Saga af forseta

saga af forsetaGuðjón Friðriksson. Saga af forseta: Forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar, útrás, athafnir, átök og einkamál. Reykjavík: Mál og menning, 2008.

Efni: Bókin byggst fyrst og fremst á samræðum Ólafs Ragnars og höfundar bókarinnar, sagnfræðingsins Guðjóns Friðrikssonar, þannig að ekki er um ævisögu að ræða. Þess í stað er einblínt á tíð Ólafs Ragnars í embætti forseta Íslands. Verkið tekur mið af þætti hans í útrásinni, átökum á hinu pólitíska sviði og einkalífi. Dregið er fram hvernig Ólafur Ragnar hafi, í tíð sinni sem forseti Íslands, stuðlað að því að greiða leið íslenskra viðskiptamanna út fyrir landsteinana. Einnig er fjallað um aðra innlenda atburði bæði í starfi og einkalífi Ólafs Ragnars. Má þar meðal annars finna synjun forsetans á fjölmiðlalögunum árið 2004 og sagt er frá þeim mikla áhuga sem Ólafur Ragnar hefur á málum norðurslóða.

Bakgrunnur: Höfundurinn, Guðjón Friðriksson er sagnfræðingur að mennt og ber bókin þess víða merki. Mikil áhersla er lögð á atburðarásina og notar höfundur beinar tilvitnanir mikið. Fjölmiðlar eru oft til umfjöllunar og víða vitnað í þá til að varpa ljósi á andrúmsloft líðandi stundar. Sömuleiðis hefur höfundur rætt við marga af aðalleikendum útrásarinnar og vitaskuld forsetann sjálfan.

Umfjöllun: Saga af forseta er einskonar yfirlit yfir forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar og að mestu sögð frá sjónarhorni hans sjálfs. Frásögnin nær yfir 12 ára tímabil, frá árinu 1996 til 2008 í alls 11 köflum og mörgum undirköflum. Í upphafi er frásögn af hvernig alþjóðastarf Ólafs Ragnars hófst og horft til starfa hans í þágu uppbyggingar tengslanets íslenskra viðskiptamanna. Í því samhengi eru raktar hinar ýmsu heimsóknir forsetans til útlanda, einkum skipar heimsókn hans til Indlands töluverðan sess (s. 259). Sést þar bersýnilega hversu mikla áherslu Ólafur Ragnar lagði á að styðja við íslenskt viðskiptalíf. Einkalífi Ólafs Ragnars eru gerð nokkur skil; sagt er frá veikindum og andláti Guðrúnar Katrínar eiginkonu hans og hvernig Dorrit Moussaieff kom inn í líf hans. Heimildaskrá er að finna í bókinni þar sem bersýnilega kemur fram að hún byggist að mestu á samræðum höfundar við Ólaf Ragnar og aðra sem við sögu koma. Bókin er ríkulega myndskreytt.

Guðjóni tekst ágætlega það ætlunarverk að lýsa forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar og er bókin oft skemmtileg aflestrar, auðlesin og lesandinn þarf ekki að búa yfir serstakri þekkingu. Hvergi er að finna snúnar málsgreinar eða óþarfar fræðilegar útleggingar. Það gerir hinum almenna lesanda auðveldara fyrir að fylgja eftir frásögnum, atburðarás og röksemdum bókarinnar. Mikillar hlutdrægni gætir þó og er víða reynt að upphefja hinn sitjandi forseta. Í lok bókarinnar lýsir höfundur því enda yfir að hann sé æskuvinur Ólafs Ragnars og hafi miklar mætur á honum. Guðjón kýs að lýsa Ólafi Ragnari með eftirfarandi orðum: „ hefur hann birst mér sem heiðarlegur og metnaðarfullur maður, ekki bara fyrir eigin hönd heldur fyrst og fremst fyrir íslenska þjóð“ (s. 566). Erindi bókarinnar virðist öðru fremur vera að draga fram ágæti Ólafs Ragnars, hún er í raun einhverskonar löng lofræða.

Náið samband forsetans við helstu athafnamenn landsins er fyrirferðarmikið. Oft er vitnað í orð Sigurðar Einarssonar þáverandi stjórnarformanns Kaupþings og litið á hann sem „einn helsta samstarfsmann forsetans á síðari árum“ (s. 465). Auk þess er fullyrt að Sigurður eigi að baki hinn glæsilegasta feril sem bankamaður. Hann á orðið í kafla þar sem forsetinn er sagður „andlegur leiðtogi íslensku útrásarinnar“ (s. 463) en snýst sú umfjöllun um þau neikvæðu áhrif sem fjölmiðlaumfjöllun gat haft á bankana erlendis: „… öll sú vitleysa sem skrifuð var um okkur í Morgunblaðinu og af vissum mönnum sem þá voru nátengdir völdunum er einhverstaðar á veraldarvefnum“(s. 463-64). Greinilegt er að þarna er átt við Davíð Oddsson, eins og reyndar víðar í bókinni. Áfram heldur svo gagnrýnin á störf Davíðs af hálfu Sigurðar Einarssonar: „ þetta er í senn spaugileg og gremjuleg saga… hvernig þetta var og fer að skoða ummæli Davíðs úr fjölmiðlum á þessum tíma. Þá orðræðu tel ég ömurlegan blett á viðskiptasögu Íslands… við skildum ekkert í hvaða djöfulgangur þetta var“ (s. 463). Gert er að umtalsefni þegar stirðna tók milli Ólafs Ragnars og Davíðs og fullyrt að það hafi verið vegna þess að Davíð hafi, að því er virðist, séð „samsæri í hverju horni“ (s. 402).

Þegar líður á lesturinn vakna ýmsar spurningar varðandi framgöngu Ólafs Ragnars í útrásinni og hvort hann hafi ekki gengið allt of langt. Oft og tíðum virðist t.d. aðalmarkmið utanlandsferða hans vera að markaðsetja íslensk fyrirtæki, en hann var í kjörstöðu til þess vegna þess gríðarmikla tengslanets sem hann virðist hafa. Eftirtektarverð er frásögn af heimsókn hans til Shanghai í Kína að kynna starfsemi CCP: „Skilaboðin til Kínverjanna voru alveg skýr, þetta íslenska fyrirtæki kemur ekki aðeins með blessun forseta Íslands heldur einnig forseta Kína“ (s. 458). Sýnir þetta nokkuð vel styrk tengslanets Ólafs Ragnars og hversu óhræddur hann hefur verið við að nota það í „þágu þjóðar.“

Í heildina litið er bókin fróðleg og skemmtileg fyrir þá sem hafa áhuga á störfum Ólafs Ragnars í embætti forseta Íslands. Hún nær einnig iðulega að fanga andrúmsloftið sem ríkti í kringum einkavæðingu bankanna. Þó er bersýnilegt að hún var skrifuð áður en bankarnir hrundu, á árunum 2006 og 2007, og lituð þeim bjartsýnisanda sem þá ríkti. Höfundur biður lesendur að hafa það í huga (s. 10). Fyrir vikið verður hún athyglisverð sem heimild um þann hugsunarhátt og andrúmsloft þá ríkti á Íslandi. Af bókinni má draga þá ályktun að stjórnvöld hefðu átt að halda sig í meiri fjarlægð frá rekstri þeirra einkafyrirtækja er stóðu að útrásinni enda er íslenskt samfélag lítið og persónuleg tengsl og hagsmunaárekstrar áberandi. Regluverki ríkisins og opinberum eftirlitsaðilum var stórkostlega ábótavant en Ólafur Ragnar lofaði það sem eitt af leyndarmálum íslensku útrásinnar. Ólafi Ragnari er lýst sem mikilvægum geranda í útrásinni og mikið er gert til að draga fram jákvæðar hliðar þess. Málflutningur er skýr og skilmerkilegur, en hefði bókin ekki orðið mun fróðlegri ef hún hefði  verið gefin út nokkrum árum eftir einn brösóttasta tíma í embættistíð Ólafs Ragnars?

Hörður Magnússon, nemandi í sagnfræði, nóvember 2014

Önnur umfjöllun:

=====