Ísland ehf.

islandehfMagnús Halldórsson og Þórður Snær Júlíusson. Ísland ehf. Auðmenn og áhrif eftir hrun. Reykjavík: Vaka Helgafell, 2013.

Efni:  Þegar íslenska bankakerfið féll 2008 þá hafði það óumflýjanlega slæm áhrif á atvinnulífið. Mörg fyrirtæki og fjárfestingafélög gátu ekki staðið við skuldbindingar sínar og þurftu á endurskipulagningu að halda. Þetta hafði í för með sér að landslagið hefur breyst í íslensku viðskiptalífi, fjármagn hefur skipt um hendur og völd sömuleiðis, þó enn séu ekki öll kurl komin til grafar. Í bókinni er fjallað ítarlega um íslenska efnahags- og viðskiptalífið í kjölfar bankahrunsins. Sýnt er fram á hvernig stærstu viðskiptablokkir landsins komu út úr hremmingunum og hvernig farið var að við endurskipulagningu helstu fyrirtækjanna. Þá er sjónum beint að slitabúum föllnu bankanna, erlendum vogunarsjóðum, og leitast við að svara því hverjir hafa öðlast mesta fjármuni og völd í kjölfar efnahagshrunsins. Höfundar komast meðal annars að þeirri niðurstöðu að of snemmt sé að segja til um hvernig endurreisn íslensks viðskiptalífs hafi tekist.

Bakgrunnur: Höfundar bókarinnar eru blaðamenn og hafa skrifað fjölda frétta og greina um efnahagsmál á síðustu árum. Þeir búa því yfir einstökum upplýsingum og þekkingu um málefnið. Óljóst er hvaðan þeir Magnús og Þórður Snær sækja heimildir sínar, því yfirleitt er það ekki tekið fram og engin heimildaskrá fylgir. Þó virðist sem þeir byggi greiningu sína að miklu leyti á ársreikningum félaga, fjölmiðlum og upplýsingum frá ónafngreindum heimildarmönnum.

Umfjöllun: Meginþunginn í umfjöllun höfunda tekur til tímabilsins frá því er bankarnir hrundu árið 2008 og til ársins 2013, þegar bókin kemur út. Fjallað er ítarlega um til hvaða aðgerða var gripið til að endurreisa bankakerfið annars vegar og atvinnulífið hins vegar. Í bókinni er athyglinni beint sérstaklega að nokkrum af stærstu fyrirtækjum og viðskiptablokkum landsins og hvernig þeirra „hrunsaga“ lítur út. Dregin er upp glögg mynd af viðskiptaumsvifum fyrirferðarmestu athafnamanna landsins og litið bak við tjöldin. Þá er nokkru púðri eytt í að greina hvernig staðan er fimm árum eftir hrunið og hvernig efnahags- og viðskiptaskilyrði eru á Íslandi nú um stundir, sérstaklega vegna gjaldeyrishaftanna.

Bókin skiptist í þrjá hluta sem skiptast aftur í alls 23 kafla. Fyrsti hluti fjallar um hrunið sjálft, aðdragandann og atburðarásina sem fór af stað á haustmánuðum 2008, með tilheyrandi aðgerðum stjórnvalda. Annar hluti, sem er jafnframt sá umfangsmesti, fjallar um helstu viðskiptablokkir og fyrirtæki landsins; hvernig félögin uxu í góðærinu, hverjir keyptu hvað, á hvaða kjörum, og hvernig félögin komu út úr hruninu. Í þriðja hlutanum, „Hverjir eiga Ísland?“ er sjónum beint að stöðunni, eins og hún blasir við höfundum í dag; hverjir hafi komið best út úr hruninu, hvernig viðskiptaumhverfið er á Íslandi í dag og hvaða vafamál eru uppi um losun gjaldeyrishafta og erlenda kröfuhafa. Þó allir hlutarnir séu góðir, þá er annar hluti sérstaklega sterkur. Þar er að finna heildstæða, en á sama tíma ítarlega, umfjöllun um afdrif „stærstu bitanna,“ Baugs, Björgólfs Thors, Exista, Bakkavararbræðra sem og stærstu fyrirtækja landsins og greiningu á því hvers vegna mál þróuðust með þeim hætti sem raun ber vitni. Vandfundið er rit sem gerir þessum þáttum hrunsins jafn góð skil.

Ísland ehf. er í senn yfirlit og greining. Umfjöllunin byggir á yfirliti yfir helstu leikendur og atburði, er tengjast íslenska viðskiptalífinu í kjölfar hrunsins, en jafnframt er greint hvernig auður hefur skipt um hendur á síðustu misserum og hvaða félög komu verr út en önnur. Til dæmis leiddi greining höfunda það í ljós, að eldsneytisfyrirtækin hafi, vegna skuldavafinna eigenda, komið sérlega illa út úr hruninu: „Hvernig má það vera að þrjú fyrirtæki, með tæplega 95 prósent af allri veltu á eldsneytismarkaði, hafi öll verið í þannig standi eftir bankahrunið að ekkert þeirra réð við skuldirnar sínar? Svörin við því er að mestu leyti að finna hjá eigendunum“ (s. 161).

Bókin er  býsna sérhæfð á köflum og nokkuð er stuðst við hugtök úr heimi viðskipta: „Á árunum fyrir hrun gátu aðalmiðlarar, sem voru ýmis fjármálafyrirtæki, fengið lánuð ríkisverðbréf til skilgreinds tíma gegn því að leggja fram tryggingabréf. Markmiðið var að auðvelda aðalmiðlurum að uppfylla kröfur um viðskiptavakt á verðbréfamarkaði“ (s. 273).  Ef gengið er út frá því að hugtökin aðalmiðlari, ríkisverðbréf og viðskiptavakt flokkist ekki undir almenna vitneskju, þá virðist sem verkið sé ætlað þeim sem hafa þekkingu á viðskiptum, frekar en almenningi.

Ísland ehf. hefur nokkra sérstöðu í flóru hrunbókmennta, því lítið hefur verið skrifað um árin eftir hrun og hvernig gengið hefur að endurreisa viðskiptalífið í landinu. Markmið höfundanna virðist, að einhverju leyti, vera að fylla upp í það tómarúm. Þeim ferst verkið afar vel úr hendi, og ekki er annað að sjá en að þeim takist ætlunarverk sitt. Lesandinn fær góða heildaryfirsýn yfir þróun síðustu ára, á sama tíma og ákveðnar viðskiptafléttur, löglegar og ólöglegar, eru útskýrðar með nákvæmum hætti.

Það er hins vegar galli hversu sjaldan er getið heimilda og að engin heimildaskrá fylgi. Slíkt myndi auðvelda áhugasömum lesendum að nálgast ítarefni um einstök umfjöllunarefni bókarinnar. Jafnvel þótt engin ástæða sé til að véfengja þær upplýsingar sem settar eru fram, þá hefði það veitt höfundum meira lögmæti að vísa oftar í heimildir fyrir staðreyndum. Dæmi um þetta er umfjöllun um samskipti Róberts Wessmann og Björgólfs Thors: „Logandi illdeilur höfðu verið á milli Róberts og Björgólfs Thors skömmu áður en Róbert hætti. Ástæður þeirra voru margþættar, meðal annars vandamál í verksmiðjum Actavis í Bandaríkjunum sumarið 2008“ (s. 102). Hér þarf lesandinn einfaldlega að treysta því að höfundar hafi örugglega rétt fyrir sér um ástæður deilnanna milli viðskiptajöfranna, en ekki er skýrt hvaðan þessar upplýsingar koma. Skortur á nafna- og atriðaskrá er sömuleiðis mikill galli. Bókin er tæpar 300 blaðsíður og því væri viðeigandi að hafa skrá aftast, þar sem hægt væri að fletta upp ákveðnum atriðum. Ekki er ólíklegt að þessir þættir, skortur á heimilda- og atriðaskrá, muni til lengri tíma rýra gæði verksins sem gagnlegrar heimildar um hrunið.

Höfundar þekkja umfjöllunarefnið vel og nýtist starfsreynsla þeirra greinilega við skrif bókarinnar. Þetta getur þó bæði verið kostur og galli. Bókin er vel skrifuð og málfar ágætt, en getur á sama tíma reynst erfið aflestrar á köflum. Ítarleg, og á köflum djúp, umfjöllun um viðskiptafléttur gerir það að verkum að auðvelt er að týna þræðinum. Eins og áður sagði, þá getur þó verið að verkið sé frekar ætlað þeim sem hafa ýmist mikla þekkingu eða áhuga á viðskiptum og þá getur þetta varla talist galli.

Þegar svona bók er skrifuð, þar sem skyggnst er bak við tjöldin, og fjallað um viðskipti og athafnir einstakra aðila, liggur beint við að spyrja sig hvort höfundar nái að koma boðskapnum til skila á hlutlægan hátt. Ekki er annað að sjá en að ýmsir, sérstaklega Ágúst og Lýður Guðmundssynir, fái verri útreið hjá höfundum en aðrir: „Lýður og Ágúst hafa aldrei kunnað að draga víglínurnar á réttum stöðum“ (s. 114) er til dæmis skrifað. Lesandi fær á tilfinninguna að höfundum bókarinnar sé ekki hlýtt til þeirra bræðra, enda kemur fram í bókinni að bræðurnir hafi tekið Þórð Snæ á teppið og skammað hann fyrir óvæginn fréttaflutning um Exista (s. 115).

Heilt yfir er Ísland ehf. mjög fróðleg en það er þó tæplega hægt segja að hún sé hressandi eða spennandi lesning, enda er það líklega ekki markmiðið, og hreinlega ekki víst að efnistökin bjóði upp á það. Fyrir þá sem vilja fá glögga mynd af viðskiptalífi síðustu ára og stöðunni á Íslandi í dag, þá er bókin hins vegar tilvalin og er hún jafnframt, vegna sérstöðu sinnar, sérlega mikilvægt innlegg í umræðu um hrunið.

Jón Þór Kristjánsson, nemandi í sagnfræði, nóvember 2014

Önnur umfjöllun