Samhengi hlutanna

samhengi_hlutannaSigrún Davíðsdóttir. Samhengi hlutanna. [Akranes]: Uppheimar, 2011.

Efni: Í upphafi sögunnar kynnist lesandi Huldu, blaðakonu búsettri í London sem er (rétt eins og Sigrún Davíðsdóttir) þekkt fyrir gagnrýna útvarpspistla um íslensku útrásarvíkingana en lætur óvænt lífið í umferðarslysi haustið 2009. Æskuvinur hennar, sem er reyndur blaðamaður, og eftirlifandi unnusti taka sér fyrir að hendur að halda áfram rannsóknum Huldu og púsla saman drögum að bók sem hún var með í smíðum þegar hún lést. Þegar á verkið líður verður ljóst að rannsókn þeirra snýst ekki bara um hæpna viðskiptahætti heldur einnig blóðugan glæp.

Bakgrunnur: Hér er meðal annars fjallað um fjármálastofnanirnar HK banka, Eyjabanka og Sleipni, sem virðast vera lítt dulbúnar hliðstæður KB banka, Landsbanka og Glitnis. Þarna er líka rætt um fyrirtæki sem heita Hringur og Delilah og minna á Baug og Samson. Fleiri hliðstæður má finna. Í ritdómi um bókina á Rás 1 segir Björn Þór Vilhjálmsson „að hrunið sé tekið svo bókstaflegum tökum í verkinu að lesanda finnist á stundum sem andrúmsloft skáldleysunnar svífi yfir vötnum“. Hugtakið listræn skáldleysa hefur verið notað sem þýðing á enska hugtakinu „creative non-fiction“ en það er hugsanlega nær lagi að kalla Samhengi hlutanna lykilsögu (fr. roman à clef).

Umfjöllun: Sem spennusaga fer frásögnin fremur hægt af stað en fyrir þá sem hafa áhuga og almenna þekkingu á sviptingum í íslensku viðskiptalífi á undanförnum árum vegur á móti kitlandi forvitni um hve nærri veruleikanum höfundurinn fer í skrifum sínum. Í sjálfu sér er forvitnilegt að velta fyrir sér hvers vegna Sigrún Davíðsdóttir velur sér form skáldsögunnar til tjáningar. Hugsanlega hefur hún viljað ná í einum heildstæðum texta utan um þann flókna og viðamikla veruleika sem hún hefur verið að fjalla um í fjölmörgum stuttum fréttapistlum á undanförnum árum. Sagan er að sínu leyti metnaðarfull tilraun til að setja fjöldamörg staðreyndabrot í samhengi, eins og titillinn vitnar um. Jafnframt kann Sigrún að hafa viljað ná til þess stóra lesendahóps sem nennir kannski ekki að lesa öll níu bindi Rannsóknarskýrslu Alþingis en kann að meta spennusögur. Eins og Björn Þór Vilhjálmsson nefnir í dómi sínum á Rás 1 má finna samsvaranir milli Samhengis hlutanna og spennusagna Stiegs Larsson, en meðal þess sem hann varpar ljósi á í verkum sínum eru hvítflibbaglæpir og siðlaust samkrull pólitíkur og viðskiptalífs.

Skáldsagnaformið gefur Sigrúnu ennfremur tækifæri til að draga ákveðnar ályktanir af hruninu, segja tilteknar dæmisögur og setja fram vissar tilgátur um starfsemi íslensku bankanna sem hún getur af einni eða annarri ástæðu ekki tjáð öðruvísi. Hana kann sem blaðamaður að skorta traustar sannanir til að fullyrða um einstaka hluti, svo sem um mögulegan peningaþvott í íslensku bönkunum, en telja engu að síður brýnt að sá möguleiki sé tekinn til alvarlegrar athugunar. Þá er hugsanlegt að hún velji skáldsagnaformið til að forðast möguleg málaferli. Hér má minna á að á liðnum vetri kærði Björgólfur Thor Björgólfsson Sigrúnu fyrir siðanefnd Blaðamannafélagsins vegna umfjöllunar hennar um aflandsfélög Landsbankans. Sem skáldsagnahöfundur getur Sigrún tekið sér margháttuð skáldaleyfi (kannski er viðeigandi að tala um skáldaskjól í þessu sambandi) án þess þurfa að standa skil á texta sínum frammi fyrir dómstólum.

Síðast en ekki síst er skáldsagnaformið, ólíkt formi fræðiritgerðarinnar og fjölmiðlapistilsins, margradda; vettvangur þar sem hægt er að leiða margar og ólíkar skoðanir á tilteknu viðfangsefni fram og láta lesandanum eftir að taka endanlega afstöðu til þeirra. Ef höfundur nýtir sér ekki þetta svigrúm og lítur einungis á persónur sem búktalaradúkkur sinna eigin viðhorfa vakna upp efasemdir um val hans á skáldsagnaforminu. Sjálfum þykir mér einn af mörgum kostum við verk Sigrúnar að þar stígur fjölbreyttur hópur persóna fram og þó að unnt sé, líkt og Björn Þór gerir, að líta á þær sem „málpípur ákveðinna viðhorfa um hrunið, orsakir þess og afleiðingar“ þá er þær að mínu viti nægjanlega margar, fjölbreyttar og trúverðugar til að engin þeirra verði óvéfengjanleg málpípa höfundarins og viðhorfa hans. Lesandanum er blessunarlega treyst til að vega og meta frásagnir þeirra og komast að sínum eigin niðurstöðum um samhengi valdsins.

Jón Karl Helgason, prófessor í Íslensku- og menningardeild, september 2014

Önnur umfjöllun

Viðtöl

  • Óskar. „Sigrún Davíð skrifar krimma.“ Fréttatíminn 8. apríl 2011, s. 70.
  • „Maður minn, hvað maður var einfaldur á sálinni“ DV 25. nóvember 2011.