Maybe I Should Have

maybeMaybe I Should Have. Leikstjórn: Gunnar Sigurðsson. Myndataka og klipping: Herbert Sveinbjörnsson. Framleiðandi: Lilja Skaftadóttir. Reykjavík. Argout Film, 2010. 95.mín

Efni: Um er að ræða heimildamynd sem er ætluð almenningi og er tilgangur hennar að gera það auðveldara fyrir Íslendinga að skilja hvað gerðist í bankahruninu haustið 2008.  Myndin skiptist í þrjá hluta. Í þeim fyrsta er sagt frá frá seinustu dögum íslensku bankana þriggja og fram til búsáhaldabyltingarinnar og kosninganna sem urðu í kjölfarið vorið 2009. Annar hluti  fjallar um leit sögumannins, Gunnars Sigurðssonar, að peningunum sem glötuðust í hruninu en þá einblínir hann aðalega á Icesave peninga Landsbankans.  Í þriðja hluta eru niðurstöður svo dregnar saman eftir að Gunnar kemur heim til Íslands aftur.

Bakgrunnur: Heimildarmyndin er öll séð frá sjónarhorni leikstjórans, Gunnars Sigurðssonar, sem á að vera holdgervingur hins týpíska Íslendings í bankahruninu 2008. Hann segist ekki hafa verið að reyna að lifa um efni fram, tók bara þau lán sem fjármálastofnanir ráðlögðu honum að taka til þess að eiga bæði íbúð og bíl. Hann vann sína vinnu og stóð í  skilum mánaðalrega. Í október 2008 stóð Gunnar síðan frammi fyrir því að öll hans lán höfðu hækkað upp úr öllu valdi og þar með afborganir af þeim líka. Á tímabilinu 2007-2009 hækkaði bílalánið hans Gunnars t.d úr 2,1 milljón í tæpar fimm milljónir og var Gunnar þá búinn að borga 720.000 kr. af bílnum.  Í kjölfar bankahrunsins missti Gunnar svo vinnuna og gat þar af leiðandi ekki borgað af þessum himinháu lánum. Gunnar neyddist því til þess eins og svo margir aðrir Íslendingar á þessum tíma, að lýsa sig gjaldþrota.

Umfjöllun: Tilgangur heimildarmyndarinnar Maybe I Should Have er tvílþættur. Annars vegar leitast höfundur við að setja atburði hrunsins í skiljanlegt samhengi fyrir sig og almenning svo auðveldara sé að átta sig á hvað olli hruninu. Hins vegar reynir hann að komast að því hvert bankapeningarnir fóru og þá er sérstaklega verið að leita að Icesave peningunum. Til þess að fá svör við spurningum sínum ferðast Gunnar Sigurðursson vítt og breitt um heiminn, m.a. til London, Lúxemborgar, Guernsey og Tortóla. Hann talar við fjölmarga einstaklinga sem voru áberandi í samfélaginu á mánuðunum og árunum fyrir og eftir hrun. Má þar t.d nefna Björgólf Thor Björgólfsson athafnamann, Egil Helgason fjölmiðlamann, Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, og Robert Wade hagfræðing.

Almennt tekst Gunnari prýðilega að setja hlutina í samhengi og gerir það á mjög skiljanlegan hátt.  Wade segir frá því í myndinni að hann hafi oftar en einu sinni reynt að vara Íslendinga við því að ekki væri allt með felldu innan fjármálageirans á Íslandi en að viðvaranir hans og annarra hafi verið hunsaðar. Inn í þessa umfjöllun er blandað myndbrotum héðan og þaðan af atburðum sem gerðust í kringum hrunið. Ein eftirminnilegt myndbrot er úr viðtali í sjónvarpsþættinum Silfri Egils þar sem Egill Helgason spyr Jón Ásgeir hvort hann kannist við eyjuna Tortóla, en Jón Ásgeir svarar því neitandi. Átakanlegust eru viðtölin við nokkra einstaklinga á Guernsey sem settu ævisparnað sinn inn á Icesave reikninga og höfðu aðeins fengið helminginn af honum til baka þegar myndin var gerð.

Það er hins vegar ekki hægt að segja að áhorfendur fái beint svar við spurningunni um hvert peningarnir fóru. Það eina sem er á hreinu er að Björgólfur Thor Björgólfsson segist ekki, frekar en aðrir, vita hvar peningarnir eru, en hann heldur því fram í myndinni að þeir hafi dáið og farið til peningahimna. Þeir á eynni Tortóla kannast heldur ekkert við peningana. Landstjórinn þar David Peary sagði að peningana væri ekki að finna á Tortóla en hugsanlegt væri að pósthólfin fyrir þá væru þar.

Gunnar nálgast efnið sem reiður Íslendingur sem missti allt í hruninu og þess vegna er ekki hægt að segja að hann sé hlutlægur í myndinni. Gunnar heldur því heldur aldrei fram að hann ætli sér að nálgast efnið af hlutdrægni eða að hann sé einhver sérfræðingur í málefnum hrunsins. Afstaða hans er miklu frekar sú að hann viti ekki neitt en vilji fá skýringar. Það er óhætt að segja að þessi nálgun Gunnars á efninu gangi upp, hann nær góðri tengingu við áhorfendur, einmitt vegna þess að hann er bara svona venjulegur náungi eins og við hin. Gunnar er heldur ekki að gæta hagsmuna neins ákveðins hóps innan samfélagsins, nema þá kannski almennings sem hann leggur áherslu á að eigi rétt á að fá að vita hvað gerðist.

Hægt er að velta því fyrir sér hvort Gunnar hafi valið viðmælendur sína sérstaklega, til þess að fá þá mynd af íslensku samfélagi og þau svör sem koma fram í myndinni. Það er alveg ljóst frá byrjun að hann er á þeirri skoðun að hin mikla spilling sem ríkti á meðal stjórnmálamanna og útrásarvíkinga á tímabilinu fyrir hrun sé jafnframt stærsta orsök þess. Í stórum dráttum er það einnig niðurstaða myndarinnar. Jón Baldvin Hannibalsson og Egill Helgason tala t.d um að spillingin í íslensku samfélagi eigi sér djúpar rætur og eru báðir þeirrar skoðunar að hún sé ein mikilvægasta orsök hrunsins.

Vekja má athygli á því að Gunnar talar ekki við neina stjórnmálamenn sem voru í lykilstöðum í hruninu og eini útrásarvíkingurinn sem hann talar við er Björgólfur Thor Björgólfsson. Það er spurning hvort þetta sé viljandi gert eða hvort ákveðnir embættismenn og útrásarvíkingar hafi ekki gefið kost á sér í viðtal. Á heimasíðu myndarinnar kemur fram að við gerð hennar hafi verið haft samband við Davíð Oddson fyrverandi seðlabankastjóra og Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra. Hvorugur gaf kost á sér í viðtal fyrir myndina. Einnig kemur fram á heimasíðunni að ekki hefði verið haft samband við útrásarvíkingana vegna þess að Gunnar og þeir sem stóðu með honum að gerð myndarinnar fannst þeir einfaldlega vera búnir að fá að segja nóg.

Í Maybe I Should Have nálgast Gunnar bankahrunið 2008 á frumlegan og skemmtilegan hátt. Myndin er hröð og skemmtileg og heldur áhorfendum við efnið allan tímann. Það er þó ekki hægt að segja að hún sé mjög fræðileg en það var heldur ekki tilgangurinn með henni. Niðurstaðan er sú að myndin standi algjörlega undir væntingum.

Kolbrún Fjóla Rúnarsdóttir, nemandi í sagnfræði, nóvember 2014

Önnur umfjöllun: