Bankster

Bankster_1
Guðmundur Óskarsson. Bankster. Reykjavík: Ormstunga, 2009.

Efni: Sagan segir frá eftirmálum bankahrunsins haustið 2008 út frá sjónarhorni þeirra sem tilheyrðu efri lögum samfélagsins. Aðalpersóna bókarinnar er Markús sem missir vinnuna sína hjá Landsbankanum í kjölfar hrunsins. Eftir hvatningu vinar síns ákveður Markús að skrifa dagbók til þess að vinna úr áfallinu. Bókin hefst á stuttum formála sem er samansettur úr sex símtölum Markúsar við foreldra sína dagana fyrir setningu neyðarlaganna. Dagbók Markúsar tekur svo við. Hún gefur innsýn inn í persónulega upplifun Markúsar af bankahruninu og hvernig allir þættir lífs hans taka breytingum.

Bakgrunnur: Bankster er kyrfilega bundin við hruntímabilið og á sér stað frá 2. október 2008 til sumardagsins fyrsta, 23. apríl 2009. Dagbókarfærslurnar eru dagsettar og því er auðvelt að tengja atburðina í lífi Markúsar við það sem átti sér stað í samfélaginu á þessu tímabili. Meðal annars má sjá glitta í búsáhaldabyltinguna en hún er oftast á jaðri sögunnar þar sem Markús upplifir sig ekki sem hluta af þeim hópi sem getur leyft sér að reiðast yfir hömluleysi bankamannanna. Í bókinni er lítið farið út í mögulegar ástæður hrunsins eða ákveðna tæknilega þætti í sögu þess. Áherslan er lögð á lostið sem fólk innan bankakerfisins varð fyrir og hvernig það tekst á við að endurskilgreina sjálfsmynd sína við breyttar aðstæður.

Umfjöllun: Kraftur bókarinnar stafar af sterkum tengslum hennar við samfélagið þar sem hún dregur fram nýtt sjónarhorn á eina mestu umbrotatíma Íslandssögunnar. Skiptar skoðanir eru á gæðum verksins þrátt fyrir að bókin hafi hlotið íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2009. Umfjöllun Úlfhildar Dagsdóttur um Bankster á vefnum bókmenntir.is er til að mynda ekki sérstaklega jákvæð. Úlfhildur hampar bókinni á hæðnislega hátt og segir vel hafa tekist til við að draga fram andlegan dauða aðalpersónunnar því hún hafi varla upplifað „önnur eins leiðindi“ við lestur skáldsögu. Úlfhildur virðist þó vera sammála því að Bankster sé mikilvæg þrátt fyrir leiðindin enda er titill umfjöllunarinnar „Af mikilvægi leiðinlegra bóka“.

Í Bankster má sjá hvernig bókmenntir geta birt ‚eimaða‘ mynd af ríkjandi ástandi í þjóðfélaginu. Í hugmyndaheimi aðalpersónunnar, Markúsar, má til dæmis sjá táknræna togstreitu milli ‚gamla‘ og ‚nýja‘ Íslands. Fram kemur að Markús er utan af landi og hann á í miklum samskiptum við foreldra sína sem búa enn í plássinu. Í verkinu má sjá bregða fyrir fremur einföldum táknrænum senum sem sýna mun þessara tveggja heima, til dæmis þar sem foie gras sem Markús snæddi fyrir hrun er skipt út fyrir heimagert slátur sem mamma hans sendir honum í kjölfar bankahrunsins.

Freistandi er að lesa söguna sem eins konar allegóríu þar sem Markús er í hlutverki íslensku þjóðarinnar. Sjálfsmynd hans bíður hnekki við bankahrunið og hann neyðist til að endurskilgreina sig. Markús er í stöðu ‚litla bankamannsins‘ og eiginleg sekt hans er ekki í fyrirrúmi, en samt sem áður má sjá merki undirliggjandi sektarkenndar hjá honum. Litli bankamaðurinn hefur lítið að segja um stefnumótanir þeirra sem voru í æðstu stöðum en hefur samt sem áður hag af því að þær skili gróða. Við Íslendingar gætum að einhverju leyti verið skilgreindir sem litlir bankamenn. Fréttaflutningur fjölmiðla um útrásina á árunum fyrir hrun var oftar en ekki jákvæður og gagnrýnisraddir voru fljótt kveðnar niður. Íslendingar sem heild voru þar með ómeðvitað orðnir klappstýrur bankanna. Við sem þjóð þurftum því að ganga saman í gegnum það erfiða ferli að endurskilgreina sjálfsmynd okkar eftir að stoðunum var kippt undan henni.

Sú tilfinning að búa ekki yfir skýrri sjálfsmynd, ásamt öðrum einkennum hinnar íslensku útrásarsjálfsmyndar, sést í dagbókarskrifum Markúsar. Það er ekki hrein og bein sektartilfinning sem þjakar hann heldur er það fremur tilfinningin um að hann hafi verið hafður að fífli:

„Ég vakna ekki lengur á morgnana spenntur yfir því sem er framundan, hlakka ekki lengur til að taka þátt í uppbyggingu á glæsilegu fyrirtæki heldur kvíði því að fara fram úr og sjá asnaeyrun á sjálfum mér í baðspeglinum.“ (bls. 17)

Markús óttast álit annarra og kvíðir því að þurfa að gera upp góðæristímann. Einnig má greina skömmin yfir því að hafa verið í röngu liði. Í samtali Markúsar við fyrrverandi starfsfélaga sína úr bankanum byrja þeir að líkja aðstæðum sínum við síðustu daga nasismans. Líkt og undirmenn Hitlers í kvikmyndinni Der Untergang eru íslensku bankamennirnir að upplifa hrun þeirrar hugmyndafræði sem þeir hafa tileinkað sér.

Tilfinningin um að hafa verið í röngu liði ágerist eftir því sem líður á verkið og augljóst verður að Markús er utangarðs í því andrúmslofti sem tekur við í samfélaginu eftir hrun. Honum er neitað um þátttöku í sameiginlegri útrás reiðinnar sem þjóðin losaði um í búsáhaldabyltingunni. Hans útrás er bundin við hann sjálfan þar sem hann losar ekki um reiðina sem hluti af hópi heldur sem einstaklingur. Hann missir stjórn á skapi sínu á Kaffi Mokka og ógnar karlfauskum sem tala um íslenska bankamenn sem „bankstera“. Útrás Markúsar speglar stöðu hans þar sem hann neyðist til að ráðast gegn þjóðinni því hann fær ekki að berjast með henni. Mótmælin verða þar með fjarlæg innan sögunnar þar sem Markús upplifir sig ekki sem hluta af þjóðinni, þrátt fyrir að hann hafi einnig verið leikinn grátt af breyttum ástæðum.

Þó að deilt sé um ágæti Banksters sem skáldsögu er hún heillandi aflestrar vegna mikilvægis hennar fyrir úrvinnslu hrunsins. Stíll og gæði verða að aukaatriði en samfélag okkar og sameiginlega saga fær meira vægi. Bækur á borð við Bankster eru nauðsynlegar þar sem bókmenntir geta veitt einstæða innsýn á málefni líðandi stundar.

Már Másson Maack, nemandi í bókmenntafræði

Önnur umfjöllun: