Þeirra eigin orð

þeirra eigin orðÓli Björn Kárason. Þeirra eigin orð. Fleyg orð auðmanna, stjórnmálamanna, álitsgjafa og embættismanna. Reykjavík: Bókafélagið Ugla, 2009.

Efni: Verkið er, eins og titillinn gefur til kynna, samansafn tilvitnana í stjórnmálamenn, embættismenn, viðskiptajöfra og aðra sem létu til sín tsks í þjóðfélaginu á árunum fyrir bankahrunið á Íslandi 2008 og fram í október 2009, en þá var bókin gefin út. Tilvitnanir eru birtar án sérstakra útskýringa höfundar, en hvað hver sagði, hvenær og hvar kemur samviskusamlega fram fyrir neðan hverja tilvitnun. Þær eru látnar standa fyrir sínu óáreittar og enginn texti frá eigin brjósti höfundar er í bókinni, ef frá er talinn formálinn. Þar lýsir hann því að söfnun þeirra tilvitnana sem bókin samanstendur af sé sérstakt áhugamál og sú söfnun hafi verið honum eingöngu til ánægju. Bókin er ætluð almenningi og gefur skýra mynd af þjóðfélaginu sem fór hratt upp og enn hraðar niður á fyrsta áratug aldarinnar.

Bakgrunnur: Óli Björn Kárason er hagfræðingur að mennt. Hann var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Suðvesturkjördæmi frá apríl 2010 til september 2010, í október 2013, mars 2014 og október 2014. Sömuleiðis var Óli Björn ráðinn tímabundið aðstoðarmaður Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra í janúar 2014. Óli Björn hefur því lengi verið viðloðandi Sjálfstæðisflokkinn og stjórnmál á Íslandi. Segja má að með menntun sinni og þátttöku í stjórnmálum á síðustu árum hafi Óli Björn ágæta innsýn í þann heim sem hann lýsir í bók sinni.

Mat: Höfundur raðar tilvitnunum niður í kafla og skiptir þeim niður eftir efni, þar sem tilvitnanir ákveðins hóps eða tíma eru teknar fyrir og raðað saman. Þannig má segja að hver kafli hafi ákveðið þema. Kaflarnir eru samtals 20 og eru heiti þeirra meðal annars Baugur og fallið, Forsetinn, auðmenn og útrásin, Hið ljúfa líf, Misnotkun fjölmiðla, Útrásarvíkingar og snilli, svo fáeinir séu nefndir. Hverjum kafla er raðað í tímaröð, svo orðræðunni í samfélaginu sérstaklega fyrir hrun eru góð skil gerð, sem og árinu eftir hrun. Efnisyfirlit er fremst, með yfirliti yfir kaflana, svo auðvelt er að nálgast þá

Þeirra eigin orð er greining á þeirri orðræðu sem átti sér stað í íslensku samfélagi um uppgang, útrás og harkalegt fall íslensku bankanna. Bókin er sett upp á einfaldan máta. Höfundur velur tilvitnanir eftir eigin hentisemi, eftir eigin smekk og segir sjálfur ,,… að um handahófskennt val sé að ræða” (s. 7). Engin heimildaskrá fylgir, né er stuðst við áður útkomin sagnfræðileg rit eða kenningar. Vissulega er vitnað á einum eða tveimur stöðum í ræður eða fyrri rit, en bókin byggir ekki á þeim, heldur er einungis tekið úr þeim það sem höfundur telur að eigi við þema bókarinnar. Þótt engin sé heimildaskráin er nafnalisti aftast sem gerir lesanda kleift að fletta þar upp fólki sem vitnað er til í bókinni.

Óli Björn setur bókina upp á skemmtilegan hátt og er þessi bók einstaklega auðlesin. Verkið er skemmtilegt, kómískt og er höfundur einkar lunkinn við að velja tilvitnanir og setur þær saman þannig að lesandi missir ekki þráðinn, né verði ringlaður við lesturinn. Þemun skila sér vel, þar sem flæði á milli kaflanna er mjög gott. Höfundi tekst ætlunarverk sitt, sem er að setja á einn stað tilvitnanir sem sýna hugsunarhátt manna á þessum uppgangs- og krísutímum. Sérstaklega tekst honum að varpa ljósi á hugarfarið fyrir hrun og sýna almenningi á þann hátt að hann spyr sig hvað hafi eiginlega gengið hér á árin fyrir hrun. Auðvitað er hægur vandi að vera vitur eftir á, en hér er komið rit þar sem öllum þessum ummælum í viðtölum, í skýrslum og í blaðagreinum er safnað saman. Við lestur þeirra er erfitt að hneykslast ekki á þeirri orðræðu sem var í samfélaginu á uppgangsárunum. Hinir og þessir ásaka suma, lofa aðra og lasta marga sem síðar kom í ljós að höfðu ekkert nema óhreint í pokahorninu. Lestur þessarar bókar skilur því eftir sig vangaveltuna: Hvað vorum við að spá?

Í tveimur köflum bókarinnar, Samfylkingin og auðmennirnir og Samfylkingin, VG og Evrópusambandið er áhugavert að sjá hvernig sjálfstæðismaður greinir umræðuna um stjórnarflokkana er tóku við 2009 og ummæli þeirra. Þó má ekki ganga út frá því að hann hlífi Sjálfstæðisflokknum og þá sérstaklega Davíð Oddssyni, enda eru tilfærð ummæli Davíð í bókinni ekki til þess að hækka álit lesandans á þessum fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóra. Höfundur hefur einkar gott lag á að þefa uppi ummæli sem eflaust voru sögð í hita leiksins en líta strax mjög illa út í október 2009 þegar bókin kom út. Óli Björn Kárason er þess vegna að segja eitthvað á borð við: Sjáiði hversu heimskulega þið lítið út núna. Undirliggjandi tónn bókarinnar Þeirra eigin orð er því heljarinnar skemmtilegur.

Arna Vilhjálmsdóttir, nemandi í sagnfræði