Krísan 2008

krisan 2008Paul Krugman. Krísan 2008. Aftur til kreppuhagfræði. Þýð. Elín Guðmundsdóttir. Akureyri: Urður bókafélag, 2009.

Efni: Í verkinu, sem kom upphaflega út í Bandaríkjunum 2008 en er endurskoðuð útgáfa bókar frá 1999, fjallar Paul Krugman um efnahagslægðir og kreppur, m.a í Rómönsku-Ameríku, Asíu og Bandaríkjunum. Umfjölluninr nær á köflum aftur til 1700 en megintímabil bókarinnar nær frá heimskreppunni miklu fram að krísunni 2008.  Krugman lýsir efnahagskerfinu sem byggir á fjármálakerfi sem er eins og vél sem bilar og hefur áhrif á allt hagkerfið. Hann fjallar sérstaklega um undirmálslánin og fasteignamarkaðinn í Bandaríkjunum sem líka var stór vél sem hafði áhrif á starfsemi útum allan heim.

Bakgrunnur: Paul Krugman er prófessor í hagfræði og alþjóðamálum frá Bandaríkjunum sem skrifað hefur yfir 20 bækur og fjölmargar greinar um hagfræði ásamt því að hafa fengist við kennslustörf og samið vinsæla kennslubók, Economics, ásamt Robert Wells. Krugman hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræðivísindum árið 2008 fyrir „new trade theory“ sem fjallar um alþjóðaviðskipti í tengslum við stærðarhagræði og tengslanet. Þekking hans á því efni skín rækilega í gegn, þar sem alþjóðatengslin vega þungt í köflum bókarinnar um tengsl hagkerfa og lánalína.

Umfjöllun: Krugmann hefur leikinn með því að skoða kreppur í Rómönsku-Ameríku og Asíu þar sem hann fjallar um sögulega atburði í tengslum við hag- og stjórnmálafræði. Orðalagið „aftur til kreppuhagfræði“ vísar til þess að hagfræðin sé enn að klóra sér í hausnum yfir atburðum sem menn töldu sig hafa fundið svar við eftir heimskreppuna miklu á fjórða áratug síðustu aldar ásamt fleiri efnahagslægðum, en sú hefur ekki orðið raunin.  Í seinni hluta bókarinnar tengir hann við fyrri hluta hennar og útskýrir starfsemi fjármálakerfisins í aðdraganda krísunnar 2008.

Krugman útskýrir aðgerðir vogunarsjóða, hegðun fjárfesta í tengslum við vítahring í aðdraganda efnahagslægðar og hvernig freistnivandi viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi fara ekki saman og fjallar þar um Glass-Steagall lögin frá 1933. Krugman kemur inn á áhættur í lántökum hjá bönkum og almenningi, hann talar um vítahring traustsins þar sem umfjallanir í fjölmiðlum eða orðspor á götunni geta hrint af stað ótta og fölsku vantrausti sem að lokum veldur áhlaupi á banka sem getur riðið honum að fullu þrátt fyrir að hann sé í raun traustur. Hann lýsir hvernig þetta tengist og veldur keðjuverkun og vítahring: einn banki fer á hausinn, þá verður fólk hrætt og dregur fé sitt úr öðrum bönkum, fjárfestar selja og draga fé að höndum sér sem skyndilega dregur úr eftirspurn og rýrir eignavirði og hækkun skulda.

Bókin er uppfull af hagfræði og fjármálafræðum sem eru sett fram á nokkuð einfaldan hátt. Krugman minnist á ýmsar hagfræðikenningar í skrifum sínum, t.d. hugmyndir John Maynard Keynes, Joseph Schumpeter og fleiri hagfræðiheimspekinga sem hafa byggt líkön og kenningar ásamt hagfræðilegum hugtökum. Þeir sem halda að bókin sé uppfull af snúinni stærðfræði, líkönum og flóknum hlutum þurfa þó ekki að örvænta, höfundi tekst að útskýra hlutina á einfaldan hátt. Verkið er þannig að mörgu leyti ætlað almenningi, ekki síst til að auka skilning mannsins á götunni á m.a hagfræði og fjármálum ásamt efnahagsaðgerðum og stefnum í peningamálum. Eflaust er bókin miserfið aflestrar, allt eftir skilningi fólks á efninu, en með hjálp veraldarvefsins er vel hægt að klóra sig í gegnum hana og öðlast dýpri skilning og þekkingu á hagfræði, sagnfræði, stjórnmálafræði og ýmsum fjármálafræðum ásamt því hvað gerist í aðdraganda kreppu og hvaða aðgerðum er beitt við að komast út úr henni.  Fyrir þá sem lengra komnir eru í þeim fræðum sem Krugman notar er bókin auðlesin, skiljanleg og skemmtileg.

Það er mikilvægt fyrir fólk sem reynir að rökræða og skilja efnahagsvandamál og tilteknar aðgerðir að kynna sér málin og vera viðbúin hinu óvænta. Heimurinn er eins og hagfræðin segir og við vitum, síbreytilegur. Eins og Krugman bendir á virka ákveðnar aðgerðir á ákveðnum tímum undir ákveðnum aðstæðum en ekki alltaf og ekki má ofmeta færni ákveðinna aðila í vissum stöðum. Þessu svipar svolítið til efahyggjunnar (e. scepticism). Enginn efaðist um íslensku útrásina nema örfáir, en eftir lestur bók Krugmans sér maður að mikil uppsveifla, óvenjulegar aðstæður (útrásin var mjög óvenjuleg) og einstaklega gott gengi að lásnfé geta haft undirliggjandi áhættu og óvissu sem ekki sést á yfirborðinu. Það litla sem þarf að gera er að skoða raunverðmæti og hvernig stoðkerfið stendur gagnvart mismunandi atburðum.

Efasemdir mínar í gagnrýni á efninu geta ekki vegið sterkt þar sem Krugmann hefur yfirburða reynslu, þekkingu og skilning á hinum hagfræðilega heimi. Ég, sem ungur, reynslulítill hagfræðinemi er langt frá því að hafa sama skilning, þekkingu og upplýsingar og hann. Bókin er góð lesning til að auka þekkingu og skilning á sögulegri starfsemi stjórnar- og eftirlitsaðila í efnahagsmálum í tengslum við kreppur og krísur héðan og þaðan í heiminum. Krugman tekst ágætlega að lýsa kreppum og hvernig óefnislegir hlutir eins og traust, bjartsýni og væntingar geta vegið þungt í efnahagsmálum og haft mikil áhrif á framboð og eftirspurn á mörkuðum sem er auðvitað það sem hagkerfið snýst allt um.

Léttleikinn í upphaf bókarinnar og dæmisögur til útskýringar með einföldum hætti gefa færi á breiðari lesendahóp, útskýringar hans á hvernig hlutirnir geta æxlast í hagkerfinu eru aðdáunarverðar, helst vegna þess hversu vel hann útskýrir orsakir og afleiðingar. Krugman virðist tala gegn frjálshyggju, markaðskapítalisma og spákaupmennsku og virðist tengja þetta við kreppuna og hvernig þessi atriði eiga þátt sinn í efnahagslægðum meðal annars.

Arnar Jónsson, nemandi í hagfræði, nóvember 2014

Önnur umfjöllun: