Iceland and the International Financial Crisis

ebergmanEiríkur Bergmann. Iceland and the International Financial Crisis. Boom, Bust and Recovery. Basingstoke, Palgrave Macmilllan, 2014.

Efni: Bókin fjallar um uppgang íslenska efnahagskerfisins, hrunið og afleiðingar þess og hvernig íslenskur efnahagur hefur náð sér upp úr þessari lægð á síðustu árum. Í bókinni rannsakar Eiríkur efnið út frá síðnýlendukenningunni sem er ný hugmynd um orsakir hrunsins. Hún er í senn stjórnmálaleg, sagnfræðileg og efnahagsleg greining á því hvers vegna efnahagskerfið hrundi. Hann gerir það með því að útskýra sögu Íslands út frá efnahagslegu sjónarmiði og útskýrir efnahagssveiflur á Íslandi m.a. út frá sjálfsmynd Íslendinga.

Bakgrunnur: Eiríkur Bergmann er stjórnmálafræðingur og starfar sem prófessor í stjórnmálafræði við háskólann á Bifröst og er forstöðumaður Evrópufræðasetursins. Hann hefur verið yfirlýstur Samfylkingarmaður.

Umfjöllun: Bókin skiptist í þrjá hluta sem skiptast í níu kafla, fyrir utan inngangs- og niðurstöðukafla. Fyrstu þrír kaflarnir eru bakgrunnurinn sem Eiríkur byggir síðnýlendukenninguna sína á og kallar hann þennan hluta „Rise and Shine“. Hann fullyrðir að þessir kaflar gefi nákvæma mynd af hverju uppgangur varð á Íslandi og hví allt hrundi. Öðrum hluta bókarinnar, sem kallast „Boom and Bust“, er líka skipt í þrjá kafla. Þarna greinir hann íslenska efnahagsundrið og af hverju kerfið hrundi. Útrásarvíkingarnir fá sitt pláss og fjallar hann m.a. um Geysis krísuna 2006 og hvernig hún átti eftir að hafa áhrif á að kerfið hrundi 2008 og hvaða áhrif það hafði á Ísland. Í þriðja hlutanum, sem kallast „Revolution and Recovery“, fjallar Eiríkur Bergmann um búsáhaldabyltinguna og greinir batann í íslensku efnahagslífi og pólitíska endurreisn eftir hrunið. Eiríkur notar fjölbreytar heimildir allt frá fræðibókum til dagblaða. Heimildarskrá er ítarleg og hefur bókin atorðaskrá og athugasemdir.

Tímabilið sem Eiríkur ræðir um nær allt frá upphafi Íslandsbyggðar til dagsins í dag. Hann setur fram kenningu sem hann vinnur með í gegnum alla bókina: síðnýlendustefnunna og síðnýlenduþjóðarsjálfsmynd Íslendinga. Hann tengir þetta tvennt saman og efnahagsleg vandræði Íslands við sjálfstæðisbaráttuna á 19. og 20. öld. Eftir að Ísland var orðið sjálfstætt ríki árið 1944 vildi þjóðin standa sig sem sjálfstæð heild en síðast en ekki síst vildi hún fá viðurkenningu frá erlendum ríkjum, vera þjóð með þjóðum.

Eiríkur tengir hina miklu goðsögn sem varð til í sjálfstæðisbaráttunni við gullöldina sem hófst við landnám árið 874 og endaði 1262 þegar Gamli sáttmáli var gerður og Ísland fór undir erlenda stjórn. Goðsögnin gengur einmitt út frá því að við þennan gjörning, þegar Ísland lenti undir Noregskonungi, hafi allt farið á versta veg (söguskoðun Jóns Aðils í hnotskurn). Þessi goðsögn hefur haft áhrif fram á 21. öld. Vegna þessara áhrifa hefur efnahagur landsins hnignað og risið til skiptis.

Eftir lýðveldisstofnun og við lok síðari heimstyrjaldarinnar hafi landið byrjað að vaxa efnahagslega – og orðið eitt ríkasta ríki Evrópu. Útlendingarnir voru farnir og sjálfstæði landsins í höfn og þess vegna varð hér velmegun. Eiríkur álítur að samband Íslands við aðrar þjóðir eigi til að vera skrítið og stundum erfitt vegna sjálfsmyndar Íslendinga og það telur hann hana útskýra útrásina. Eiríkur talar um nýfrjálshyggjuna og hvernig hún sé ástæða þess að hrunið hafi gerst.

Ný frjálshyggjan er hugmyndafræði sem Eimreiðarhópurinn s.k. kom fram með; meðlimir í þessum hópi voru meðal annars þeir Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóri og Geir H. Haarde, sem var forsætisráðherra þegar hrunið varð. Það má alveg halda því fram að Eiríki sem Samfylkingarmanni sé meinilla bæði við nýfrjálshyggjuna og þá herramenn sem tilheyrðu Eimreiðarhópnum. Hins vegar má alveg færa rök fyrir því að nýfrjálshyggjan hafi stuðlað að hruninu. Sú einkavæðing sem fór fram hér á árunum 1992 til 2002 þegar alls 22 ríkisfyrirtæki voru einkavædd, þar með taldir ríkisbankarnir þrír, sé afleiðing nýfrjálshyggjunnar.

Bókin er þægileg aflestrar, skrifuð á góðri ensku og er stíll Eiríks blátt áfram. Jafnvel þótt maður hafi aðrar skoðanir en hann, tekst honum að hrífa mann með sér. En bókin er ekki villulaus. Snemma í bókinni segir: „This marked the end of international banking in Iceland for centuries“ (s. 33). Það er einkennilegt að nota fleirtöluna af orðinu „century“, það er ekki liðin ein öld síðan Ísland fékk fullveldi, Íslandsbanki lenti í vandræðum þegar kreppan mikla hófst árið 1929 og það eru ekki liðin nema sex ár síðan allt efnahagskerfið hrundi hér á landi. Því er það óskiljanlegt af hverju hann segir „for centuries“  Á hann við að alþjóðlegt bankakerfi verði ekki á Íslandi næstu aldir eða hvað? Síðar í bókinn (s. 145) er leiðindavilla sem hann endurtekur aftur á næstu síðu, en þar segir hann frá heilakrabbameini (e. brain cancer) Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Ingibjörg fékk ekki heilakrabbamein, heldur góðkynja æxli í heila. Það er vitaskuld alltaf alvarlegt að fá slík mein, en rétt skal vera rétt. Hér er algjör óþarfi að gera meira úr málinu en efni stóðu til, kannski notar Eiríkur þetta til að skapa samúð með Ingibjörgu og jafnvel til að draga úr áhrifum hennar í hruninu. Þriðja villan er af öðru tagi:

Before the boom, Iceland had for centuries been an egalitarian society with no super-rich people. The income of the old wholesaler class was perhaps a few times higher than that of their employees on the shop floor. In the new millennium, however, high salaries in the banking sector were causing the upper class to lose touch with ordinary Icelanders. (s. 83)

Þessi söguskýring gengur ekki upp, vegna þess að hér á landi var aldrei neitt jafnréttis-samfélag. Hér ríkti vistarband sem gerði það að verkum að þeir sem voru ekki bændur eða húsmæður urðu að ráða sig í vist í eitt ár í senn. Konur höfðu ekki kosningarétt né þeir karlmenn sem áttu ekki eignir að tiltekinni upphæð og varð karlmaðurinn að auki að eiga sig sjálfur, þ.e.a.s. ekki vera vinnumaður.  Hvernig er hægt að túlka það sem jafnréttissamfélag? Það er að vísu alveg rétt að hinir nýríku sem urðu mjög ríkir fjarlægðust hinn venjulega Íslending á árunum fyrir hrun en að túlka Ísland í gegnum aldir sem jafnréttissamfélag gengur ekki upp.

Fleira má gera athugasemdir við. Eiríkur segir á einum stað: „At the foundation of the repuplic in 1944, the founding fathers (they were all menn) had announced that complete constitutional revision would e instigated immediately“ (s. 176). Orðasambandið „founding fathers“ er amerískt og passar engan veginn við íslenskt samfélag. Samt sem áður er auðvelt að skilja af hverju Eiríkur notar þessi það, það er erfitt að skýra þetta öðruvísi út. En skilningur flestra Íslendinga á þessu og á þeim atburðum sem gerðust á Alþingi 1944 er annar en sá sem Eiríkur dregur fram.

Í heild á Eiríkur það til að verða of hlutdrægur þegar fjallað er um Samfylkinguna. Málflutningur hans er annars oftast skýr og jaðrar við að vera skynsamlegur, en aðeins dregur úr skynseminni þegar flokkspólitíkin villir honum sýn. Bókin fer vel í hendi, er hvorki of stór né of lítil. Hún er prentuð á góðan pappír, hann er ekki glansandi, þannig pappír er oft erfitt að lesa vegna glampans sem vill koma á hann vegna birtu. Þó svo að ég sé mishrifin af þessari bók, þá er ég sannfærð um að það væri skynsamlegt að gefa hana út á íslensku.

María S. Jóhönnudóttir, meistaranemi í sagnfræði, nóvember 2014