Áttablaðarósin

attabladarosinÓttar M. Norðfjörð. Áttablaðarósin.  Reykjavík: Sögur, 2010.

Efni: Áttablaðarósin er pólitískur spennutryllir sem sprettur upp úr íslenskum samtíma. Persónuflóra verksins er afar fjölbreytt og veitir innsýn í mismunandi lög samfélagsins; sama hvort það eru undirheimar Reykjavíkur, alþjóðlegt viðskiptalíf eða líf menntaskólanema. Allar þessar persónur tengjast með einhverjum hætti tákninu áttablaðarós sem gegnir lykilhlutverki í fléttu sögunnar. Þrátt fyrir að hún fjalli að mestu leyti um glæpi sem eiga sér stað í samtímanum kemur einnig fyrir glæpur frá fyrri hluta 20. aldar og áttablaðarósin tengir þá saman á dularfullan hátt.

Bakgrunnur: Einn meginviðburður bókarinnar er salan á fyrirtækinu Orkuveitu Íslands (OÍ) til erlendra aðila. Óttar er ekki feiminn við að nýta sér efnivið úr samtímanum sem sést meðal annars á því að hann skrifar viðauka við bókina til þess eins að skýra vísanir í raunveruleikann. Orkuveita Íslands vísar til Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar en salan og deilurnar um eignarhald OÍ eru byggðar á ferlinu í kringum sölu HS Orku til Geysir Green Energy og Magma Energy. Viðskiptalífið í bók Óttars er einnig heiftarlegt þar sem víkingaeðlið virðist vera allsráðandi og aðeins hinir hæfustu lifa af. Í átökunum um sölu OÍ er veitt innsýn inn í stjórn fyrirtækisins sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna sitja í. Óttar reynir ekki að búa til skáldlegar hliðstæður þeirra flokka sem hafa verið mest áberandi á Íslandi síðastliðinn áratug. Þess í stað nefnir hann stærstu flokkana fjóra sínum réttu nöfnum og hikar ekki við að leika sér með staðalímyndir þeirra.

Umfjöllun: Áttablaðarósin er áhugaverð viðbót í íslenska spennusagnaflóru þar sem hún líkist frekar bókum Dans Brown en þeim er tilheyra skandinavísku krimmahefðinni. Áherslan í bók Óttars er ekki á rannsóknarlögreglumenn eða aðra sem tengjast sakamálum venjulega. Þess í stað leikur Óttar sér að því að blanda afar ólíkum og ólíklegum persónum saman við dularfulla og hættulega atburðarás.

Hinar ýmsu frásagnarfléttur sögunnar hverfast að miklu leyti um táknið í titli bókarinnar, áttablaðarósina. Með því að kynna til sögunnar leyndardóm þessa tákns er vakin mikil eftirvænting og forvitni hjá lesendanum, en það er eitt af þeim atriðum sem sýna hvað best líkindi við verk Dans Browns. Sagt er frá dularfullri aðferð til þess að ráða merkingu úr áttablaðarósum sem kallast að lesa rósina. Leyndardómurinn sem upplýsist við slíkan lestur undir lok bókarinnar er afar lítilfjörlegur og fyrirsjáanlegur þar sem auðvelt er að fylla inn í myndina eftir fyrstu vísbendingarnar.

Það er samt sem áður mjög ánægjulegt að lesa bók sem gerir tilraun til þess að skapa aldagamla leyndardóma innan íslensks samfélags, eins og oft gert í afþreyingarbókmenntum annarra landa. Óttar ákveður að notast við Oddfellow-regluna í stað frímúraranna, sem Dan Brown vinnur oft með. Tilraunin er afar skemmtileg og er merki um ákveðið hugrekki þar sem Óttar er tilbúinn til að ýkja íslenskan raunveruleika á þann máta að það minnir á Hollywood-kvikmynd. Þar með sker hann sig rækilega úr í hópi íslenskra spennusagnahöfunda en því miður nær hann ekki að ljúka við þessa tilraun með fullnægjandi hætti og tengingin við meginþráð verksins er veik. Á heildina litið hefði mögulega verið ákjósanlegra að sleppa leyndardómi áttablaðarósarinnar þar sem hann dregur athyglina frá raunverulegum styrk sögunnar.

Styrkur verksins felst í persónusköpun og samfélagsrýni. Gabríel, menntaskólanemi í Menntaskólanum í Reykjavík, og Áróra, sem er á fertugsaldri og vinnur á Stígamótum, mynda áhugavert rannsóknarteymi. Með því að nota fjölbreyttari og nýstárlegri persónur en gengur og gerist í íslenskum spennusögum verður verkið ófyrirsjáanlegra og meira spennandi. Hvernig geta til dæmis menntaskólanemi og starfsmaður Stígamóta flækst í glæpamál sem varðar alþjóðleg viðskipti og heildarhag íslensku þjóðarinnar? Óttar gerir einnig grein fyrir því hvernig öfgatrúin á vald peninga, sem kemur oft og tíðum upp í íslenskum hrunbókmenntum, hefur áhrif á fólk í öllum lögum samfélagsins. Hvort sem það er vandræði fátækrar fjölskyldu, vændi og ofbeldisglæpir í undirheimum Reykjavíkur eða hrottalegir viðskiptahættir í efstu lögum samfélagsins, virðist rauði þráðurinn vera tengdur peningum og hugsunarhætti útrásarinnar. Óttar fléttar þannig hrunið og hugsunarháttinn sem leiddi til þess inn í líf allra persóna verksins. Þessi breidd er það sem gerir bókina eftirminnilega.

Í heildina er Áttablaðarósin góð spennusaga sem nýtir sér efnivið úr íslensku samfélagi án þess að vera smeyk við hið ótrúverðuga og ósennilega. Frásögnin gæti vissulega reynt á þolmörk lesenda sem eiga erfitt með að sjá íslenskum samtíma lýst með Hollywood-blæ. Flétta sögunnar, ásamt hinum ýmsu vísunum í alþjóðlegu spennusagnahefðina, er afar metnaðarfull en niðurstaðan veldur samt vonbrigðum. Það sem vegur upp á móti losaralegum söguþræði er fjölbreytileiki persónanna og hvernig hrunið er látið snerta líf þeirra.

Már Másson Maack, nemandi í bókmenntafræði

Önnur umfjöllun:

 Viðtöl: