Bringing Down The Banking System

bringing downGuðrún Johnsen. Bringing Down The Banking System. Lessons from Iceland. Basingstoke, Hampshire: Palgrave Macmillan, 2014.

Efni: Bókin fjallar um bankahrunið 2008, aðdraganda þess og eftirmál. Nánar tiltekið er horft til tímans fram að því og einnig eftir það. Bókinni er skipt í fjóra hluta; í þeim fyrsta greinir Guðrún frá vangaveltum sínum og upplifun fyrir hrun. Því næst fer hún nokkuð ítarlega yfir aðdragandann (frá 15. september 2008) fram að hruni og rekur ferðir, samtöl og fundi stjórnarmanna bankanna og landsins. Í öðrum hluta útskýrir hún hvernig þetta var allt mögulegt; hvernig tókst að stækka bankana svona hratt á örfáum árum. Í þriðja hluta er reynt að svara því afhverju bankamennirnir gengu fram með þeim hætti sem þeir gerðu. Þar er litið til markaðsmisnotkunarinnar sem átti sér stað fyrir hrun og einnig ótrúlegra tengsla fyrirtækja á Íslandi sem líkust helst köngulóarvef. Að lokum spyr Guðrún hvers vegna bankarnir voru ekki stöðvaðir? Þar veltir hún einnig fyrir sér hvaða lærdóm við getum dregið af bankahruninu 2008.

Bakgrunnur:  Guðrún Johnsen er menntuð í fjármálahagfræði, starfaði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og vann með Rannsóknarnefnd Alþingis við rannsóknarskýrsluna miklu um orsakir á falli bankanna. Nú starfar hún sem lektor í fjármálahagfræði við Háskóla Íslands. Bókin byggir því á kenningum og lærdómi fjármálafræðanna, en einnig gögnum og niðurstöðum Rannsóknarnefndar Alþingis. Einnig má segja að Guðrún sé að vissu leyti „hlutlaus“, þar sem hún átti ekki beinan eða óbeinan þátt í þeirri þróun sem leiddi til hrunsins og því ekki hægt að saka hana um að verja ákveðna hagsmuni.

Umfjöllun: Sagan af íslenska bankahruninu sem Guðrún Johnsen rekur er mögnuð og vekur óhug enda veltir lesandi fyrir sér hvernig í ósköpunum þetta gat allt gerst. Hún útskýrir í bókinni þróunina á örum vexti íslenska bankakerfisins og hina mikla skuldasöfnun sem átti sér stað undir algjörlega ófullnægjandi eftirliti. Hún varpar einnig ljósi á hve viðskiptahættir bankanna voru orðnir vafasamir, hve áhættusæknir starfsmenn þeirra voru og siðlausir þegar allt stefndi í óefni. Því slæma ástandi sem bankarnir voru komnir í strax árið 2006 er vel lýst, en þá fékk Ísland alvarlegar viðvaranir um áhættuna sem fylgdi ofþenslu innlendu bankanna. Þá hægðist á framboði á fé til endurfjármögnunar, en Landsbankinn og Kaupþing reyndu í staðinn að bjarga sér með söfnun sparifjár frá almenningi í Bretlandi og síðar fleiri löndum með Icesave og Edge reikningunum. Það var svo haustið 2007 þegar þessi áhætta varð að köldum veruleika og markaðirnir lokuðust. Skuldir bankanna hækkuðu, hlutabréfavísitalan lækkaði og gengi íslensku krónunnar tók skömmu síðar að lækka. Þessi þróun var stöðug fram til sumarsins 2008. Til að bæta gráu ofan á svart sóttu bankarnir lán til Seðlabanka Íslands gegn algjörlega ófullnægjandi veðum sem, eins og þekkt er orðið, hafa verið kölluð „ástarbréf“. Þessi lántaka leiddi að lokum til gjaldþrots Seðlabanka Íslands.

Það vakti athygli mína að Guðrún tók árið 2005 þátt í að skrifa skýrslu fyrir AGS sem fjallaði um vaxandi áhættu vegna miklar skuldasöfnunar í nokkrum löndum, þeirra á meðal á Íslandi. Sú uppgötvun varð til þess að Guðrún fór á milli Fjármálaeftirlitsins, Seðlabanka Íslands og forsætisráðherra í von um að geta vakið athygli á stöðunni. Hún fékk dauflegar viðtökur og enginn virtist vilja taka mark á henni. Tíðarandinn var einfaldlega þannig á þessum tíma að það virtist enginn vilja „stoppa partýið“. Það var svo í mars 2007 að Guðrún skrifaði grein í Viðskiptablaðið um óraunhæft lánshæfismat íslensku bankanna. Þar vakti hún athygli á að Seðlabankinn væri orðinn óhæfur í því að starfa sem lánveitandi til þrautavara.

Frásögninin í Bringing Down the Banking System grípur mann strax í byrjun; fyrstu fimm kaflarnir eru mjög spennandi. Guðrún rekur þar atburðarásina hér á Íslandi ítarlega, allt að falli bankanna. Til dæmis nær höfundur að halda manni föstum við lesturinn með frásögn af samskiptum milli ríkisstjórnar Íslands og bankamanna, þegar þeir tóku að átta sig á í hvað stefndi hér í kjölfar falls Lehman Brothers í Bandaríkjunum. Frásögnin minnir á spennandi glæpasögu á þessum kafla. Maður finnur fyrir spennunni og stressinu sem ríkti á þeim ótal fundum sem stjórnmálamenn og bankamenn sátu þar sem afdrifaríkar ákvarðanir voru teknar.

Í bókinni er svarað spurningum sem margir hafa velt fyrir sér: Hvernig gat litla og fámenna Ísland byggt upp bankakerfi á innan við áratug sem varð stærra en bankakerfi Sviss? Afhverju stækkaði bankakerfið svona hratt, var það planað eða gerðist það einfaldlega af gáleysi? Hvernig gátu fyrirtæki tekið svona mikið fjármagn út úr bankakerfinu? Afhverju stöðvaði enginn bankamennina?

Ég tel að helstu kostirnir við bókina Bringing Down the Banking System séu að hún er skrifuð af manneskju sem lesanda finnst hann geta treyst, að hún sé ekki eingöngu fær um að skrifa verkið, heldur að umfjöllunin sé hlutlæg. Reynsla Guðrúnar, t.d. við gerð Rannsóknarskýrslu Alþingis, og menntun hennar fær lesanda til að treysta skrifum hennar fullkomlega. Ég finn fá fáa galla á bókinni, en hún hentar mögulega ekki þeim sem hafa takmarkaðan skilning á bönkum og fjármálum. Hér er hvorki á einfaldan né auðveldan hátt útskýrt hvernig bankamennirnir fóru að því að setja heimsmet í hraðri stækkun banka, þannig að efnið gæti reynst flókið fyrir þá sem hafa litla reynslu af slíkum málum.  Að lokum mæli ég óhikað með Bringing Down the Banking System fyrir alla sem ekki vita upp á hár hvað gekk á hér á landi fyrir hrunið 2008. Bókin er ekki of löng og er frekar þægileg aflestrar.

Einar Þórmundsson, nemandi í hagfræði, nóvember 2014