Mannorð

mannorðBjarni Bjarnason, Mannorð, Reykjavík, Uppheimar, 2011.

Efni: Mannorð segir frá fyrrum athafnamanninum Starkaði Leví og tilvistarkreppu hans að loknum dýrðardögum útrásarinnar. Starkaður Leví hefur komið auðæfum sínum í skjól og lifir í vellystingum praktuglega í skattaskjóli erlendis en langar þrátt fyrir allt heim. Þar er hann þó ekki velkominn því þjóðin vill sjá hann iðrast og endurgreiða skuld sína við land og þjóð. Í krafti auðæfanna vill hann freista þess að endurheimta gjörónýtt mannorð sitt og láta reyna á endurkomu sína í samfélagið. Ekki verður sagt að hann fari augljósa eða hefðbundna leið að því markmiði. Starkaður Leví einfaldlega kaupir sér nýtt líf, nýja tilveru og nýtt mannorð.

Bakgrunnur: Nafn aðalsöguhetjunnar, Starkaður Leví, vísar til kvæðisins „Einræður Starkaðar“ eftir Einar Benediktsson athafnaskáld sem Guðjón Friðriksson sagnfræðingur hefur kallað fyrsta útrásarvíkinginn. Kvæðið er ort undir áhrifum einstaklingshyggjunnar. Nafnið Leví vekur hugrenningatengsl við ljónið, konung dýranna. Starkaður er með öðrum orðum alfadýr sem hugsar bara um sjálfan sig og er aldeilis ófær eða óviljugur að setja sig í spor annarra. Að einhverju marki er hann fulltrúi fyrir alla útrásarvíkingana (sem ferðuðust um í einkaþotum og snekkjum), hegðun þeirra og framkomu í góðærinu og ekki hvað síst viðbrögð þeirra við hruninu. Þá vísar höfundur sérstaklega í misheppnaða tilraun Bjarna Ármannsonar til að sættast við þjóðina.

Umfjöllun:  Við upphaf bókar mætti ætla að nú eigi að sýna fram á hvern mann útrásarvíkingar hafi að geyma. Lesandinn kann að eiga von á að þessir fyrrum gulldrengir og átrúnaðargoð þjóðarinnar verði dregnir sundur og saman á háði. En það er ekki svo. Hér er miklu fremur velt upp heimspekilegum og siðfræðilegum spurningum: Hvað er mannorð og hversu mikilvægt er það hverjum og einum? Verður það keypt eða verður ónýtt mannorð bætt með öðrum hætti og þá hverjum? Er hægt að kaupa það?

Þrátt fyrir óheyrileg auðæfi og lúxuslíf í felum í útlöndum þá er Starkaður ekki sáttur við lífið og tilveruna. Undir niðri er hann bara lítill drengur, þjáður af einmanakennd og heimþrá, þrátt fyrir að á Íslandi er enginn sem saknar hans. Fyrirlitinn af löndum sínum á hann ekki afturkvæmt í samfélag eftirhrunáranna á Íslandi. Starkaður sýnir aldrei sanna iðrun yfir að hafa tekið þátt í hrunadansinum og grætt peninga í óhóflegu magni – peninga, sem þjóðin er ekki jafn sannfærð um og á tímum góðærisins að hafi verið aflað á heiðarlegan hátt. Samfélagið krefst iðrunar, sektardóms og endurgreiðslu í peningaformi. En þá má líka spyrja hvenær einstaklingur sýni næga iðrun og hvenær hann hafi greitt af digrum sjóðum sínum nóg til að seðja heiftþrungið samfélag. Starkaður er sannfærður um hann eigi ekki afturkvæmt í samfélagið með því að sýna iðrun og yfirbót. Það má til sanns vegar færa því dæmin hafa sýnt að öll viðleitni af hendi útrásarvíkinganna í þá átt hafa verið vegin og léttvæg fundin.

Sagan stillir upp sem andstæðum hinum lífsþyrsta útrásarvíkingi Starkaði Leví og rithöfundinum Almari Loga Almarssyni. Sá síðarnefndi er vel liðinn og vinamargur en algjörlega bugaður á sálinni og óskar sér einskis frekar en að yfirgefa þetta jarðlíf. Hann getur hins vegar ekki tekið af skarið með það vegna vissunnar um sorgina sem það kann að valda eiginkonu hans og syni. Áleitnar spurningar um siðferði sjálfsvíga vakna  við lesturinn og þá sérstaklega hvað varðar aðstandendur sem þurfa að lifa við afleiðingarnar. Einnig eru áberandi í verkinu vangaveltur um það hvað nákvæmlega gott mannorð sé í raun. Í tilfelli rithöfundarins þá er erfitt að koma auga á gæði mannorðsins, hann er jú bara meinleysisgrey. Lítið hefur mætt á mannorði Almars Loga og má skrifa það á þátttökuleysi hans í lífinu sökum gríðarlegs þunglyndis. Mannorðið er því í sæmilegu standi af notkunarleysi.

Það má líka segja að þessi saga fjalli um svik; svik Starkaðar við þjóðina eru
augljós en hann svíkur sig líka inn á fjölskyldu Almars Loga. Spurningin þar er fyrst og fremst hvort það sé ekki rithöfundurinn sem, þrátt fyrir allt, svíkur eiginkonu sína og son með brotthvarfi sínu úr lífinu. Og hvað þá með mannorð hans – er það alveg óflekkað? Þegar upp er staðið þá hefur Starkaður ekki keypt sér nýtt mannorð heldur nýtt líf, nýja tilveru en það kemur í hlut lesandans að leggja mat á hvort gjaldið hafi verið ásættanlegt og fyrir hvern. Sannarlega greiða þeir Starkaður Leví og Almar Logi fyrir með lífi sínu sem þeir báðir fyrirgera, hvor á sinn hátt. Þetta er óskaplega vel skrifuð bók og lætur lesandann ekki í friði um langa hríð að loknum lestri.

Steinunn Emilsdóttir, nemandi í bókmenntafræði

Önnur umfjöllun: