Hamskiptin

hamskiptinIngi Freyr Vilhjálmsson.  Hamskiptin. Þegar allt varð falt á Íslandi. Reykjavík: Veröld, 2014.

 Efni: Í Hamskiptunum rekur höfundur hvernig nær allir kimar samfélagsins voru ofur­seldir fjármagninu og markaðs­lögmálunum á Íslandi í aðdraganda hrunsins. Stjórn­mála­menn, fræðimenn, fjölmiðlar, listamenn, háskóla­samfélagið; allar þessar mikilvægu stofnanir sam­félagsins voru á einhvern hátt ofur­seldar auðmagninu. Auðmagnið, peningar sem fengnir voru að láni, ekki síst frá útlendingum, fóru í að kaupa nánast allt í samfélaginu. Allt varð í raun falt. Sjónarhornið er siðferðilegt og varpað er fram spurningum um siðferðilega ábyrgð. Bókin er byggð á skýrslum, samtímaheimildum og eigin reynslu höfundar og sagðar sögur sem lýsa ástandinu í þjóðfélaginu eins og það birtist honum fyrir hrun og hvernig óheilbrigt hugar­far gegnsýrði lykilstoðir samfélagsins..

Bakgrunnur: Ingi Freyr Vilhjálmsson hefur verið blaðamaður á DV frá því í desember 2008, þegar þetta er skrifað. Þar áður hafði hann unnið á Fréttablaðinu á árunum 2004-2007. Hann er með BA-gráður í sagnfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands og masters­gráðu í heimspeki frá háskólanum í St. Andrews í Skotlandi.

Umfjöllun: Í fyrsta kafla bókarinnar fjallar Ingi Freyr um boðsferð sem hann og fleiri blaðamenn þáðu til Barcelona í ársbyrjun 2007 í einkaþotu eins þáverandi milljarðamærings. „Fæstir Íslendinga, blaða­menn þar með taldir, höfðu á þessum tíma neina hugmynd um það að íslenska efnahags­kerfið stóð á lánsfótum sem myndu riða undir því.“ Hann fjallar í framhaldi um vansa þess, þegar blaðamenn þiggja „strokur“ og það óbragð sem það getur skilið eftir í munni þeirra. Hann fjallar einnig um markaðsvæðingu blaðamanna og nefnir nokkur dæmi um óeðlileg samskipti blaða­manna við viðskiptalífið.

Því næst fjallar Ingi Freyr um hlutdeild auðmanna í menningu þjóðarinnar, til góðs eða ills, og hvernig þeir misnotuðu aðstöðu sína í skjóli fjármuna sinna. Þriðji kaflinn fjallar um markaðs­væðingu hugarfarsins og þau hamskipti sem urðu á eðli samfélagsins á árunum fyrir hrun með þátt­töku þjóðarinnar í markaðsvæðingunni. Tekur hann sem dæmi hið svokallaða „barnalán“ og önnur lán og hversu lánsama þeir sem tóku peninga að láni töldu sig vera. Hann fjallar um uppgang nýfrjáls­hyggjunnar og hvernig ýtt var undir vængi viðskiptalífsins.

Í fjórða kaflanum fjallar Ingi Freyr um pólitíska ábyrgð; um einkavæðingu bankanna, kjósenda­ábyrgð og flokkspólitíska ábyrgð. Hann álítur að einkavæðing ríkisbankanna tveggja, Búnaðarbankans og Landsbankans, hafi verið þeir tveir einstöku atburðir sem mestu máli skiptu í sögu íslenska efnahagshrunsins. Fimmti kaflinn fjallar um spillingu stjórnkerfisins, um sjálfsprottnar reglur og um markaðs­væðingu forsetaembættisins. Sjötti kaflinn nefnist „salan á háskólunum“ og fjallar um sam­skipti háskólasamfélagsins við auðmenn og banka og nefnir dæmi um pantaðar skýrslur, kostun og styrki. Sjöundi kaflinn fjallar um þögn listamanna og hvernig peningavaldið hafði áhrif á myndlistamenn á Íslandi á árunum fyrir hrunið. Ítarleg heimildaskrá fylgir svo og listi yfir tilvísanir en ekki er í bókinni nafnaskrá.

Bókinni er ætlað að vekja almenning til umhugsunar um samábyrgð sína á hruninu og fjalla síðustu kaflar hennar um ábyrgð þjóðarinnar, ýmsar kenningar um hrunið og baráttuna um söguna. Þar er fjallað um það hvernig hrunið hefur hingað til verið gert upp á opinberum vettvangi. Að mati höfundar hefur það uppgjör snúist um lagalega ábyrgð en uppgjöri hins siðferðilega hluta hrunsins hafi verið frestað. Niðurstaða höfundar er þessi: „Hrunið var manngert, pólitískt og sér­íslenskt stórslys sem ekki má endurtaka sig.“ Hann telur að meirihluti þjóðarinnar beri ábyrgð á hruninu, sem kjósendur og meðreiðarsveinar. Þótt þessi umræða sé óþægileg sé bráð­nauðsynlegt að hún fari fram. „Það sem hindrar íslensku þjóðina í að gera almennilega upp við hrunið er sú staðreynd að þeir sem bera mesta ábyrgð á því gangast ekki við henni“. Höfundur, eins og áður sagði, var fréttamaður á árunum fyrir hrun og hafði góða yfirsýn yfir atburði þess tíma. Hann er ekki einungis ósáttur við gerendur í hruninu heldur er hann greinilega ósáttur við eigið hlutverk og hlutverk hinna óvirku og meðvirku þátttakenda eins og kemur fram í fjöl­mörgum lýsandi dæmum. Hamskiptin er skemmtileg aflestrar og stíll og málfar til sóma.

Bjarni G. Ólafsson, nemandi i í sagnfræði, nóvember 2014

Önnur umfjöllun