Rosabaugur yfir Íslandi

rosabaugurBjörn Bjarnason. Rosabaugur yfir Íslandi. Reykjavík: Bókafélagið Ugla, 2011.

Efni: Í bókinni fjallar Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður, um sakamál þau sem nefnd voru Baugsmál, en þau hófust með kæru Jóns Geralds Sullenbergers til lögreglu sumarið 2002 og síðan húsleit í höfuðstöðvum Baugs 28. ágúst 2002. Þessi mál voru fyrirferðarmikil í fjölmiðlum og margir sem að málum komu spöruðu þá hvorki stór orð né samsæriskenningar. Bókin rekur sögu málsins frá árinu 2002 til 2009, þegar ríkisstjórn Geirs H. Haarde fór frá völdum. Um er að ræða yfirlitsrit þar sem farið er yfir helstu atburði í sögu málsins, en ekki staldrað mikið við einstaka atburði til greiningar. Björn telur sérstaka ástæðu til að greina aðferðir sem beitt var til að móta almenningsálit í þágu Baugsmanna, vega að réttarvörslukerfinu og hafa áhrif á niðurstöðu dómara. Í bókinni segist hann leitast við að gera það á hlutlægan hátt og draga saman niðurstöður að lokum.

Bakgrunnur: Höfundurinn er fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins og sat á Alþingi 1991‒2009. Hann hefur verið dóms-, kirkju- og mennta- og menningarmálaráðherra og sat ríkisstjórn á árunum 1995-2002 og 2003-2009. Hann tengist því viðfangsefninu náið, enda var hann dómsmálaráðherra á þeim tíma sem Baugsmál voru tekin fyrir, og er áhugavert að fá lýsingu á gangi málsins innan frá af sjónarhóli hans.

Mat: Rosabaugur yfir Íslandi er nokkurs konar andsvar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, segir Björn Bjarnason.  Hann tilgreinir í inngangsorðum að við varnir í Baugsmálum hafi verið gripið til aðferða sem séu einstæðar í íslenskri stjórnmála- og fjölmiðlasögu og bókin snúist um þessar aðferðir: „Full ástæða er til að greina aðferðir sem beitt var til að móta almenningsálit í þágu Baugsmanna, vega að réttarvörslukerfinu og hafa áhrif á niðurstöðu dómara. Í bókinni er leitast við að gera það á hlutlægan hátt og draga saman niðurstöður að lokum“ (s. ??).

Björn skoðar svo sannarlega hvaða áhrif fjölmiðlar höfðu m.a. á almenningsálit, en ég myndi þó seint telja hann hafa gert það á hlutlægan hátt. Augljóst er frá fyrstu blaðsíðu hverjir eru „góðir“ og hverjir eru „vondir“. Hvass tónn einkennir umfjöllun Björns um Fréttablaðið og fleiri „Baugsmiðla“, eins og hann nefnir þá í bók sinni. Einnig finnst mér Björn vera fljótur að stilla flestum aðilum máls upp gegn Sjálfstæðisflokknum, og þá sérstaklega gegn Davíð Oddssyni. Hann segir Baugsmenn, Samfylkinguna og Ólaf Ragnar Grímsson öll vera andstæðinga Davíðs Oddssonar, sem má vel vera, en þó vantar meiri hlutlægni í umfjöllunina og nauðsynlegt er að horfa á báðar hliðar málsins með gagnrýnisaugum.

Svo minnst sé á eitt atriði bókarinnar má til dæmis nefna að Björn fjallar með nokkrum þunga um frétt Fréttablaðsins af fundi Styrmis Gunnarssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl. og Kjartans Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, um lögmannsstörf í þágu kærandans, Jón Geralds Sullenbergers. Kjartan og Styrmir töldu sig þurfa að gefa skýringar á fundinum og gerðu það með vísan til fjölskyldubanda og að þeir hefðu um langt skeið leitað ráða hver hjá öðrum, jafnt um einkamál sem margt annað. Kjartan sagði jafnframt Styrmi hafa spurt sig, hvort „málarekstur […] væri ekki í höndum vandaðs og heiðarlegs lögmanns ef Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. tæki að sér mál mannsins“ (s. 152-53). Þetta birtir Björn athugasemdalaust, þótt ekki verði séð að kalla hafi þurft saman fund og bera upp slíka spurningu um þjóðkunnan lögmann. Hér hefði hann mátt kryfja heimildirnar með gagnrýnni hætti en gert var enda skipta upplýsingar um fjölskyldubönd litlu máli hér.

Björn skiptir ritinu í marga kafla, alls 64 talsins þar sem hver kafli fjallar um nýjan atburð í framvindu málsins. Heimildaskrá vantar í bókina en vitnað er til heimilda jafnóðum neðanmáls. Nafnaskrá eykur notagildi bókarinnar til muna. Verkið er vel upp sett og er frásögnin skipuleg og upplýsandi og ekki síst lipurlega skrifuð. Bókin er ekki sagnfræðileg enda er ekki leitast við að greina heimildir og vega og meta ólík sjónarhorn heldur myndi ég telja bókina vera að mestu leyti ætlaða almenningi.

Björn notar opinberar heimildir, þá aðallega úr dagblöðum og öðrum fréttamiðlum, og mætti svo sannarlega segja að hann velji sér stundum þær heimildir sem honum hentar. Fannst mér hann líta mjög gagnrýnið á fréttir Fréttablaðsins en á sama tíma notar hann fréttir Morgunblaðsins sér til stuðnings án þess að efast um heimildagildi þeirra, svo dæmi sé nefnt. Hins vegar vitnar höfundurinn nánast alltaf í heimildir (þegar það á við) og rökstyður sitt mál. Málflutningurinn er mjög skýr og skynsamlegur og er ritið sett fram mjög skipulega. Kaflaskiptingin er góð að mínu mati og notar höfundurinn myndir sér til stuðnings í bókinni. Hins vegar mætti hafa texta við myndirnar til að tengja þær enn betur við samhengi bókarinnar. Ritið er því mjög gott aflestrar og ég hafði gaman af því að lesa það. Höfundurinn er góður sögumaður svo það er mjög auðvelt að fylgja sögunni.

Allt í allt tel ég bókina vel heppnaða, en þó kannski ekki á þann hátt sem höfundurinn hugsaði sér. Ég er ekki sammála aðfaraorðum ritsins þar sem höfundur segist vera að fara yfir sögu Baugsmálsins á gagnrýnan og hlutlægan hátt. Ritið er því ekki sagnfræðilegt en verður vafalaust mikilvægt gagn við sagnfræðilegar rannsóknir síðar þar sem að það hefur ótvírætt heimildargildi um viðhorf manns í fremstu röð. Því ætti frekar að líta á bókina sem góða heimild um Baugsmálið, frá sjónarhorni dómsmálaráðherra úr röðum Sjálfstæðisflokksins.

 Tómas Ingi Shelton, nemandi í sagnfræði (nóvember 2014)

Önnur umfjöllun: