Morgunengill

morgunengillÁrni Þórarinsson. Morgunengill. Reykjavík: JPV útgáfa, 2010.

Efni: Morgunengill er sakamálasaga sem á sér stað á Íslandi eftir bankahrun. Í upphafi er sögð þjóðsaga af tröllum. Sú saga er fyrirboði um það sem koma skal; illsku og græðgi tiltekinna persóna og skort á öllum sammannlegum kenndum. Sagan sjálf hefst svo þegar heyrnarlaus bréfberi er myrtur á Akureyri og blaðamaðurinn Einar fer að grafast fyrir um málið. Hann fær hins vegar annað sakamál til að takast á við þegar dóttur íslensks auðmanns er rænt. Í leitinni að sannleikanum flækist Einar inn í fleiri mál sem einkennast af afbrotum og ofbeldi en ekki síður af þeirri reiði sem gegnumsýrir samfélag sem tekist hefur á við fjárhagslegt hrun og upplausn. Undir sögulok fléttast sakamálin saman á óvæntan hátt þó að varla sé hægt að tala um að þau leysist farsællega.

Bakgrunnur:  Höfundurinn nýtir sér efnivið frá tímum útrásar og bankahruns og víða má finna tilvísanir í íslenskan veruleika. Þó eru vísanirnar ekki endilega til þess gerðar að beina augum að einstökum mönnum eða stofnunum heldur íslenska efnahagsbatteríinu í heild. Viðskiptabankar, stjórnmálaflokkar og fjölmiðlar koma til tals en eru þá jafnan nafnlausir eða gefin skálduð nöfn . Undantekning á þessu eru Icesave reikningarnir. Mannræningjarnir vilja nefnilega meta barnslífið á 20 milljarða, eða „nægilega mikla peninga til að borga alla fokking Icesave skuldina“ (s . 228). Athafnamennirnir Jón Ásgeir og Björgólfur Thor eru nefndir lítillega en útrásarvíkingurinn Ölver Margrétarson Steinsson, sem aðeins er til innan skáldsögunnar, er gerður að holdgervingi þessa hóps sem „vildi gleypa allt landið og helst allan heiminn án þess að eiga fyrir því“ (s. 21) eins og Einar segir sjálfur. Þá er lítillega vikið að þeirri umfjöllun sem hrunið, og sérstaklega þeir sem voru gerðir ábyrgir fyrir því, fengu á samfélagsmiðlum. Í þessu samhengi er t.a.m. minnst á Spaugstofuna í dapurlegri senu þar sem Ölver getur ekki hugsað sér að eyða tíma með dóttur sinni fyrir framan sjónvarpið, eflaust vegna þeirrar harkalegu útreiðar sem hann hefur fengið þar.

Umfjöllun: Morgunengill er sakamálasaga sem tekst á við mál sem eru raunveruleg í íslenskum samtíma, s.s. fjölmiðlafár eða peningahneyksli. Í sögunni leika fjölmiðlar stórt hlutverk en þeir gera sér mat úr því fári sem bankakreppan hefur skapað. Þá eru þeir sérstaklega á höttunum eftir hneykslismálum útrásarvíkinga, hvort sem þau tengjast peningum þeirra eða persónulífi. Söguþráðurinn er afar spennandi og málunum tveimur er fléttað skemmtilega saman. Þrátt fyrir að um ýkta atburðarás sé að ræða er sagan fremur trúverðug. Á köflum þótti mér þó sérkennilegt að hugsa til þess að blaðamaður eigi svo greiðan aðgang að lögreglumönnum, lögfræðingum og trúnaðargögnum þeirra, eins og Einar á í verkinu. Það skemmdi þó alls ekki fyrir enda ýmislegt leyfilegt í skáldsögu.

Ýmsir hópar samfélagsins eiga sér þarna fulltrúa, þeirra á meðal fjölmiðlamaðurinn, einstæði faðirinn, unga fólkið, gamla konan sem var blekkt í útrásaræðinu og síðast en ekki síst hinn fallni útrásarvíkingur. Eins og í flestum glæpasögum eru lesendur hliðhollir rannsóknarlögreglumanninum, aðalpersónunni Einari, en á sama tíma tekst Árna að vekja samúð með útrásarvíkingnum Ölveri. Það þótti mér sérstaklega vel gert.  Frá upphafi var ég nefnilega undir það búin að Ölver væri illmenni, enda eru fyrsti kynni lesanda af honum í hanastélsveislu þar sem hann gengur um með hundaskít undir Gucci-skónum. Almennt sýnir verkið fram á að heimurinn er ekki svartur og hvítur.

Árni leyfir ýmsum mismunandi röddum að heyrast í rás sögunnar, röddum sem á undanförnum misserum hafa kannski ekki átt upp á pallborðið. Viðskiptafrömuðurinn Ölver hefur verið gerður að fulltrúa alls þess sem úrskeðis fór í íslensku samfélagi. Þrátt fyrir að skrifa blaðapistil, biðjast afsökunar og viðurkenna mistök sín nýtur hann lítillar samúðar í samfélaginu. Leiðin að fyrirgefningu er grýtt, hvort sem um er að ræða fyrirgefningu frá fyrrverandi eiginkonu, samstarfsfélögum eða almenningi. Það er ekki fyrr en 10 ára dóttur Ölvers er rænt og henni hótað lífláti að vart verður við snefil af vorkunn meðal samferðamanna hans. Þó dregur Albert, fyrrum viðskiptafélaginn Ölvers, ekkert úr svívirðingum í hans garð. Albert segir að Ölver sé „svíðingur og glæpamaður eins og allt þetta helvítis bófahyski“ (s. 227). Þetta sama viðhorf er enn áberandi í samfélaginu, jafnvel þegar athafnamenn hafa hlotið dóma og hafið afplánun. Engin refsing virðist fullnægja hefnigjörnum almenningi. Eiginhagsmunasemin sem útrásarvíkingar hafa hlotið harða gagnrýni fyrir kemur ekki bara fram í viðskiptagjörningum. Starfsmenn Síðdegisblaðsins eru t.a.m. engu skárri, en þeir gleðjast yfir aukinni sölu blaðsins í kjölfar mannránsins. Á sama tíma tala þeir um óhóflega sjálfhverfu athafnamanna sem gefa skít í allt og alla ef vel gengur hjá þeim sjálfum.

Morgunengill er ekki bara sakamálasaga sem gerist í kjölfar bankahruns. Árni tekst líka á við mál eins og samband foreldris og barns sem er sérstakt þema í sögunni. Einar styrkir sambandið við Gunnsu dóttur sína á meðan Guðrún Bára saknar Ölvers föður síns, sem hefur misst sjónar á því dýrmætasta sem hann raunverulega á. Þrátt fyrir að þessi feðginapör séu ólík er föðurástin óumdeilanleg. Sigurbjörg, samstarfskona Einars, og Rikki faðir hennar skapa hins vegar andstæðu við önnur feðgin í sögunni þar sem samband þeirra er lítið og stormasamt.

Sem krimmi er Morgunengill sérstaklega vel hugsuð saga og fléttan sem Árni skapar er snjöll og óvænt. Enn óvæntari eru endalokin, þegar í ljós kemur að hópur barna sem hefur smitast af reiði fullorðna fólksins, stendur fyrir mannráninu. Þetta þótti mér sérstaklega frumlegt og tel að í þessu atriði búi skilaboð til Íslendinga um að láta reiðina ekki heltaka sig. Morgunengill er nefnilega lýsing á samfélagi sem við höfum búið til sjálf og við ein höfum völd og áhrif til að breyta því. Þetta bendir Árni sjálfur á í viðtali í Morgunblaðinu en hann segir að sig hafi langað að „spegla ástandið hjá okkur eftir hrun“ og „skrifa um það sem gæti gerst“. Gagnrýnendur voru almennt ánægðir með verkið. Ingibjörg Rögnvaldsdóttir hrósaði Árna til að mynda fyrir frumlega atburðarás.  Í dómi sínum í Morgunblaðinu segir Steinþór Guðbjartsson að í sögunni felist mikilvægur boðskapur um nútímasamfélagið sem einkennist af „glötuðu sakleysi“. Þau orð eru afar lýsandi og einkennandi fyrir verkið. Gagnrýnendur erlendis hljóta að hafa verið á sama máli þar sem bókin var tilnefnd til verðlauna sem besta alþjóðlega glæpasagan á Cognac hátíðinni í Frakklandi.

Ég tel að Morgunenglar eigi ekki eftir að tapa gildi sínu sem sakamálasaga. Sú staðreynd að Árni forðast að eltast við einstaka menn eða stofnanir mun einfalda lesturinn fyrir lesendur á komandi árum. Almennar vísanir í fjárhagslegt hrun eru skýrar en hættara er að samfélagslega hrunið verði ekki alltaf jafn auðskilið þegar fram líða stundir. Burtséð frá samtali sínu við samtímann er Morgunengill afar spennandi og vel skrifuð sakamálasaga sem erfitt er að leggja frá sér.

Elín Þórsdóttir, nemandi í almennum málvísindum

Önnur umfjöllun:

Viðtöl: