Skuggi sólkonungs

skuggiÓlafur Arnarson. Skuggi sólkonungs. Er Davíð Oddsson dýrasti maður lýðveldisins? Reykjavík: Kver, 2014.

Efni: Bókin fjallar um hlut Davíðs Oddsonar í aðdraganda hruns íslenska bankakerfisins 2008 sem og þátt Davíðs í hruninu sjálfu. Í bókinni er stjórnmálaferill Davíðs rakinn, með það að sjónarmiði að sýna fram á hversu gífurlega mikil áhrif og völd hann hafði. Ólafur segist ekki vera andvígur Davíð Oddssyni persónulega heldur einungis vera að gagnrýna gjörðir hans og segist ósáttur við margar af ákvörðunum hans og ekki síður starfshætti hans sem stjórnmálamanns, bankastjóra og ritstjóra.

Bakgrunnur: Ólafur Arnarson er hagfræðingur að mennt. Hann var á tímabili framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins og var aðstoðarmaður menntamálaráðherra í fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Hann hefur jafnframt starfað hjá innlendum og erlendum fjármálafyrirtækjum, skrifað bækur og verið álitsgjafi í fjölmiðlum. Ólafur hafði áður skrifað aðra bók um hrunið, Sofandi að feigðarósi og er Skuggi sólkonungs óbeint framhald hennar. Í formála nýju bókarinnar, sem er skrifuð sex árum eftir hrun, segir Ólafur margt nýtt hafa komið í ljós sem hann telur styrkja kenningar sínar úr fyrri bókinni.

Umfjöllun: Mat Ólafs er að Davíð Oddsson hafi í grunninn verið einvaldur sem hafði mikil ítök víðsvegar í íslensku samfélagi. Þeir sem ekki voru sammála honum héldu ekki stöðum sínum og var hiklaust skipt út fyrir fólk sem var tilbúið að sitja og standa eftir þörfum Davíðs og geðþótta. Fyrsta dæmið sem Ólafur tekur um einvaldstilhneigingu Davíðs er þegar hann lagði niður Þjóðhagstofnun með einu pennastriki. Því næst gagnrýnir Ólafur einkavæðingu bankanna; það hvernig bönkunum var skipt milli flokkshollra manna. Framsóknarflokkurinn fékk einn banka og Sjálfstæðisflokkurinn annan, en þessir tveir stjórnmálaflokkar stjórnuðu landinu í sameiningu á þeim tíma sem einkavæðing bankanna átti sér stað.

Ólafur dregur þessu næst upp mynd af alþjóðlegu viðskiptaumhverfinu á fyrsta áratug 21. aldarinnar en í kjölfarið er fjallað um stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins og hvernig hún breyttist í samræmi við vilja Davíðs. Einnig er samband George W. Bush Bandaríkjaforseta og Davíðs Oddsonar rætt og skýrt hversu mikil áhrif það hafi haft á utanríkisstefnu Íslands og málefni sem m.a. vörðuðu aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ólafur segir Davíð hafa gert allt sem í hans valdi stóð til að flétta saman hagsmuni Íslands og Bandaríkjanna. Álítur Ólafur t.d. að Bandaríkjaher hafi verið jafn lengi á Íslandi og raun ber vitni fyrst og fremst vegna vinskapar Davíðs og Bush.

Ólafur fullyrðir að Davíð hafi haft hreina andúð á Baugs-feðgum, þeim Jóhannesi Jónssyni og Jóni Ásgeiri syni hans, og hafi gert ítrekaðar tilraunir til að stöðva framgang þeirra í viðskiptalífinu, til dæmis með fjölmiðlafrumvarpinu árið 2004. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, neitaði að staðfesta fjölmiðlalögin og beitti þar með í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins synjunarvaldi forseta. Davíð hafði þar beðið lægri hlut fyrir Ólafi Ragnari. Þann atburð telur Ólafur marka upphafið að endalokum stjórnmálaferils Davíðs. Einnig hafi skipt máli að Davíð veiktist svo hann sá sér ekki fært um að halda forsætisráðherraembættinu. Hann hafi því ákveðið að flytja sig yfir í stól bankastjóra Seðlabankans, með stuttu stoppi í utanríkisráðuneytinu.

Í næstu köflum bókarinnar er rætt um meint vanhæfi Davíðs í bankastjórastarfinu og farið yfir ýmis atriði sem hefðu mátt fara betur í aðgerðum Seðlabankans þegar Glitnir óskaði eftir hjálp í september 2008. Ólafur telur viðbrögð Davíðs þá hafa gert illt verra og í raun hafi Seðlabankinn líka orðið gjaldþrota. Bankinn hafi lagt margra milljóna króna skuld á hvern og einn Íslending með mistökum sem Davíð hefði átt að geta komið í veg fyrir.

Gagnrýni Ólafs á Davíð beinist loks að störfum þess síðarnefnda sem ritstjóra Morgunblaðsins, en við þeirri stöðu tók Davíð í september 2009. Ólafur segir að Davíð hafi misnotað aðstöðu sína í ritstjórastólnum og tekið að birta fjölda greina gegn inngöngu Íslands í ESB, sem var þvert á fyrri stefnu blaðsins. Ólafur telur Davíð einnig lagt kapp á að endurskrifa söguna á síðum Morgunblaðsins sér í hag.

Síðustu línurnar í bókinni fjalla um arfleifð Davíðs Oddssonar. Meginlínurnar eru þær að hvar sem litið sé yfir feril Davíðs blasi við rústir einar. Sjálfstæðisflokurinn í Reykjavík sé í rústum. Sjálfstæðisflokkurinn á landsvísu sé í rústum. Seðlabankinn sé í rústum. Ísland sé í rústum. Meira að segja Morgunblaðið sé í rústum og hefðu þó margir veðjað á að það stæði af sér kjarnorkuvetur. Sólin hnígur til viðar í landi sólkonungs.

Ólafi Arnarsyni tekst vissulega ætlunarverk sitt; að kenna Davíð Oddssyni alfarið um bankahrunið á Íslandi 2008. Hann er þó ekki nógu sannfærandi í málflutningi sínum því hann horfir á söguna í gegnum alltof þröngan glugga. Hruni bankanna ollu miklu fleiri en þessi eini maður, Davíð Oddsson. Að sjálfsögðu hafði hann mikil áhrif á íslenskt athafnalíf en hlutverk hans er ekki svo viðamikið að hann hafi verið einvaldur á Íslandi og honum einum hægt að kenna um hrunið. Ólafur styðst við margskonar heimildir og heimildarmenn en hann velur það sem passar best við hans skoðun og rannsakar lítið annað. Hann þekkir þó söguna vel. Bókin er auðveld aflestrar og er ætluð hinum almenna lesanda, höfundur fer lítið út í tæknilegar hliðar hrunsins og bankakerfisins. Rauði þráðurinn í bókinni er jú Davíð Oddsson.

Eyrún Bjarnadóttir, nemandi í sagnfræði, nóvember 2014

Önnur umfjöllun:

=====