Umsátrið

umsátriðStyrmir Gunnarsson. Umsátrið – Fall Íslands og endurreisn. Reykjavík: Veröld, 2009.

Efni: Bókin fjallar um ástæður bankahrunsins sem feykti öllu um koll hér á Íslandi í október 2008. Mest áhersla er lögð á utanaðkomandi þætti, ekki síst samskipti annarra þjóða við Ísland árin fyrir hrun. Því er meðal annars haldið fram að sameiginleg ákvörðun hafi verið tekin ytra á árinu 2008 um að hætta að veita íslensku bönkunum lán, nema gegn háum vöxtum. Styrmir fjallar einnig um ábyrgð helstu bankamanna, auk stjórnmálamanna og annarra ráðamanna. Í lok bókarinnar fjallar hann svo um mánuðina eftir hrun og þar t.d. hvetur hann til beins lýðræðis sem ákveðins uppgjör við hrunið.

Bakgrunnur: Styrmir Gunnarsson var um árabil ritstjóri Morgunblaðsins, auk þess að vera áhrifamaður í innsta hring Sjálfstæðisflokksins.

Umfjöllun: Bókin er í raun yfirlitsrit, en er að mestu afmarkað við samskipti á milli íslenskra bankamanna og stjórnmálamanna við nágrannaþjóðir okkar. Henni er skipt í fimm meginkafla, með mismörgum undirköflum. Í fyrsta kaflanum er byrjað að ræða um „umsátrið“ sem Ísland lenti í, fjallað er um samskipti íslenskra bankastjórnenda og embættismanna árið 2008 og því haldið fram að það hafi verið sameiginleg stefna nokkurra nágrannaríkja að stöðva öll lánaviðskipti við íslenska banka. Þar eru tiltekin lönd eins og England, Holland, Lúxemborg, Svíþjóð og Danmörk, auk Evrópusambandsins.

Því næst er fjallað sérstaklega um samskipti breskra stjórnvalda við Landsbankann og Kaupþing dagana fyrir hrun og á sjálfum hrundögunum og samskipti íslenskra stjórnvalda og íslenskra bankastjórnenda þá daga. Sérstakur undirkafli snýr að lengri aðdraganda hrunsins, á tímabilinu 2005 til 2008. Sagt er frá helstu viðvörunum um fall bankana á þeim tíma og segir Styrmir að sjálfur hafi hann byrjað að hafa áhyggjur um framtíð íslenskra banka tveimur mánuðum eftir ráðningu Davíðs Oddsonar sem seðlabankastjóra. Þær áhyggjur hafi hann viðrað við Geir H. Haarde, sem þá var utanríkisráðherra og Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra. Styrmir segir að umræðan og ástandið í þjóðfélaginu hafi verið þannig að stjórnvöldum hafi verið ómögulegt að grípa inn fyrr en í fyrsta lagi um mitt árið 2008 og veltir hann fyrir sér hvað hefði þá verið hægt að taka til bragðs. Í lok fyrsta kafla er sér kafli um Icesave málið og í blálokin skýrir Styrmir svokallaða umsáturskenningu.

Í öðrum hluta lýsir Stymir stóru bönkunum þremur og fær hver og einn þeirra sinn undirkafla. Þar er fjallað um stöðu og ákvarðanir bankamanna í útrásinni og tímann í kringum hrunið. Auk þess fjallar einn undirkafli um Seðlabanka Íslands, annar um fjármálaeftirlitið og er áhersla lögð á störf þeirra og ákvarðanir á árunum og mánuðunum fyrir hrun.

Í þriðja hluta bókarinnar er rætt hvar ábyrgðin á hruninu gæti legið. Þar greinir Styrmir sambandið milli stjórnvalda og bankamanna varðandi ábyrgð og tryggingu á íslenska fjármálakerfinu – þ.e. hvort ríkisábyrgð væri á einkavæddu bönkunum. Þar er t.d. sagt frá kröfu sumra bankamanna um að Seðlabankinn ætti að taka lán til að geta staðið undir rekstri bankanna, þar sem fjárhagur íslenska ríkisins væri of rýr og það ætti ekki nægilega mikinn forða gjaldeyris til að standa undir því ef eitthvað færi úrskeiðis. Því næst víkur Styrmir að ábyrgð ráðherra og veltir fyrir sér hvort einhver ráðherrana hafi gert afglöp í starfi á grundvelli laga um ráðherraábyrgð. Auk þess ræðir hann landsdóm og möguleikann á að ráðherrar yrðu dregnir fyrir hann, ásamt því að meta stöðu þeirra sem höfðu eftirlitsskyldu, þ.e. fjármálaeftirlits og Seðlabanka. Hann bendir t.d. á að Seðlabankinn hafi ekki verið með nægilega marga í starfi til að fylgjast með þessum stóru alþjóðlegu bönkum. Auk þessa ræðir Styrmir um ábyrgð sérfræðinga og fjölmiðla, sömuleiðis annarra embættismanna í landinu, ekki síst þingmanna og forsetans. Að lokum skrifar Styrmir um aðgerðir og samskipti ríkisstjórnaflokkana Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks eftir hrun.

Fjórði hluti bókarinnar fjallar um hugsanlegar rætur hrunsins; Styrmir nefnir upptöku kvótakerfisins og EES-samninginn sem sköpuðu fyrstu milljarðamæringana hér á landi. Í fimmta og síðasta kaflanum fjallar Stymir  um stöðuna á Íslandi mánuðina eftir hrun og hvernig framhaldið ætti að vera. Talar hann meðal annars um alþingiskosningarnar vorið 2009 og fullyrðir að þar hafi ákveðið pólitískt uppgjör átt sér stað. Þar blandar hann sér meðal annars í umræðu um beint lýðræði og hvetur til upptöku þess. Styrmir telur að hér áður fyrr hafi ráðherrar haft mun meiri aðgang að gögnum sem snúa að ákveðnum málum og það hafi verið ástæðan fyrir mikilvægi fulltrúalýðræðis þá. Aftur á móti álítur hann að staðan sé breytt í dag þar sem allt upplýsingaflæði sé orðið gerólíkt því sem áður var, með tilkomu Netsins. Því hafi almenningur nú sömu möguleika á að nálgast margvísleg gögn og stjórnmálamenn. Síðar í kaflanum fjallar hann um atvinnulífið eftir hrun. Bókin endar á hugleiðingum Stymis um stöðu Íslendinga á alþjóðavettvangi og tækifærum landsins, meðal annars í norðurslóðamálum. Hinsvegar efast hann um að við eigum sérstakt tilkall til þeirra auðæfa sem leynast á norðurhveli.

Ætlunarverk Styrmis  með bókinni Umsátrið er að sýna fram á helstu ástæður hrunsins. Honum tekst það í raun og veru. Aftur á móti má deila um hvort hann sé nægilega hlutlaus til að hann geti komist að marktækri niðurstöðu. Hann er helst til harðorður í fyrsta kafla þar sem hann talar um að nágrannaþjóðir okkar hafi tekið sig saman og lokað algjörlega á allan peningaflutning til landsins, auk þess sem andúð hafi myndast á öllu sem var íslenskt í tengslum við peningamál. Aftur á móti er eins og hann gleymi að athuga hvort ástæðan fyrir þessari „andúð“ sé að nágrannaþjóðir okkar hafi þegar í byrjun árs 2008 áttað sig á að íslensku bankarnir væru að hruni komni. Gerðu þær sér þá ljóst hve alvarleg staðan var hér á Íslandi og jafnvel að lán til íslensku bankanna myndu aldrei skila sér til baka?

Auk þessa fjallar Styrmir um fjölmargt annað það sem var í gangi hér á Íslandi og dregur þá oft úr gagnrýni sinni og réttlætir iðulega gjörðir manna; það er jafnvel eins og hann sé að reyna finna afsakanir fyrir suma hverja. Þar má helst nefna ýmsa bankamenn og tiltekna stjórnmálamenn. Vissar stofnanir fá meira gagnrýni en aðrar; til dæmis er kaflinn um Seðlabankann og FME um það bil tvær blaðsíður, en kaflinn um sérfræðingana, hagfræðiprófessora og aðra háskólamenn fimm blaðsíður. Það má færa rök fyrir að háskólaprófessorar eigi þátt í hruninu, en mætti ekki fullyrða að stofnanir sem áttu að hafa eftirlit með bönkunum beri mesta ábyrgð? Ætti þá ekki kaflinn sem gagnrýnir eftirlitsstofnanir að fá eins mikið, ef ekki meira, vægi en mat á sök háskólaprófessora?

Styrmir er vinur margra þeirra sem koma við sögu, t.d. Davíðs Oddsonar, og því má ætla að hann eigi ekki auðvelt með að gagnrýna verk Davíðs. Sést það t.d. í setningum eins og þessari: „vafalaust kemur að því, að jafnvægi kemst á mat fólks á verkum Davíðs Oddsonar, umdeildasta stjórnmálamanns þjóðarinnar á síðustu áratugum. Að það sem hann gerði á sínum valdaárum verði viðurkennt og gagnrýnin verði málefnalegri” (s. 192). Má vera að á þessum tíma hafi sum gagnrýni á Davíð verið ómálefnaleg, en það er samt varla hægt að staðhæfa að hann sem fyrrverandi forsætisráðherra beri enga ábyrgð á því sem gerðist í október 2008 – á hans vakt sem Seðlabankastjóri. Stymir gefur þætti fjölmiðla ágætt rými í bók sinn. Enn á ný getur hann ekki talist hlutlaus, enda sjálfur ritstjóri helsta blaðs landsins, Morgunblaðsins, um langt skeið. Umfjöllun hans ber þess líka merki; þótt hann viðurkenni mistök blaðsins álítur hann þau hafa verið veigaminni en annarra fjölmiðla.

Í heimildaskrá er vísað til 23 heimilda og aðeins einu sinni í hverja þeirra, sem má telja fremur lítið í 300 blaðsíðna riti. Sé formlega heimildaskráin skoðuð nánar má sjá að Styrmir vísar oft til greina úr Morgunblaðinu. Hann vísar aðeins einu sinni í heimildaskránni í annan fjölmiðil og það er DV, og þá fylgir heimild úr Morgunblaðinu með þeirri tilvísun. Þá vísar hann heilmikið í meginmáli í ýmsar heimildir, svo sem aðra fjölmiðla á borð við Fréttablaðið og Financial Times. Allar beinar tilvísanir eru skráðar í textanum einnig. Ritið er læsilegt, það sést að þarna er reyndur penni á ferð. Stymir heldur víða í gamalt málfar og stafsetningu, sem sést meðal annars á því að hann notar stafinn z, sem fæstir nota núorðið í rituðu máli.

Guðmundur Alfreðsson, nemandi í sagfræði, nóvember 2014

Önnur umfjöllun: