The End of Iceland’s Innocence

end of innoceneDaniel Chartier. The End of Iceland’s Innocence. The Image of Iceland in the Foreign Media During the Crisis. London/Reykjavík: Citizen Press, 2010.

Efni: Í bókinni er umfjöllun erlendra fjölmiðla um íslenska bankahrunið greind. Fjallað er um ímynd Íslands erlendis og hvernig hún breyttist í hruninu, með hjálp erlendra fjölmiðla. Verkið nær fyrst og fremst til ársins 2008, en lítillega er fjallað um eftirmála hrunsins og jafnframt má finna sögulegt samhengi um ímynd Íslands fyrir hrunið. Niðurstaða Chartiers er sú að ímynd Íslands, sem hafði verið svo jákvæð, hrundi eins og bankakerfið á haustmánuðum ársins 2008. Íslendingar voru niðurlægðir og auðmýktir í erlendum fréttum, til að mynda var Ísland sagt gjaldþrota (þetta var fullyrt þrátt fyrir að ríki geti ekki orðið gjaldþrota). Fréttir af Íslandi voru einnig oft fluttar í samhengi við erlenda hagsmuni. Sumir fjölluðu t.d. um Ísland sem dæmi um hvernig ekki ætti að fara að í sínu heimalandi og fréttirnar voru þá varnaðarorð um hvað gæti gerst ef heimamenn vöruðu sig ekki nægilega vel.

Bakgrunnur: Höfundurinn, Daniel Chartier, er prófessor við Quebec háskólann í Montreal í Kanada og forstöðumaður þverfræðilegrar rannsóknarstofnunar um málefni norðurslóða. Hann kom að stjórn rannsóknarverkefnisins „Ísland og ímyndir norðursins“ (Iceland and the Images of the North) og notast við starf á sviði ímyndafræða (e. imageology work) úr því verkefni. Kenningarlegur og fræðilegur grundvöllur rannsóknarinnar er ekki útskýrður í þaula. Greiningin er þverfagleg. Höfundur vísar í ákveðnar kenningar eða texta ákveðinna fræðimanna, t.d. Pierres Bourdieu, Wolfgangs Iser og Micheline Cambron, en útskýrir þetta ekki fyrir lesendum (bls. 17) og neðanmáls er vísað í heimildir þar sem kenningar, hugtök eða hugmyndir þessarra aðila eru sett fram. Lesandanum er þannig hlíft við háfræðilegri umræðu um kenningar og hugtök og er það sett í hendur lesandans að kynna sér kenningarlegan grundvöll verksins frekar. Af þessu má sjá að bókinni er ekki ætlað að ná einungis til fræðimanna með sérfræðiþekkingu heldur einnig til almennings sem hefur áhuga á ímyndarsköpun, umfjöllun fjölmiðla og/eða íslenska bankahruninu.

Mat:  Ætlun höfundar er ekki að greina hrunið sjálft heldur að meta, á eins hlutlægan hátt og mögulegt er, erlenda fjölmiðlaumfjöllun um hrunið. Ætlunin er heldur ekki að dæma sannsögli umfjöllunarinnar. Þessi umfjöllun gæti hafa mótað ímynd Íslands fyrir milljónir manna ytra þrátt fyrir að Íslendingi gæti þótt hún hreinlega ósönn á stundum. Bókinni er skipt í fimm hluta, og mismargir kaflar eru í hverjum hluta.

Fyrsti hluti er inngangskafli. Þar er gefið yfirlit yfir efni bókarinnar og forsendur rannsóknarinnar útskýrðar, aðferðafræði og fræðilegur grundvöllur auk þess sem settir eru ákveðnir fyrirvarar og varnaglar. Annar hlutinn fjallar um hvernig ímynd Íslands breyttist í hruninu. Fyrst er greint frá ímynd Íslands eins og hún var fyrir hrun. Sú ímynd var mjög jákvæð, um fallegt og hreint land þar sem ríkti jafnrétti og lítil misskipting auðs. Skörp skil urðu við bankahrunið og var hamfaramyndmál t.d. mikið notað í erlendum blöðum. Í þriðja hlutanum er fjallað um samspil íslenskra áhrifavalda og erlendra fjölmiðla í aðdraganda hrunsins og í hruninu sjálfu. Greint er hvernig erlend blöð sögðu fréttir af íslenskum atburðum og hvernig þessi fréttaflutningur hafði áhrif á ímynd Íslands erlendis. Í fjórða hlutanum skoðar Chartier sérstaklega samskipti Íslands við útlönd og erlenda umfjöllun um þau. Má þar nefna samskipti við Norðurlöndin, mögulegt lán frá Rússum, deilu íslenska ríkisins við það breska vegna beitingar hryðjuverkalaga og Icesave og íslenska umræðu um Evrópusambandið. Fimmti hlutinn er nokkurs konar niðurstöðukafli. Þar er fjallað um hvernig Íslendingar brugðust við í kjölfar hrunsins, mótmæli, ákveðna vakningu þjóðernishneigðar og það hvernig Íslendingum fannst þeir auðmýktir og niðurlægðir. Ímynd Íslands var í molum, stjórnvöld þurftu að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Íslendingar hófu að endurskoða sjálfsmynd sína.

Allt það efni og þau þemu sem hér hafa verið nefnd eru greind út frá því hvernig um var rætt í erlendum blöðum og út frá hugmyndum um ímyndarsköpun. Þetta eru þau mál sem erlendir fjölmiðlar fjölluðu helst um. Í bókinni er góð heimildaskrá og gott efnisyfirlit en í henni er ekki að finna nafnaskrá. Einnig er tímalína aftast í ritinu. Hún er tvískipt. Í fyrri hlutanum eru taldir upp grundvallaratburðir í sögu Íslands, frá landnámi, einkum þó í samhengi við hrunið, þá helst um stjórnmál og efnahagsmál. Seinni hlutinn er síðan tímalína hrunsins, frá janúar 2008 til janúar 2010, þar sem talin er upp meginumfjöllun erlendra fjölmiðla. Engar aðrar skrár eru í ritinu, en ég tel þeirra ekki þörf. Góðar neðanmálsvísanir eru í bókinni. Þetta er allt fagmannlega sett upp.

Mér finnst bókin góð. Hún er hæfilega fræðileg og tiltölulega auðveld aflestrar. Efni hennar er nokkuð afmarkað, viðfangsefnið er greining á erlendum fréttum. Efnið er ekki saga hrunsins þannig að höfundur sleppur kannski við gagnrýni á þann þátt. Erlendi fréttaflutningurinn er hins vegar af íslenskum raunveruleika þannig að óhjákvæmilegt er fyrir höfundinn að setja viðfangsefnið í samhengi við íslenskan veruleika, a.m.k. að einhverju leyti. Mér finnst sumt sem hann fullyrðir um íslenskan raunveruleika eða áhrif fréttaflutningsins á almenning ekki nægilega rökstutt, t.d. hversu grænt Ísland er álitið og þegar fjallað er um íslensku bókmenntahefðina. Að auki nefnir Chartier rangar fullyrðingar erlendra fjölmiðla um skort á nauðsynjavörum og gífurlegan fólksflótta sem hefði án efa haft áhrif á almenning á Íslandi og stuðlað að krísu innanlands (s. 30) án þess þó að rökstyðja fullyrðingu sína um áhrif umfjöllunarinnar nægilega. Að því sögðu ber að hafa í huga að bókinni er ekki ætlað vera heimild um sögu bankahrunsins. Hér er á ferð frábær heimild um fréttaflutning og ímynd Íslands í erlendum fréttamiðlum en leita verður annað til að finna heimildir um atburðina sem fréttirnar snúast um.

Mín helsta gagnrýni er sú að mér finnst vanta niðurstöðukafla þar sem efni verksins og helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru dregnar saman. Greiningin er vönduð en hún er mjög víðfeðm. Blaðaumfjöllunin er greind út frá fjöldamörgum sjónarhornum og fjallað er um margvísleg efni og þemu. Að mínu mati hefði verið gagnlegt að helstu niðurstöður greiningarinnar væru dregnar betur saman í lokakafla bókarinnar. Þó er helsta niðurstaðan nokkuð augljós: Ísland fór úr því að vera ríkt fyrirmyndarríki í gjaldþrota og niðurlægt ríki í augum erlendra fjölmiðla.

Viðar Snær Garðarsson, nemandi í sagnfræði (nóvember 2014)

Önnur umfjöllun: