutningi. Síðan rekur höfundur hvernig menn það voru, sem léku aðalhlutverk í styrjöldinni á 13. öld og kemst að þeirri niðurstöðu að það hafi verið barátta „…á milli nokkurra valdsmanna, ungra karlmanna, sem voru auk þess nánir frændur, mágar og jafnvel vinir“ (s. 78). Nafngreinir hún þá helstu. Svo ritar höfundur eftirfarandi um þá fáu höfðingja sem léku aðalhlutverkin á 13. öld: „Sundurlyndi þeirra, ágirnd og ásókn í völd, fé og eftirsókn í vegtyllur og viðurkennningu við erlendar hirðir raskaði viðkvæmu valdajafnvægi í litlu landi og skapaði andrúmsloft öryggisleysis og tortryggni“ (s. 79).

Smátt og smátt, þegar leið á öldina, jukust áhrif norskra konunga á Íslandi þannig að höfundur telur að samningur við Hákon gamla árið 1262-1264 hafi í raun verið rökrétt framhald af því sem áður var orðið. Í höndum örfárra höfðingja á öldinni hafði framkvæmdavaldið hrifsað til sín löggjafarvaldið í krafti auðs og hervalds svo að gamla goðavaldið hafði hopað og svo varð einnig um áhrif Alþingis. Telur höfundur að hliðstæður 21. aldarinnar hrópi til okkar í þessu samhengi.

Þá gerir höfundur mjög áhugaverðan samanburð á þeim valdastofnunum sem ríktu á Íslandi undir lok 13. aldar, sterku konungsvaldi og erlendu kirkjuvaldi, annars vegar og hinu miðstýrða valdi Evrópusambands nútímans og tilhneigingar Íslendinga í nauðum sínum til þess að leita á náðir þess eftir bankahrunið. Þessi samanburður hlýtur að vekja lesandann til umhugsunar um hversu mjög var þrengt að sjálfstæði landsins í kjölfar bankahrunsins og hvert sumir ráðamenn horfðu þá til bjargar. Lesandann grunar að með þessum samanburði sé höfundur ef til vill að gefa í skyn að sú leið hefði ekki aukið sjálfstæði landsins og sjálfsákvörðunarrétt landsmanna, frekar en styrking erlenda kirkjuvaldsins á ofanverðri 13. öld gerði.

En svo snýr höfundur við blaðinu og hefur sig upp úr því svartnætti sem fyrir Íslendingum gæti blasað ef framvinda landsmála yrði sambærileg nú og hún varð eftir lok Sturlungaaldar og hún fyllist bjartsýni á framvinduna. Því til stuðnings nefnir hún að þrátt fyrir yfirráð norskra konunga rann íslenskt samfélag aldrei saman við það norska. Þar réð mestu að tungumál þjóðanna greindust í sundur strax á næstu öld en íslenskir höfundar héldu áfram að rita á íslensku. Latínan var líka notuð af kennimönnum innan kirkjunnar og í samskiptum þeirra við erlenda menn.

Loks lýkur höfundur greininni með sýn til framtíðar. Hún telur að styrkur okkar Íslendinga felist í því að vera við sjálf, án þjóðarrembings, að tala íslensku og læra tungumál þeirra þjóða sem við erum í samskiptum við. Þá eigum við að „…hlúa að styrkleika okkar, hugviti og nýsköpun, og missa ekki sjónar á þeim siðferðilegu gildum sem búa í menningu okkar og sögu.“ Okkur sé nauðsyn að vera á varðbergi gagnvart sundurlyndi, ofsa og óhófi og að hinn siðferðilegi brestur sé sífelld ógn.

Undirrituðum, sem lesanda greinarinnar, er sérlega ljúft að taka undir hvert orð sem höfundur ritar um þann siðferðisbrest, sem sífellt ógnar samfélagi okkar. Í heild er samanburður höfundar á aðstæðum á fyrrgreindu tímabili Sturlungaaldar og nútímanum á Íslandi afar frumlegur og heillandi. Svo sannarlega tók fámennur hópur völdin á Íslandi í aðdraganda bankahrunsins og svo gerðist einnig á Sturlungaöld, þó að meðulin og aðferðirnar væru ólíkar. Völdin færðust á hendur örfárra í báðum tilvikum en afleiðingar á Sturlungaöld urðu þær að landsmenn gengu erlendu konungsvaldi á hönd en í nútímanum stóð sjálfstæði landsins tæpt. Siðferðisbrestur margra aðalþátttakenda á báðum tímabilum var sambærilegur og tilgangur svipaður, nefnilega taumlaus ágirnd í völd og fjármuni.

Höfundur lýkur grein sinni með ákalli til Íslendinga að gæta sín í framhaldinu, landsmenn eigi valkosti og miklu varði að rétt sé valið. Sá sem hér skrifar hefur kynnt sér talsvert af efni um hrunið en telur að þetta sé það, sem hreyfir mest við manni og vekur mann mest til þeirrar ábyrgðar, sem hverjum manni á að vera ljós. Er þetta skrifað með fullri virðingu fyrir þeim fræðimönnum öðrum, sem hefur verið lesið eftir.

Benedikt Sigurðsson, BA-nemi í sagnfræði, nóvember 2014.

 

Ein athugasemd á “Endurtekin stef

Lokað er á athugasemdir.