Svörtuloft

svörtuloftArnaldur Indriðason. Svörtuloft. Reykjavík: Vaka-Helgafell, 2009.

Efni: Arnald Indriðason þarf vart að kynna til sögunnar, en hann hefur um árabil verið einn vinsælasti spennusagnahöfundur Íslands og slegið í gegn með bókum um lögreglumanninn Erlend og aðstoðarmenn hans Sigurð Óla og Elínborgu. Skáldsagan Svörtuloft er þrettánda bók Arnaldar og í þetta sinn er Erlendur fjarri góðu gamni en Sigurður Óli er aðalpersónan. Hann rannsakar morð á konu sem grunuð er um fjárkúgun, fær dularfull skilaboð frá útigangsmanni, þarf að takast á við bankamenn og handrukkara, auk þess sem hann tekst á við erfiðleika í einkalífinu.

Bakgrunnur: Ekki er vísað beint til þjóðþekktra einstaklinga sem tengjast hruninu, en höfundur lætur bankamenn hjá Landsbankanum stunda vafasöm viðskipti með gjaldeyri og koma peningum í skattaskjól, auk þess sem konan sem er myrt í upphafi bókar er með myntkörfulán og fer að beita fjárkúgun sér til framfærslu. Móðir Sigurðar Óla er eins konar rödd skynseminnar. Hún efast um hæfni útrásarvíkinganna til að stunda þau viðskipti sem þeir gera og bendir á að allt þeirra veldi byggi á útlendum lánum og varla megi einn hlekkur brotna án þess að allt fari á hausinn. Hún spáir líka alþjóðlegri efnahagskreppu og mælir með því að útrásarvíkingarnir dragi úr umsvifum sínum í stað þess að bæta stöðugt í. Í lýsingum á fólki tekur höfundur líka oft fram hvort viðkomandi skuldi eitthvað; ófáir eiga tvo bíla á lánum og jafnvel hús líka.

Umfjöllun: Svörtuloft er glæpasaga út í gegn; hún byrjar á lýsingum á vafasömu atferli og glæpsamlegum verknuðum og störf lögreglu eru uppistaðan í sögunni. Hægari kaflar eru inn á milli þar sem Sigurður Óli slappar af heima hjá sér, hittir fyrrverandi kærustu sína og foreldra og veltir hlutunum fyrir sér, en þegar komið er fram yfir miðja bók verður atburðarrásin hraðari og þéttari, jafnhliða því að Sigurði Óla verður ágengt við að leysa málið. Þrátt fyrir að Erlendur sé fjarri góðu gamni er hæfileg fílupúkastemning yfir frásögninni – Sigurði Óla finnst nefninlega jafngaman að hneykslast á samfélaginu og starfsbróður hans, hann hneykslast bara á öðrum hlutum, þar á meðal afbrotamönnum, fólki í neyslu, fólki með húðflúr og fólki sem reykir.

Frásögnin er fremur lengi í gang, eins og á oft við um bækur Arnaldar. Söguþráðurinn er að mínu mati fremur fyrirsjáanlegur, og sagan tekur aldrei neitt sem kalla mætti óvænta beygju. Það fer þó líklega eftir hversu vanur glæpasagnalesandi maður er hversu fljótt maður áttar sig á plottinu. Persónurnar hjá Arnaldi eru ágætar, engin tiltakanlega ótrúverðug og mannlýsingar eru fjölbreyttar. Gaman er að því að höfundur lýsir fólki eins og það kemur fyrir augu Sigurðar Óla, sem hefur sterkar skoðanir á samborgurum sínum . Þannig segja lýsingarnar lesanda jafnmikið um karakterinn sem kynntur er til leiks og Sigurð Óla sjálfan.  Samtölin eru líka trúverðug, lesandi rekst sjaldan á orðfæri sem hann myndi ekki kannast við úr daglegu lífi, þó að sumir orðaleikir og hugsanir Sigurðar Óla geti verið svolítið kjánaleg.

Bókin í heild er ekki slæm; hún fylgir vel formúlu glæpasögunnar en mér finnst spennuna vanta. Framvindan er fullhæg og lausn glæpsins fyrirsjáanleg. Útkoman skáldsaga sem er á köflum fremur leiðinleg aflestrar. Það skemmtilegasta við nálgun höfundar á hrunið er að Sigurður Óli er fremur hlyntur útrásinni. Það er heldur óvanalegt að sjá aðalpersónu í sögu tala vel um útrásarvíkinga án þess að hún átti sig, að minnsta kosti síðar, á villu síns vegar.

Sjöfn Hauksdóttir, nemandi í bókmenntafræði

Önnur umfjöllun: