Vormenn Íslands

vormennMikael Torfason. Vormenn Íslands. Reykjavík: Sögur, 2009.

Efni: Birgir Thorlacius, fjárglæframaður og fyrrrum leppur útrásarvíkinga, er að deyja úr lungnakrabbameini. Hann hefur hlotið dóm og skal afplána í samfélagsþjónustu á hjúkrunarheimili í Mjódd þrisvar í viku. Einnig er hann að skilja við konu sína sem er sjónvarpsstjarna. En Birgir getur ekki dáið fyrr en hann hefur gert upp við dauða móður sinnar. Hann var sex ára þegar hún lést, opinber gögn segja að hún hafi svipt sig lífi en Birgir óttast hins vegar að hafa sjálfur átt þátt í dauða hennar eða jafnvel faðir hans eða fyrrum kærasti móðurinnar.

Bakgrunnur: Útrásarvíkingum er lýst í verkinu sem óskabörnum þjóðarinnar. Vísað er í Baugsmálin og Landssímamálið, til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fleiri viðskiptajöfra. Svallveislur með kaupum á vændi og kókaínneysla útrásarvíkinga koma hér við sögu og ljósi er varpað á siðleysi í viðskiptum.  Erfitt er að komast hjá því að lesa söguna sem sjálfsævisögulega sögu Mikaels Torfasonar þar sem hann vísar sterkt í sig í textanum og segir m.a.: „Við erum jafnaldrar. Birgir, ég og Fellin. Fæddumst í upphafi árs 1970″ (s. 9). Víða í textanum vísar hann til sín, t.d. til þess þegar hann var ritstjóri DV og stöðugt í málaferlum vegna fréttaflutnings blaðsins. Einnig vísar hann í fyrra hjónaband sitt. „Kristín er fyrrverandi konan mín. Fyrsta konan mín. Biggi þekkir hana vel. Ég á tvö börn með henni“ (s. 229).

Umfjöllun:  Þeir eru vormenn Íslands: Birgir Thorlacius, Júlli faðir hans sem er nýkominn úr áfengimeðferð og Geiri afi hans, fyrrverandi verkamaður, sífullur og elliær. Í þessum hópi á líka heima sonur Birgis, unglingurinn Arnar sem er Goth-ari og hefur gert garðinn frægan með útgáfu á kynlífsmyndbandi þar sem hann var í aðalhlutverki. Þeir búa allir saman í lítilli íbúð í Fellahverfinu í eigu afans. Vormenn Íslands er því í besta falli írónískur og meinhæðinn titill því vormennirnir muna allir bjartari tíð – ef tíðin var þá yfirhöfuð einhvern tímann björt. Bókarkápan er lýsandi fyrir innihaldið: Mynd af blokk í Fellunum á rauðum grunni og stafagerðin er bæði skökk og skæld. Þetta er mynd af heimi í upplausn og helvítiseldar kynda undir öllu heila klabbinu.

Frásögn sögumannsins er tilgerðarlaus og áreynslulaus með öllu. Hann einfaldlega segir söguna af Birgi vini sínum á þann hátt að lesandanum gæti fundist að Mikael sæti við eldhúsborðið og segði söguna bara si sona yfir kaffibolla. Það er samt eitthvað mjög dekadent við þessa frásögn alla þrátt fyrir að erfitt sé að koma auga á gullöldina, sem var bæði stutt og endaslepp, en hnignunin, sjúkleikinn og úrkynjunin eru hins vegar augljós. Þó má eygja von um endurreisn hjá syninum Arnari, þrátt fyrir allt; þeir feðgar sættast undir lokin og gefin eru fyrirheit um að úr drengnum muni rætast.

Uppvöxtur, ris og fall Birgis má lesa sem allergóríu við uppgang útrásarinnar og síðar fall útrásarkynslóðarinnar. Birgir rís til metorða úr engu, hann verður reddari úrtásarvíkinganna hvort sem þarf að „fegra bókhaldið, græða á yfirtökum og svíkja hluthafa“ (s. 190) eða bara að útvega þeim kók í nös og „kaupa stigagang í Berlín“ (s. 73). Birgir átti aðild að Baugsmálinu og Landssímamálinu og hefur gert fjölskyldu eiginkonunnar ríka með því að aðstoða við hlutfjárkaup og hafa milligöngu um stór en óverðskulduð verkefni þeim til handa. Hann skirrist ekki við neitt enda er hann að upplagi harður, ákveðinn og ör og hefur allt frá barnæsku litið á sig sem sjálfkjörinn leiðtoga. Birgir er bæði öfga- og hrokafullur, harðduglegur og agaður. Allt eru þetta karlmennskueinkenni sem þóttu aðlaðandi í fari útrásarvíkinganna. Hann gat hins vegar ekki tekið þátt í niðurlægingu kvenna á hóruhúsum í bissnissferðum erlendis og er að sama skapi ófær um að stunda framhjáhald.

Í bókinni er deilt á dómskerfið á Íslandi og samfélagið í heild sem höfundur lýsir sem helsjúku og  meðvirku. Þetta er samfélag sem er ófært um að refsa þeim sem helst eiga það skilið, enda virðist þjóðina skorta til þess bæði áhuga og þroska. Birgir þarf hins vegar að greiða sekt sína til samfélagsins og það er táknrænt að daginn sem dómur fellur í máli Landspítalans gegn Birgi fella læknarnir á þeim sama spítala dauðadóm yfir honum. Birgir er að deyja úr lungnakrabbameini, sem eflaust á að vísa til meinsemdarinnar í þjóðfélaginu. Hann þarf því í raun að greiða tvöfalda sekt og þá má spyrja hvort það sé nægjanlegur sektardómur.

Mikael stingur víðar í verkinu á kýlum samfélagsins. Fellahverfið, afkvæmi fátæktar og húsnæðisskorts kaldastríðsáranna, er í forgrunni. Verkalýsforingjarnir Guðmundur Jaki og Magnús Sveinsson fá sinn skammt af skömmum. Deilt er á úthlutunarreglur Reykjavíkurborgar í húsnæðismálum og borin eru saman braggahverfin og Fellin, Fellunum í óhag. Mannlíf í Fellunum einkennist af tilvistarkreppum og alkóhólisma þeirra fullorðnu og börnum sem ala sig að mestu leyti upp sjálf. Samheldni barnanna er því mikil og þeir vinirnir, Mikael, Birgir og Nonni, bindast böndum sem ekki rofna þrátt fyrir að þeir fari ólíkar leiðir á fullorðinsárum.

Á Fellahverfið horfa þeir vinirnir rómantískum augum sem staðinn þar sem þeir slitu barnsskónum, þrátt fyrir allt sem á gekk. Fellin eru þeirra uppeldis- og mótunarstöðvar og því leita þeir þangað aftur þegar harðnar á dalnum í lífi þeirra. Nonni, fíkniefnaneytandinn og eiturlyfjasalinn, hefur reyndar aldrei farið þaðan, enda gefur sögumaðurinn í skyn að Fellin séu staðurinn fyrir svoleiðis fólk, hinir koma sér í burtu. Afinn Geiri stendur fyrir kynslóðina sem flutti á mölina og sáði í akur óvinar síns allt sitt líf með litlum árangri. Það eina sem stendur eftir að loknu ævilöngu striti er lítil blokkaríbúð í Fellunum og afkomendur sem eru ófærir um að sjá um sig sjálfir.

Hörð gagnrýni kemur hér einnig fram á 68-kynslóðina og er Júlli, faðir Birgis, fulltrúi hennar. Júlli er kvennamaður og gleðimaður sem er uppfullur af sjálfum sér. Hann hefur gert margar tilraunir til að verða ríkur og frægur og þrátt fyrir að hafa fengið mörg tækifæri í lífinu er hann alltaf sjálfum sér verstur, þegar upp er staðið. Kvennafar, framhjáhöld og drykkjuskapur hafa einkennt allt hans líf og hann hefur aldrei tekið ábyrgð á einu né neinu. Það er lýsandi að hann krefst þess að lokinni meðferð að allt sé nú gott og engir ósáttir, síst við hann. Birgir er hins vegar hvorki tilbúinn að gleyma né fyrirgefa.

Þetta er saga af körlum sem eru að reyna að fóta sig í lífinu og tilverunni. Þeir eiga allir við áfengisvandamál að stríða og bregðast við því á mismunandi hátt. AA-samtökin, Al-Anoon-samtökin og 12 spora kerfið eru miðlæg í textanum – reyndar svo mjög að það virðist sem yfirgnæfandi meirihluti sögupersónanna séu alkóhólistar. Þá getur maður spurt sig hvort komi á undan eggið eða hænan: Hefur Fellahverfið þessi áhrif á fólk eða safnast þangað fólk sem ekki kann fótum sínum forráð? Er Fellahverfið sá hringur í helvíti Dantes þar sem þeir safnast saman sem ekki geta fótað sig í lífinu?

Þetta er skemmtileg og forvitnileg bók og engum ætti að leiðast við lestur hennar. Mikael er bæði hlýrri og mannlegri hér en í fyrri bókum sínum og samúð hans með sögupersónum sínum er áberandi.

Steinunn Emilsdóttir, nemandi í bókmenntafræði, nóvember 2014

Önnur umfjöllun:

Viðtöl: