Árni Matt

arni mattÞórhallur Jósepsson og Árni M. Mathiesen. Árni Matt. Frá bankahruni til byltingar. Reykjavík: Veröld, 2010.

Efni: Bókin fjallar um bankahrunið á Íslandi haustið 2008, og er að mestu leyti byggð á frásögn Árna M. Mathiesen sem var fjármálaráðherra á þeim tíma. Aðaláhersla er lögð á tímabilið frá október 2008 þar til snemma árs 2009 þegar búsáhaldabyltingin hófst og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fór frá völdum. Frásögnin er að verulegu leyti skrifuð í óbeinni ræðu. Það sem skrifað er orðrétt eftir Árna er innan gæsalappa. Skrifum höfunda til áherslu eru tilvitnanir úr fjölmiðlum, Rannsóknarskýrslu Alþingis og ýmsum stofnanavefjum settar í ramma hér og þar. Ritið er ætlað bæði almenningi og fræðasamfélaginu.

Bakgrunnur:  Árni Matthías Mathiesen er fæddur árið 1958, hann er með embættispróf í dýralækningum frá háskólanum í Edinborg í Skotlandi frá árinu 1983 og próf í fisksjúkdómafræði frá Stirling-háskóla í Skotlandi, 1985. Hann var sjávarútvegsráðherra á árunum 1999-2005 og fjármálaráðherra á árunum 2005-2009, m.a. í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á árunum 2007 til 2009. Eftir útkomu Rannsóknarskýrslu Alþingis var kosin níu manna þingnefnd til þess að fjalla um skýrsluna og móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum hennar. Árni var einn af fjórum ráðherrum sem nefndin komst að niðurstöðu um að hafa með athafnaleysi sínu ekki brugðist við yfirvofandi hættu á viðeigandi hátt og þess vegna sýnt af sér vanrækslu í skilningi laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum á falli íslensku bankanna árið 2008 og tengdra atburða.  Bókin er varnarrit Árna í þessu máli. Meðhöfundur Árna er Þórhallur Birgir Jósepsson. Hann starfaði á Morgunblaðinu 1986-1991 og á fréttastofu Útvarpsins frá árinu 2000-2010. Hann var aðstoðarmaður Halldórs Blöndal samgönguráðherra frá árinu 1991-1995 og hefur verið starfandi sem upplýsingafulltrúi hjá Lífeyrissjóði Verzlunarmanna frá árinu 2010.

Umfjöllun: Bókin skiptist í 11 kafla, fyrst kemur formáli, svo umfjöllun um Árna og svo koma tíu kaflar með ítarlegum viðauka í lokin. Fyrsti kaflinn heitir „Hamfarastormur” og byrjar í fimmtugsafmælisveislu Árna úti á landi í lok september 2008 um svokallaða Glitnishelgi. Þar býst hann við að verða truflaður vegna atburða sem voru þá í gangi. Árni ræðir það þegar Glitnir var að falla og gerir grein fyrir því að ef peningar hefðu verið settir til Glitnis þyrftu stjórnvöld að gera það sama fyrir hina bankana. Árni segir einnig: „Við gerðum okkur grein fyrir því að ef við settum peninga inn í bankana þá yrði það stór hluti af gjaldeyrisvarasjóðnum“ (s. ?).  Annar kaflinn heitir „Ráðherrabústaðarhelgin”. Þar segir frá þvi hvernig ráðherrabústaðurinn var orðinn stjórnstöð neyðaraðgerða stjórnvalda gegn yfirvofandi efnahagshamförum, hafði tekið við af Seðlabankanum og Stjórnarráðshúsinu. Sú mynd sem dregin er upp í frásögninni af fundunum í ráðherrabústaðnum er að mörgu leyti forvitnileg. Þangað komu menn úr ýmsum hornum þjóðfélagsins, fulltrúar samtaka og fyrirtækja. Einhvern veginn snýst öll þeirra aðkoma um að gæta sinna þröngu hagsmuna.

Þriðji kaflinn heitir „Hrunið”. Þar er sagt frá hrundeginum og setningu neyðarlaganna. Sagt er frá því þegar Bretar beittu hryðjuverkalögum gagnvart Íslandi, og segir Árni að íslensk stjórnvöld hafi séð sér hag í að þeim yrði ekki aflétt því ekki væri hægt að ganga að þrotabúi Landsbankans á meðan. Sagt er frá að Geir vildi ekki tala við Darling og vildi frekar að Árni gerði það, samtalið fór síðan eins og lagt var upp með að sögn Árna og er birt í heild sinni í viðauka. Aðgerðir Breta urðu svo í algjörri andstöðu við það sem Darling sagði við Árna. „Bresk þingnefnd hefur staðfest að orð mín gengu í þveröfuga átt við það sem Darling bar upp á mig að hafa sagt.“ segir Árni (s. ?).

Fjórði kafli bókarinnar heitir „Naprir vindar blása”, þar sem segir frá því að Árni hafi, í miðju hruni, fyrir hreina tilviljun, setið við hlið sjóðstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðssins (AGS) Poul Thomson í flugvél á leið á ársfund Alþjóðabankans og AGS í Washington. Thomson hafi sannfært hann um að best væri fyrir Ísland að leita til AGS um samstarf, ráðgjöf og aðstoð. Í Washington er svo fundur Árna og Wouter Bos fjármálaráðherra Hollands, og í kjölfarið birt sameiginleg fréttatilkynning eða viljayfirlýsing um Icesasave deiluna. Þarna fer öldurnar að lægja, niðurstaðan verður að Ísland gengur inn í viðurkennt og samþykkt ferli hinna vestrænu ríkja, án þess þó að Rússaláninu sé sópað út af borðinu. Í fimmta kafla „Í skjóli AGS” fjallar Árni fjallar um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.  Sagt er frá því þegar nýju bankarnir voru stofnaðir á grunni þeirra gömlu, neyðarlögin voru gengin í gildi. Árni furðar sig á að sérfræðingar AGS virtust ekki hafa nægilegt vit á hvernig gömlu bankarnir voru gerðir upp. Reynt var fljótlega að fá erlenda kröfuhafa til að yfirtaka bankana og einnig var talað við erlenda fjárfesta. Hann talar einnig um að uppgjör bankanna hafi orðið gríðarlega flókið.

Sjötti kafli bókarinnar heitir „Átakavetur”. Þar er sagt frá að þrýstingur kom úr öllum áttum að Davíð Oddsson yrði að víkja sem seðlabankastjóri. Að mati Árna er þrennt sem gerist í framhaldinu og fellir ríkisstjórnina meðan Ingibjörg er fjarverandi; búsáhaldabyltingin, nýr formaður Framsóknarflokksins og veikindi Geirs. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hinni nýi formaður Framsóknar, lét verða eitt sitt fyrsta verk að koma fram með tilboð um að verja minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar vantrausti. Þá sleit Samfylkingin stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokk og ný ríkisstjórn var mynduð í boði Framsóknarflokksins. Sjöundi kafli bókarinnar heitir „’2007′ hugarástandið”. Árni segir þarna, tveimur árum eftir bankahrunið, hversu óljóst það væri í huga fólks hvað hafi gerst og hvað var það í raun sem olli bankahruninu.

Áttundi kaflinn heitir: „Yfir til Suðurkjördæmis”. Þar segir Árni aðallega frá sviptingum á stjórnmálasviðinu árið 2006 og þegar hann bauð sig fram í Suðurkjördæmi. Níundi kaflinn heitir „Ár björgunartilrauna”. Árni segir í þeim kafla að minnka hefði þurft bankakerfið um haustið 2005 eða fyrr, eftir það hafi það verið of seint. Varðandi Icesave innlánsreikninga Landsbankans segir Árni að hann hafi viljað koma þeim í dótturfélag í stað útibús þegar hann var í samráðshópi um fjármálalegan stöðugleika. Þetta hafi svo þegar á daginn kom verið erfiðara en í fyrstu var talið. Árni tekur fram að hann hafi ekki trúað því að Kaupþing félli, hann bjóst frekar við falli Glitnis og Landsbankans. Árni talar um að Ísland hafi verið látið falla og enginn hafi komið til bjargar til að halda bankakerfinu uppi. Áberandi kala og jafnvel vanþóknunar hafi gætt varðandi Ísland frá mörgum ríkjum þótt Árni hafi ekki orðið þess var fyrr en seinna, Seðlabankinn hafi til að mynda fundið fyrir því mun fyrr. Árni segir einnig að ríkinu sé ekki skylt að bjarga bönkum, ríkið sé lánveitandi til þrautavara og megi ekki lána nema trygg veð séu fyrir lánunum. Hann dregur hinsvegar ekki úr því að ríkið þurfi að verja fjármálakerfið sem slíkt en ekki einstaka stofnanir og fyrirtæki.

Síðasti kafli bókarinnar heitir: „Landsdómur og ný framtíð”. Árni rifjar upp hið erfiða Landsdómsmál þegar höfða átti sakamál gegn honum, Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Björgvini G. Sigurðssyni. Geir var að lokum einn dreginn fyrir Landsdóm. Hann tekur fram að þessum hatrömmu deilum sé ekki lokið og ekki séð hvenær þau sár grói. Hann bendir á að sakargiftir séu algjörlega matskenndar og ekki eigi að beita þessum lögum í slíkum málum og er sannfærður um sakleysi allra. Árni hefði stutt svokallaða sannleiksnefndarleið, og þótti hún vera til þess að læra af reynslunni. Hann ákvað svo að hætta afskiptum af stjórnmálum í kjölfar umræðunnar um landsdómsmálið og í aðdraganda þingkosninganna 2009 og hefur ekki eitt augnablik séð eftir því að eigin sögn. Eftir að hann hætti í stjórnmálum starfaði hann sem dýralæknir á Suðurlandi en fljótlega hóf hann störf hjá FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna í Róm. Í lok bókarinnar er viðauki, þar er hið fræga símtal Árna við Alistair Darling þann 7. október 2008 birt orð fyrir orð. Einnig er birt í viðauka bréf Árna til þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Frá bankahruni til byltingar er málsvörn Árna gagnvart áliti rannsóknarnefndar alþingis ásamt bréfum hans til nefndarinnar sem birt eru í viðauka bókarinnar. Bókin er hvorki ævisaga né stjórnmála- eða ráðherrasaga. Frásögnin er aðallega bundin við hrunið og mat Árna á þeim atburðum og skýringar á því hvað stjórnvöld gerðu og/eða gerðu ekki í aðdraganda hrunsins og eftir það.

Bókin er þægileg aflestrar og tekst Árna ágætlega að koma sínu á framfæri. Málflutningur er bæði skýr og skiljanlegur. Ég var ekki vör við staðreyndavillur en stafsetningavillur voru nokkrar. Hoppað er á milli þess hver er að segja söguna en það er þó ekki galli. Málfar og stíll er í góðu lagi, stundum er þó eins og um endurtekningar sé að ræða á nokkrum stöðum. Það er ekki heimildaskrá í bókinni en aftast er nafnaskrá.   Árni er vissulega ekki hlutlaus enda ekki við því að búast þar sem um stjórnmálamann er að ræða. Hann setur lítið út á fólk og virðist draga úr á flestum sviðum og vill greinilega ekki lenda í árekstrum eða láta hafa eitthvað neikvætt eftir sér um nokkurn mann. Því þarf að lesa á milli línanna til að ná utan um það sem var að gerast á þessum tíma. Ekki eru heldur neinar sérstakar skemmtisögur um neinn í bókinni. Það má segja að glitti í ákveðna meðvirkni og eru þeir Geir Haarde og Árni líklega ekki svo ólíkir að því leiti að þeir vilja halda friðinn að mestu. Árni setur þó út á Jóhönnu Sigurðardóttir og segir hana hafa staðið í veginum fyrir mörgum mikilvægum málum. Einnig talar hann ekki vel um Landsbankamenn á Glitnishelginni.

Til þess að sýna hvernig frásögnin í bókinni fylgir veruleikanum og þeim raunverulegu staðreyndum sem höfundar upplifðu á þessum tíma eru settar fram tilvitnanir í ramma í gegnum alla bókina. Tilvitnanirnar eru yfirleitt úr fjölmiðlum en nokkrar eru beint af stofnanavefjum, til dæmis vef seðlabankans og vef stjórnarráðsins. Einnig eru tilvitnanir á nokkrum stöðum í bókinni teknar úr Rannsóknarskýrslu Alþingis sem gefin var út árið 2010.

Eftir lestur bókarinnar stendur upp úr hversu mikilvæg tengsl stjórnmálamanna við kollega sína erlendis eru. Til þess að koma sínum málum á framfæri og leysa úr stórum vandamálum er mikilvægt að eiga góð tengsl við valdamikla menn, það kom sérstaklega í ljós í samskiptum Árna við Cristine Lagarde fjármálaráðherra Frakklands en þau þekktust fyrir og höfðu ætíð verið góðir kunningjar.

Það læðist að manni grunur varðandi svokallað Rússalán að það hafi í raun verið meiri þungamiðja í atburðarásinni, en talað hefur verið um, bæði dagana fyrir hrunið og á eftir. Lánið er mögulega eitt af stærstu óupplýstu málum hrunsins, ýmislegt er leyndardómsfullt í kringum það, t.d. kemur hvergi fram hjá Árna hvernig það kom til. Hann nefnir ekki nokkurn upphafsmann þess annan en Tryggva Þór Herbertsson sem líka átti að hafa haft frumkvæði að því að fá Kínverja til að lofa láni, en Ólafur Ragnar Grímsson mun einnig hafa komið við sögu varðandi það lán. Davíð tilkynnti um Rússalánið og síðan heyrðist varla um það meir. Rússar fóru undan í flæmingi og lánið varð að engu. Árna finnst ólíkt Davíð að segja frá slíku án þess að hafa nokkuð í höndunum og tekur fram að rússneski sendiherrann Tatarintsev hafi ekki farið með neitt fleipur við seðlabankastjóra. Davíð hafi sömuleiðis talið sig vera að segja frá staðreyndum. Bandaríkjamenn höfðu haft veður af þessari fyrirhuguðu lánveitingu og orðið bilt við. Þeir höfðu meira að segja fyrir því senda mann frá sendiráðinu á Alþingi til að draga íslenska fjármálaráðherrann í símann. Þetta vekur upp margar spurningar og líklega var ekki vel séð að Íslendingar væru að daðra við Rússana! Mögulega útskýrir þetta einnig hvernig komið var fram við okkur af hálfu Þýskalands og hinna ESB landanna, meðal annars vegna sögulegrar fortíðar, kalda stríðsins o.fl.

Maður spyr sig einnig eftir lesturinn, að eftir fordæmalausar aðgerðir Breta, hefðu íslensk stjórnvöld ekki þurft að svara aðgerðum þeirra með meiri hörku!? Víst er að Árni hefur sitthvað til síns máls og svarar ágætlega þeim sökum sem hafa helst verið bornar upp á hann. Hann nefnir á nokkrum stöðum í bókinni hversu merkilegt það hafi verið að greiðslukerfi hafi virkað þrátt fyrir fall bankanna, það hefur einnig reglulega heyrst frá Geir Haarde og er mögulega mikið afrek en falla í skuggann á þeim alvarlegu atburðum sem áttu sér stað hér á landi haustið 2008.

Ingibjörg Elín Þorvaldsdóttir, nemandi í sagnfræði, nóvember 2014

Önnur umfjöllun