Litlu dauðarnir

Stefán Máni. Litlu dauðarnir. [Reykjavík]: Sögur útgáfa, 2014.

Efni: Kristófer, aðalpersóna Litlu dauðanna, er bókhaldari hjá Landsbankanum. Í verkinu er sögð sagan af aðdraganda efnahagshrunsins á Íslandi og eftirköstum þess og sérstaklega varpað ljósi á hvernig hvort tveggja hefur áhrif á líf Kristófers. Hann er giftur Margréti, sem er af efnafólki komin. Þau hjónin kynntust í áfanga í hugvísindanámi við Háskóla Íslands, en hann á það til að kalla sig bókmenntafræðing þrátt fyrir að hafa ekki klárað BA-ritgerðina sína á sínum tíma. Eftir að hann missir vinnuna hjá Landsbankanum segir hann konu sinni ekki frá atvinnuleysinu og dregst inn í hvirfilbyl peningasvika og fjárglæpa þar sem mágur hans tekur lykilákvarðanir. Mörg endurrlit til æsku Kristófers gefa til kynna að hann eigi ýmis mál óuppgerð við látinn föður sinn.

Bakgrunnur: Efnahagshrunið 2008 er í forgrunni bókar og er uppsögn Kristófers vísun í það sem margur landinn þurfti að þola. Í verkinu er aðalfjármálastofnunin Landsbankinn en fram koma einnig upplýsingar um gjaldeyrissvik þegar Íslendingar stofna fyrirtæki í Evrópu til að geta keypt íslensku krónuna á tilboðsverði og þrætt þannig framhjá gjaldeyrishöftum. Bókaútgáfan sem Margrét vinnur hjá minnir um margt á Forlagið og talar hún oft um löngun sína til að stofna eigin bókútgáfu. Mótmælin á Austurvelli í miðbæ höfuðborgarinnar koma einnig við sögu.

Umfjöllun: Bókin er öðrum þræði spennusaga. Hún byrjar á því að Kristófer bíður kvíðafullur eftir láni frá þekktum glæpamanni til þess að geta tekið þátt í gjaldeyrissvindli. Verkið er líka einhvers konar minningarbók þar sem Kristófer virðist meta líf sitt út frá ákveðnum atburðum sem áttu sér stað fyrr á lífsleið hans og flakkar því frásögnin fram og aftur í tíma. Kaflaheitin vísa í mánuði og ártöl sem gefur lesandanum tækifæri til að staðsetja sig í ástandi samfélagsins á þeim tíma sem viðkomandi kafli lýsir.

Febrúar 2007 markar ákveðin tímamót í lífi hjónakornanna þegar tengdarfaðir Kristófers og mágur neyða hann til að gera kaupmála eftir að hann hefur gengið í skrokk á Margréti. Jafnframt telur Kristófer sig neyðast til að taka þá við starfi í Landsbankanum, kaupa fína íbúð í Þingholtunum og standa sína plikt sem eiginmaður og faðir. Eftir að Kristófer missir vinnuna í oktober 2008 fer þessi uggvænlegi kaupmáli að hvíla á honum líkt og mara og knýr hann til að gera ótrúlegustu hluti því hann vill ekki missa Margréti konu sína og barn.

Draga má þá ályktun að boðskapur verksins sé sá að fólk eigi að taka sig taki og hætta öllu væli: þú ert þinnar gæfu smiður. Kristófer er að eigin mati ávallt fórnarlamb og ber aldrei sök sjálfur á ógæfu sinni. Hann reynir meðal annars að víkja sér undan ábyrgð á starfinu í bankanum sem hann neyddist til að taka að sér. Hann er í eigin huga bara lítill, móðurlaus strákur sem langaði í pabbaknús en fékk það aldrei heldur sat uppi með vanhæfan föður sem sífellt var utan við sig og svipti sig að lokum lífi. Í annan stað er hann kokkálaður eiginmaður; Margrét hélt framhjá honum og þess vegna lamdi hann hana, þess vegna er hjónabandið í molum og þess vegna þurfti hann að gefa drauma sína upp á bátinn. Hann hætti við að klára lokaritgerð sína í bókmenntafræðinni og tók við starfinu í bankanum. Það má einnig segja að Kristófer láti frelsi sitt í hendur tengdaföðurs og mágs, fyrst með kaupmálanum og síðar með þátttöku í gjaldeyrissvindlinu.

Stefán Máni sagðist í viðtölum hafa viljað færa lesendur nær söguhetju sinni, en í öðrum sögum sem hann hefur skrifað hafa söguhetjurnar oft verið stórglæpamenn sem ,,venjulegt fólk“ á erfitt með að samsama sig við. Með því að tengja söguþráð Litlu dauðanna við sameiginlega reynslu almennings af efnahagshruninu 2008 tekst honum að fá lesendur til að skilja betur söguhetjuna og samsama sig henni. Sagan vekur mann vissulega til umhugsunar um aðdraganda og eftirköst hrunsins. Hún vekur jafnframt sterkar tilfinningar en ekki endilega samhug með aðalpersónuni. Oft langar manni allra helst að gefa Kristófer vænan löðrung til að draga hann upp úr djúpi sjálfsvorkunnar og aumingjaskapar. Jafnvel sálfræðingur hans, sem leikur aukahlutverk í sögunni, reynir að hrista eymdina úr honum með því að segja honum að hætta að haga sér líkt og barn, hann sé nú einu sinni fullorðinn og þurfi að takast á við lífið!

Stefán Máni leikur sér í Litlu dauðunum með spennusagnarformið en hafa má í huga að til að skapa spennu þarf höfundur ekki endilega að skrifa hefðbundna spennusögu. Stefán Máni er að vinna úr tilfinningum sem virðast tengdar hruninu og varpar ljósi á trámað sem þjóðfélagið varð fyrir. En þó svo að hrunið sé í forgrunni er það ekki það sem drífur söguna áfram. Öðru fremur er þetta saga brotins einstaklings í tilvistarkreppu, sem getur ekki tekið skrefið framávið og gert upp fortíð sína. Við það að missa vinnuna haustið 2008 byrjar líf Kristófers að hrynja. Tilraunir hans til að sporna við algeru tilfinningalegu hruni og taugaáfalli eru líkt og olía á eldinn og enda einfaldlega með ósköpum.

Sandra Jónsdóttir, nemandi í bókmenntafræði

Önnur umfjöllun:

Viðtöl: