Píslarvottar án hæfileika

píslarvottarKári Tulinius. Píslarvottar án hæfileika. Reykjavík: JPV, 2010.

Efni: Píslarvottar án hæfileika er frumraun Kára Tulinius sem skáldsagnahöfundar. Sögunni er skipt í tvo hluta, sá fyrri gerist í september 2008 og sá síðari í nóvember sama ár. Lesendur kynnast Sóla, Markúsi, Geira, Lilju og Dóru, vinum á þrítugsaldri sem lifa og hrærast í 101 Reykjavík. Hópurinn hittist gjarnan á börum borgarinnar og snúast samræðurnar fyrst og fremst um byltingarhetjur og hryðjuverk, en hópurinn þráir að losa íslenska þjóð úr greipum ‘kúgunarvaldsins’. Þau geta þó ekki orðið sammála um nafn á aðgerðahópinn og því verður lítið úr aðgerðunum sjálfum. Þau glíma einnig við vanda hnattvæðingar, – hversu stór eða smá á byltingin að verða og er nóg að breyta bara Íslandi?

Bakgrunnur: Þrátt fyrir að októbermánuði 2008 sé sleppt úr bókinni er hægt að greina í orðræðu persónanna svipuð ummæli og höfð voru eftir mótmælendum á Austurvelli á þeim tíma og einnig eru vísanir í mótmæli Saving Iceland við Kárahnjúkavirkjun en sá hópur átti eftir að koma að búsáhaldabyltingunni í janúar 2009. Speglanir eru milli athafna sögupersóna og mótmælenda eftir hrun, til að mynda kemur kennimerki Bónus fyrir. Í síðari hluta bókarinnar hefur hrunið skollið á og er í bakgrunni.

Umfjöllun: Ástir og áföll eru þungamiðja sögunnar, persónur glíma við hluti úr fortíðinni og ástarsambönd þeirra eru á floti. Efnahagshrunið er í bakgrunni í síðari hluta verksins en persónur eru á þeim tímapunkti að glíma við önnur og persónulegri mál. Það sem helst lífgar upp á bókina eru endurlitin þar sem lesandi fær að kynnast fortíð persóna, en í þessum endurlitsköflum er ritstíllinn annar og útfærslan kemur skemmtilega út. Á hinn bóginn er umhverfi, fötum og hreyfingum persóna á sögutíma lýst í fullmiklum smáatriðum. Persónur eru fötin sem þær klæðast, hinar svokölluðu hugsjónir þeirra birtast helst í andliti Che Gueavara á stuttermabolunum.

Hópurinn virðist þreyttur á ástandi sem aldrei er útskýrt til hlítar, ef til vill vegna þess að persónurnar sjálfar gera sér ekki grein fyrir hvað það sé sem þurfi að breytast. Samræður þeirra snúast aðallega um byltingar og hryðjuverk í Bandaríkjunum og Evrópu, auk þess sem Che Guevara kemur ítrekað við sögu. Persónur eru misvel að sér í þeirri hugmyndafræði sem þau segjast aðhyllast og það gerir þær heldur ótrúverðugar. Lesandi á erfitt með að finna út hvaðan frústrasjónin komi.

Þau njóta öll nokkurra forréttinda og virðast ekki þurfa að hafa áhyggjur af peningum. Þau nota SPRON- og Landsbanka-kortin sín endurtekið til þess að kaupa bjór á barnum. Hugsjónir hópsins ná of skammt. Baráttumálin eru of mörg eða einfaldlega ekki nógu hnitmiðuð. Gagnrýni vinahópsins ristir ekki nægilega djúpt því eðli málsins samkvæmt er erfitt að gagnrýna samfélag sem maður er hluti af og samdauna.

Höfundur virðist staðráðinn í því að gera ungmennin ótrúverðug og dregur þau í raun sundur og saman í háði. Sambönd og kynlíf leika stórt hlutverk í lífi þeirra og veldur því að lítið annað kemst raunverulega að. Spyrja má hvort skáldsagan falli í flokk hrunbókmennta þar sem atburðum í október 2008 er gjörsamlega sleppt. Tvö hinna fimm ungmenna eru þá í Palestínu og lesandi kemst aldrei að því hvað hin þrjú gerðu á meðan. Þegar kreppan skellur á virðast þau úti á þekju og undirstrikar það helst hversu skammt baráttuandi þeirra nær.

Bókin heldur ágætlega á meðan lestri stendur en það er lítið sem hún skilur eftir sig. Tungumál og hegðun persóna væru viðeigandi fyrir fólk undir tvítugu en sem háskólagengið fólk á þrítugsaldri virðast þau alltof týnd og illa að sér. Ef sögupersónur eiga að endurspegla mótmælendur á Austurvelli eru þær helst fulltrúar fyrir þær týpur sem aðeins mættu þangað til þess að sýna sig og sjá aðra.

Bergrún Andradóttir, nemandi í bókmenntafræði

Önnur umfjöllun:

Viðtöl: