Boðberi

boðberiBoðberi. Leikstjóri og handritshöfundur: Hjálmar Einarsson. Framleiðendur: Hákon Einarsson, Darri Ingólfsson og Hjálmar Einarsson.  Reykjavík: Hersing kvikmyndafélag og Kukl, 2010.

 Efni: Kvikmyndin Boðberi er fyrsta kvikmynd Hjálmars Einarssonar í fullri lengd. Hún var gerð án allra opinbera styrkja, tekin upp 2008 en frumsýnd sumarið 2010. Hún segir frá iðnaðarmanninum Páli Baldvin sem lifir í samfélagi sem er á hraðri niðurleið vegna kreppu og spilltra ráðamanna. Hann fer að fá draumvitranir frá englum og í kjölfarið að sjá hvar djöflar hafa tekið sér bólfestu í mönnum (eins og til dæmis seðlabankastjóra) en óljóst er á köflum hverjir eru illir og hverjir ekki. Talað er almennt um hrun samfélagsins frekar en fjárhagslegt hrun í myndinni. Eftir því sem líður á hana þróast Páll frá því að vera hefðbundinn íslensku verkamaður í það að líta á sig sem hermann Guðs.

Bakgrunnur: Vísað er í íslenska efnahagshrunið strax á fyrstu mínútum myndarinnar, með enskum skjátexta líkt og til þess að fræða erlenda áhorfendur um hvað hafi gengið hér á. Fram kemur að Ísland sé eitt af friðsælustu löndum Evrópu, að það hafi farið frá því að vera eitt fátækasta landið í eitt það ríkasta á 20. og 21 öldinni, en svo segir að haustið 2008 hafi efnhagskerfið hrunið vegna spilltra banka- og ráðamanna. Tekið er síðan sérstaklega fram: „Þessi bíómynd var kvikmynduð fyrir íslenska efnahagshrunið haustið 2008. Sagan er skáldverk sem átti síðar eftir að bergmála í íslenskum raunveruleika. Vonandi munu ekki allir spádómar sögunnar rætast.“ Vísanir í hrunið eru frekar í fyrri parti myndarinnar en trúarlegar vísanir vaxa eftir því sem á líður. Fjallað er um góðærið sem var, persónur neita að hafa tekið þátt í því en samþykkja samt orð persónunnar Adda, besta vinar Páls: „það vilja allir vera millar á Íslandi og þú líka“. Björn Bjarnason er eini raunverulegi stjórnmálamaðurinn sem bregður fyrir í myndinni, hann sést ganga út úr bíl fyrir framan Alþingishúsið. Páll situr þá þar á bekk ásamt Pavel, pólskum samstarfsfélaga sínum, og talar um spillingu og sifjaspell innan raða alþingismanna.

Umfjöllun: Boðberi er fremur óvenjuleg kvikmynd, hún minnir um margt á kvikmyndaskólamynd þar sem hún ber þess merki að vera heimagerð og handritið virðist ekki fullklárað, að minnsta kosti er mörgum spurningum ósvarað í lok myndar. Hún setur samt fram marga góða punkta, sérstaklega í fyrri hlutanum þegar skotið er á samfélagið og fjallað efnahagslegt ástand þess.

Skrítið er til þess að hugsa að myndin hafi verið gerð fyrir hrunið 2008 þar sem iðulega er vísað til efnahagslegs ástands, skulda og fyrrum góðæris. Þegar Páll er til að mynda heima hjá sér að horfa á fréttir tengjast þær ávallt seðlabankastjóra, leiknum af Magnúsi Jónssyni, sem er höfuðpaur spilltu djöflanna. Hann segir meðal annars við fréttamenn: „ef [krónan] styrkist ekki þarf að hækka stýrivexti“ og „við urðum að hækka vextina til að bregðast við aðstæðum“. Forsætisráðherra er svo spurður um orðin í kjölfarið og segist alltaf styðja aðgerðir seðlabankastjóra í öllu. Allur fréttaflutningur í myndinni virðist vera bergmál fréttatíma í kringum hrunið.

Það er ekki annað hægt en að taka undir þau orð Sæbjörns Valdimarssonar í Morgunblaðinu að það sé „dálítið snúið að skilgreina þennan kostulega einfara í íslenskri kvikmyndagerð, einna helst að stimpla hana sem kaldhæðnislega ádeilu, af þeim rótum er hún sprottin.“ Kvikmyndin er talsvert kaldhæðin og það að gefa í skyn að djöflar hafi tekið sér bólfestu í „útrásarvíkingum“ og ýmsum ráðamönnum er skoplegt. Gaman hefði verið ef handritshöfundur hefði farið meira út í þær pælingar en minna út í þær trúarlegu og heimspekilegu hugsanir sem eru í brennidepli kvikmyndarinnar. Þetta tvennt kemur þó saman í predikun persónunnar Davíðs á trúarsamkomu þar sem hann segir tvær setningar sem ætlaðar eru þeim sem leika sér að peningum: „maður kemst ekki til himnaríkis í einkaþotu“ og „maður kaupir sig ekki frá vist í vítislogum með hlutabréfum“. Þarna er komin hrein og klár ádeila á þá efnameiri, en þessi ádeila kemur einnig fram þegar Páll hlustar í heitum potti á spjall manna sem eru að velta fyrir sér húsnæðiskaupum og mælt er með að menn kaupi á meðan markaðurinn er í dýfi og selji svo með gróða nokkrum árum síðar.

 Anna Björg Auðunsdóttir, nemandi í bókmenntafræði, nóvember 2014

Önnur umfjöllun: