Gæska

Eiríkur Örn Norðdahl. Gæska. Reykjavík: Mál og menning, 2009. 

Efni: Sagan hverfist um tvö pör: hjónin Halldór og Millý, sem eru bæði alþingismenn en þó í sitthvorum flokknum – Halldór situr fyrir íhaldsflokk, sem hefur lengi verið við völd, en Millý fyrir jafnaðarflokk sem er sífellt í stjórnarandstöðu. Hitt parið samanstendur af iðnaðarmanninum Óla Geir og Freyleifi, sem er hægri hönd Millýar. Þeim er fylgt í gegnum nokkra afdrifaríkra daga í sögu þjóðar: krónan fellur og stærðar sinubruni leggur Esjuna í rúst. En auk þess verða mótmæli, bylting, stjórnarskipti og landið fyllist af flóttamönnum hvaðanæva af úr heiminum. Samhliða eru dagarnir afdrifaríkir fyrir hjónin, sem halda framhjá, gera sjálfsmorðstilraunir, flytja út af heimilinu, hætta að mæta í vinnu, taka við stjórn landsins og kynnast innflytjendum. Sagan er stór í sniðum, ýkt og stórkarlaleg satíra á atburði sem áttu sér stað haustið 2008.

Bakgrunnur: Gæska var fyrsta skáldsaga Eiríks Arnar í röð verka með titlum sem vísa til mannlegra dyggða og lasta, næstu tvær voru Illska (2012) og Heimska (2015). Allar fjalla þær á einn eða annan hátt um alþjóðarvæðingu, þjóðarstolt og fordóma. Sögunni er skipt í tvo hluta og í hvorum helmingi er sagt frá nokkum dögum fyrir og eftir efnahagshrun á Íslandi. Kaflarnir greina frá nokkrum klukkustundum hvers dags og bera yfirskriftir á borð við „dagur 1 – 06.00-07.00“. Frásögnin skiptist á að vera í fyrstu persónu, þar sem Halldór segir, og frásögn hjá nær alvitrum sögumanni. Stundum virðast Halldór og sögumaðurinn vera einn og sami maðurinn, enda er stíll þeirra og nálgun keimlík. Báðir eru þeir mælskir og lýsa afdrifaríkum samfélaglegum áhrifum hruns, falls krónunnar og öfgafullri aukningu innflytjenda með ýkjum og af ofsa. Í verkinu er þó sjaldan reynt að höndla tilfinningar sem fylgja stóru áfalli eða að lýsa því sem raunverulega átti sér stað við hrunið, þó að margt eigi sér augljósar hliðstæður. Í raun er Gæska nokkuð ólík öðrum hrunbókum, þar sem raunsæið lætur í minni pokann fyrir fantatískri útgáfu Eiríks Arnar af hruni krónunnar.

Umfjöllun: Í stíl stórskálda 20. aldar, einkum Halldórs Laxness, þá ritar höfundur aftast í bókina hvar og hvenær verkið var skrifað: „Helsinki – Ísafjörður – Helsinki júlí, 2007 – júlí, 2009“. Þetta skáldverk um hrun íslensku krónunnar virðist því hafa verið í vinnslu í rúmlega ár áður en hið raunverulega hrun átti sér stað hér á landi. Þetta staðfesti Eiríkur sjálfur í viðtölum og sagðist hafa verið að vinna að verki um viðbrögð landsmanna við falli krónunnar þegar íslensku bankarnir hrundu. Lýsingarnar í bókinni eru því oft frekar langt frá því sem átti sér stað í raun og veru:

„Tuskuklædd fórnarlömb hins hrynjandi gjaldmiðils ráfuðu um eyðilega borgina í leit að haldreipi af sams konar áfergju og hýenur eltast við þránuð hræ af hlébörðum, tígrisdýrum og öðrum tignarlegum merkurskepnum sem þær eiga ekki skilið. Augu þeirra voru á eilífum þvælingi eftir veggjum og götum upp að verslunargluggum sem dúuðu undan þunga alls þess sem aldrei myndi seljast framar: Merkjavörukjólum, fimmtánrassajeppum, fjórrétta-máltíðum, eðalsteinum og olíumálverkum. […] Hvert sem litið var gekk fólk um og betlaði eða reyndi að selja þær eigur sínar sem það hafði náð að bjarga undan skuldheimtumönnum. Mæður týndu lýs úr höfðum hríðhoraðra barna sinna, feður spiluðu hark upp á smápeninga og kaupsýslumenn stóðu á pöllum og gerðu lokatilraun til þess að losa sig við plasmaskjái, leðursófasettin, víðóma-hátalarakerfin og önnur fótanuddtæki hinna nýríku.“ (129-130)

Svo ýktar lýsingar á þjóðfélaginu eru algengar í verkinu og oftast virka þær sem skopstæling á því ástandi sem ríkti þegar bókin kom út. Ef tekið er tillit til ofangreinds ritunartíma má þó fremur ætla að slíkar lýsingar séu endurvinnsla á minningum af fátækt í fortíðinni, á veruleikanum í lágtekjulöndum eða einskonar heimsendaminni sem virtist svo fjarlæg vellystingunum á Íslandi þegar bókarskrifin hófust. Í raun eru þessar ýktu lýsingar á íslensku þjóðfélagi í krísu það sem drífur bókina áfram; því minna virðist lagt í persónusköpun eða sögufléttu. Það er því ef til vill við hæfi að skauta hér nokkuð framhjá útleggingum á brölti persóna og kúgvendingum í frásögninni, en skoða fremur hvernig sögumaður (eða -menn) kjósa að lýsa samfélagi sem virðist í frjálsu falli.

Það fyrsta sem vekur athylgi er hve verkið er snautt af gagnrýni á kaupsýlumenn og útrásarvíkinga, ólíkt flestum öðrum hrunbókum. Þess í stað er meginþungi ásakanna verksins stefnt gegn alþingismönnum:

„Síðan ultu þeir um einsog rýtandi afbendisgrísir í stíu, berandi leðju hver á annan með lúalegum hrákakjöftum, sjálfum sér, öðrum og öllum til ómældrar hamingjuaukningar – rusluðu í sig blæðandi hræjum lýðræðis, réttlætis og gæsku, þar til ekkert var eftir handa komandi kynslóðum að leggja í eyði, sjúga mergin úr, drepa úr leiðindum – engir reðrar eftir ósognir og allir hringvöðvar fyrir löngu sprungnir. Symbólskt sagt, að sjálfsögðu. Við myndum ekki segja svona í „alvöru“.“ (15-16)

Úr verkinu mætti tína til margar fleiri lýsingar á þingmönnum í gróteskum stíl, enda veigrar sögumaður sér ekki við að dæma persónur og gerendur í þeim veruleika sem hann skapar. Svipaðar lýsingar er að finna þegar innflytjendurnir, Fatíma og Kadír, eru fengin til að dansa á sviði, íklædd íslenskum þjóðbúningum, á meðan ríkistjórnin hámar í sig mat og drykk þangað til ráðherrarnir æla og nær springa, dauðadrukknir og fretandi. Í annarri senu er slegist harkalega í þingsal. Hinar grófu lýsingar verksins eru þó ekki rætnar, því sjaldan er nafngreint fólk dregið inní frásögnina. Hins vegar má finna undantekningar á því: á einum stað gagnrýnir maður í útvarpsþætti Davíð Oddson harðlega, auk þess sem framtíðarhugmyndir Andra Snæs verða nokkrum sinnum skotspónn sögumanns. Einnig má nefna klausur á borð við þessa hér: „Óli Dóri fór inn í eldhús, hellti sér upp á kaffi og kveikti á útvarpinu. Það var verið að ræða kreppuna. Ræða krónuna. Ræða Evrópusambandið. Ræða Alþjóðargjaldeyrissjóðinn. Ræða Davíð og Ingibjörgu, Geir og Jóhönnu, Steingrím og Birgittu.“ (167) Það er helst í gegnum útvarpið sem hinn raunverulegi eftirmáli hrunsins kemst að í sögunni, sem passar þó ekki ætíð við hið skáldaða hrun krónunar í verkinu – enda verður persónan Millý forsætisráðherra eftir hrun, ekki Jóhanna Sigurðardóttir.

Annar þjóðfélagshópur sem er harðlega gagnrýndur í verkinu, þó hann standi höfundi sjálfum nærri, eru íslenskir listamenn:

„Undir styttunni af Skúla fógeta stóð handfylli af ósofnum listamönnum, hálfdrukknum, sem allir höfðu fengið höfnun á debetkortin sín þegar spurðist út að Björgólfur væri einkaþotinn úr landi með styrktarpeninganna sína. Þeir klóruðu sér í hausnum og veltu fyrir sér næstu skrefum. Einhver stakk upp á heimabruggi en það kunni enginn og auk þess var það ólöglegt. Annar reyndi að ná í landasalann sinn úr grunnskóla til að sjá hvort hann gæti ekki fengið smá út á krít en það var til einskis. Landasalinn hafði sjálfur gerst listamaður fyrir fáeinum misserum og stóð nú í sömu sporum og sá sem hringdi, nema bara á Akureyri.“ (130)

Ekki er mikla björg að finna hjá listamönnum sem virðast vera á spena hjá bönkunum og vilja helst drekka sig fulla á þeirra kostnað. Einnig eru mótmælendur búsáhaldarbyltingunnar kallaðir „hvítir miðstéttarkrakkar á Vesturlöndum. Þau eru börn foreldra sinna, sem hafa riðið grislingunum sínum svo þétt öryggisnet að það slitnar aldrei. Þetta eru hin eirðarlausu börn kapítalismans, sem kunna ekki gott að meta. Þau eru með alla vasa fulla af peningum og þau eru ekki að gera neitt við þá nema að kaupa drasl sem þau fá samviskubit yfir að eiga“. (134) Í raun virðist vaka fyrir sögumanni Gæsku að benda á stóra galla íslensks þjóðfélags mitt á milli góðæris og hruns. Þá lifði þjóðin í vellystingum, en þegar allt hrundi, og þjóðin tókst á við missi, mætti erfiðleikum og rýrnandi lífsgæðum, þá barmaði hún sér heldur hátíðlega. Gagnrýni höfundar nær svo hámarki þegar innflytjendur fylla landið í leit eftir betra lífi, þrátt fyrir efnahagshrun.

Millý byrjar feril sinn sem forsetisráðherra á að sofa hjá aðalfulltrúa Alþjóðargjaldeyris-sjóðsins og þegar hún vaknar blasir við annað vandamál, því götur borgarinnar eru fullar af innflytjendum:

„Og innum hliðið skyldu þeir líka marséra, stromphissa eftir að hafa verið vísað út í veður og vind af öllum helstu menningarþjóðum – sagt að éta það sem úti frýs og bráðnar – fyrir náð og miskunn íslenskrar aumingjagæsku, jafnt prófessorar og slæpingjar, níutíu milljón talsins, hvorki meira né minna, á vergangi beinustu leið í gúanó- og slorimenningu smábæja, talandi pólsku og tælensku og úrdú og hindí og svahílí og arabísku og guðveitekkihvað. Níutíu milljón manns! Hvað eru það mörg símtöl inn á Útvarp Sögu? Hvað eru það margir smellir á mbl.is? Auglýsingatekjurnar myndu ná óþekktum hæðum. Efnahagnum var bjargað. Hallelúja.“ (209)

Svo virðast sem allt þetta fólk séu efnahagslegir flóttamenn, flestir koma frá hinum svokallað þriðja heimi, og þeirra vanda er stefnt gegn hinu meinta hruni eins og til að segja að þrátt fyrir hrun efnahagskerfa á stöðum eins og Íslandi er það ekkert miðað við þann hluta mannkyns sem býr við alvöru örbirgð:

„Sá heimur sem blasti við þegar glóðin úr Esjunni hafði flætt yfir Reykjavík var með öllu annar en fyrr, boðaði ekkert nema gæsku – logarnir sviðu burt heimsku og illsku og allt sem þeim innræktarsyskinum fylgir. Þeir gripu með sér græðgi kaupmanna og sinnuleysi fólks – óloft og eirðarleysi, grát gnístran – en skildi eftir sig skínandi loga mennskunnar í hjörtum jarðarbarna, mennskunnar sem við höfðum saknað svo lengi.“ (154)

Eyðileggingin skapar ef til vill nýtt hugarfar og nýjan skilning á stöðu okkar í heiminum. Og í tilvitnuðum texta má jafnvel sjá fæðingu næstu verka Eiríks Arnar, Heimsku og Illsku, þar sem hann heldur áfram að benda á sjálfumgleði og fordóma Íslendinga.

Þegar Millý lítur út um gluggann á stjórnarráðinu er þar mannmergð mikil, en hún bregst ekki við eins og landar hennar sem fylltust flestir ótta og jafnvel reiði, heldur sér hún tækifæri. Hún segir á einum stað: „Þetta fólk mun vinna fyrir sér og borga skatt. Það mun greiða virðisauka með neyslu sinni. Leggja fyrir, taka lán, borga vexti – kaupa fisk og lopapeysur. Þau eiga ekkert. Vantar allt.“ (232) Jafnaðarmaðurinn Millý virðist sjá efnahagslegu tækifærin sem felast í því að taka við öllum þessum útlendingum. Landið er stórt en fámennt og ef reisa þarf nýtt efnahagskerfi hví ekki að gera það í samvinnu við þá sem minna mega sín í heiminum? Svipaðar viðhorfsbreytingar virðast eiga sér stað hjá íhaldsmanninum Halldóri, sem fer að sjá hið góða í þeim sem hann áður hræddist. Og undir lok sögunnar rís múslimskur bænaturn upp úr rústum Hörpu.

Gæska er ekki þétt ofin skáldsaga með úthugsaðari framvindu og flóknum persónum. Verkið er meira raus sögumanns um hvað gerist ef efnahagskerfi hrynur og landið fyllist af flóttamönnum. Ef lesandinn slæst í för með þessum sögumanni kynnist hann orðkyngi og ríku hugmyndarflugi, sögumanni sem virðist óvenju sannspár þegar grant er skoðað. Því í bókinni var ekki aðeins spáð fyrir um efnahagshrun heldur enn meiri fjölgun útlendinga á Íslandi. Hún var einn af mörgum ófyrirsjánlegum fylgifiskum hrunsins.

Einar Kári Jóhannsson, nemandi í bókmenntafræði.

 

Önnur umfjöllun:

Viðtöl: