Stormurinn

stormurinnBjörgvin G. Sigurðsson. Stormurinn – reynslusaga ráðherra. Reykjavík: Nýtt land, 2010.

Efni: Í bókinni gerir Björgvin G. Sigurðsson upp stuttan en áhrifamikinn kafla í íslenskri samtímasögu, ár hans sem ráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde þegar bankahrunið dundi yfir. Hér fær ráðherra tækifæri til að segja söguna frá sínu sjónarhorni og ef til vill fá friðþægingu.

Bakgrunnur: Björgvin G Sigurðsson var alþingismaður Samfylkingarinnar árin 2003‒2013. Hann var viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þegar efnahagshrunið skall á haustið 2008. Björgvin sagði af sér embætti í janúarlok 2009 en Geir H. Haarde forsætisráðherra baðst lausnar fyrir ríkisstjórnina degi síðar.

Umfjöllun: Stormurinn hefst á spennuþrunginni atkvæðagreiðslu á Alþingi þar sem þingmenn kusu hvaða ráðherrar þyrftu að svara til saka fyrir Landsdómi. Bókin endar þar einnig. Tímarammi sögunnar heldur utan um ráðherratíð Björgvins auk þess sem fjallað er um kosningasigur vinstri flokkanna vorið 2009 sem hann mærir mjög og kallar „skemmtilegt skítajobb“ (s. 131). Sá hluti bókarinnar snýst um of um hugðarefni Björgvins á vettvangi stjórnmálanna. Fyrri hlutinn er þeim mun betri og er ágæt lýsing á hraðri atburðarrás efnahagshrunsins frá sjónarhorni innherja. Síðasti kafli bókarinnar segir frá árum Björgvins í ungliðahreyfingum. Hann stingur í stúf við efni bókarinnar og á lítið skylt við hrunið.

Frásögnin flæðir vel, hver kafli er stuttur og fjallar gjarnan um einstök, afmörkuð atriði. Það er kostur fyrir lesendur sem vilja stutt ágrip yfir yfirgripsmikið efni en í heild minnir verkið á annál. Höfundur vinnur lítið með heimildir, hann vitnar þó í eigin blaðagreinar, leyfir Guðna Th. Jóhannessyni sagnfræðingi tvisvar að eiga orðið og vitnar stundum í fréttir eða skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Stöku frumheimildir, netpóstar og orðasendingar vina og ráðamanna gæða þó frásögnina lífi. Þá er einkennandi hve marga Björgvin nafngreinir í verkinu, frásögnin virkar fjörlegri fyrir vikið en að sama skapi gæti erlendur lesandi átt erfitt með lestur. Bókin er ekki fræðileg, hún er miklu frekar persónuleg frásögn. Það kemur ekki að sök, textinn er skrifaður af miklu hispursleysi og stíllinn er hraður sem fellur vel að efninu því atburðarrásin er hröð. Bókinni fylgir nafnaskrá en heimilda er ekki getið. Birtur er nokkur fjöldi mynda og er mikill fengur í þeim, þær munu vafalaust verða dýrmætari eftir því sem tíminn líður.

Höfundur er að mestu sanngjarn í umfjöllun um menn og málefni þó svo að pólitísk afstaða hans sé ætíð sýnileg. Eftirtektarvert er hvað honum gremst eldri og reyndari stjórnmálamenn sem eru honum andsnúnir á velli stjórnmálanna. Um æðstu menn Seðlabankans segir hann: „Þetta voru menn sem höfðu vanist því eftir áratuga heljartök á þjóðfélaginu að á þá væri hlustað“ (s. 87) og á hann augljóslega við Davíð Oddsson. Illdeilur þeirra á milli eru vel þekktar, Björgvin lætur þær ekki liggja á milli hluta. Eiríkur Guðnason, einn bankastjóra Seðlabankans, kallar örlagaríkan fund Björgvins og seðlabankastjóranna þriggja „stormasaman“ og vera má að þaðan komi titill bókarinnar.

Björgvin er einlægur þegar hann lýsir álaginu sem leiddi til þess að hann sagði af sér: „Ekkert er þess virði að það ræni manni ró og lífsánægju. Ég hætti um helgina, hugsaði ég“ (s. 126). Björgvin virðist oft hafa verið einn með sínum hugsunum á erfiðum tímum, en minnist þess að hafa alltaf haft góða að. Það verður samt að teljast álitamál hvort Björgvin sé hreinskilinn eða að svíkjast undan þegar hann dregur upp mynd af stjórnvöldum sem hjálparlausum fórnarlömbum heimskreppunnar. Í upphafi bókar segir hann: „Stjórnmálalífið var því óravegu frá því að geta horfst í augu við raunveruleikann þegar hann loksins birtist og tekist á við hann með yfirveguðum og raunsæjum hætti.“ (s. 17). Málflutningur Björgvins styrkist þegar skoðun hans á Evrópusambandinu er höfð í huga og hve duglegur hann var að benda á galla krónunnar, jafnvel þegar vel gekk í íslensku viðskiptalífi (sjá t.d. s. 81).

Björgvin er iðinn við draga ungan aldur sinn fram í dagsljósið, ekki þó til að státa sig af því heldur frekar til að afsaka sig. Það er lítil reisn yfir því. Hins vegar er rétt að nefna að ráðuneytið sem hann stýrði var nýtt og hafði fáa starfsmenn. Björgvin talar um þær niðurstöður rannsóknarskýrslunnar sem honum fannst ranglátar. Hann segir: „Þetta eru alvarlegar ávirðingar sem mér þykja ekki í neinu samræmi við veruleikann eða raunverulega stöðu mála,“ (s. 147). Hins vegar lýsir hann mjög stuttlega útgáfu skýrslunnar og þeim áhrifum sem hún hafði á hann og tekst ekki að vinna sér samúð hjá lesenda. Í stað þess að færa rök fyrir ólögmæti ásakana í skýrslunni birtir hann samúðarpósta frá flokksfélögum sínum.

Bókin er í heild þægileg aflestrar. Það er auðvelt að fletta í henni og margt sem fangar athyglina. Hún er einföld í sniði. Það hvarflar ekki oft að lesenda að höfundur hafi meitlað sérhverja setningu gætilega, frekar hafi hann leyft sögunni að flæða. Vera má að Björgvin hafi hugsað sér bókina sem einhvers konar uppgjör og ætli sér að halda ótrauður áfram í stjórnmálum.

Einar Jóhann Geirsson, nemandi í sagnfræði, nóvember 2014

Önnur umfjöllun: