Nýja Ísland

NyjaIslandGuðmundur Magnússon. Nýja Ísland – listin að týna sjálfum sér. Reykjavík: JPV, 2008.

Efni: Nýja Ísland eftir Guðmund Magnússon snýst í hnotskurn um þær breytingar sem hafa orðið á íslensku samfélagi á síðustu 40-50 árum. Guðmundur færir rök fyrir því að hugmyndir Íslendinga um jöfnuð, samkennd og bræðralag hafi vikið fyrir hugmyndum um græðgi, peninga og einstaklingshyggju. Íslenskt samfélag fór að mati Guðmundar úr því að vera jafnaðarþjóðfélag yfir í að vera ójafnaðarþjóðfélag. Árin 1990‒2007 eru tekin sérstaklega til skoðunar í bókinni en á þeim tíma var einkavæðingin í fullum gangi, Ísland opnaðist upp á gátt með EES-samningnum og íslenska útrásin hófst með tilheyrandi lífstílsbreytingum og sýndarmennsku.

Bakgrunnur:  Guðmundur Magnússon er sagnfræðingur og blaðamaður í grunninn en hefur þó fengist við önnur störf líka. Hann var til dæmis aðstoðarmaður ráðherra og þjóðminjavörður. Hann hefur víðtæka þekkingu á efninu bæði vegna menntunar sinnar og þátttöku á sviði stjórnmálanna. Hann hefur tengsl við Sjálfstæðisflokkinn og var um tíma ritsjóri Frelsisins, tímarits sem Félag frjálshyggjumanna gaf út á níunda áratug síðustu aldar. Hann var einnig aðstoðarmaður Birgis Ísleifs Gunnarssonar menntamálaráðherra árin 1987-88. Guðmundur styðst aðallega við íslenska fréttamiðla sem heimildir og þá sér í lagi prent- og vefmiðla. Tilvísunarskrá er í lok bókar. Verk Guðmundar gerir ekki kröfu um sérstaka menntun eða þekkingu og getur hver sem er lesið það og skilið. Textinn er sem sagt á mannamáli, ef svo má að orði komast. Meðal annarra verka eftir Guðmund eru bækurnar Leiðtogafundurinn í Reykjavík, Eimskip frá upphafi til nútíma, saga Eimskipafélags Íslands; Frá kreppu til þjóðsáttar: saga Vinnuveitendasambands Íslands 1934-1999 og Thorsararnir – auður, völd og áhrif.

Mat:  Verkið fjallar í megindráttum um þær breytingar sem hafa orðið á íslensku samfélagi á síðustu 50-70 árum. Sögusviðið teygir sig þó lengra eða yfir alla síðustu öld og fram til ársins 2008. Verkið er í raun söguskoðun með augum höfundarins. Hann skiptir verkinu í níu kafla. Guðmundur virðist vera haldinn ákveðinni fortíðarþrá. Í fyrstu köflum bókarinnar dregur hann upp fallega mynd af því jafnaðarsamfélagi sem einu sinni var að finna hér á landi og þeim náungakærleik sem fylgdi með. Fyrsti kaflinn ber heitið „Lánsama eyland“ og tekur höfundur upp þráðinn á sjötta áratug síðustu aldar. Samfélagið einkenndist að hans mati af litlum stéttamun og nánum samskiptum. Hann saknar stéttlausa jafnaðarþjóðfélagsins sem einkenndi Ísland einu sinni. Þjóðfélagsins þar sem lítill munur var á launum forstjórans og almenna starfsmannsins. Þjóðfélagsins þar sem forstjórinn og almenni starfsmaðurinn þekktust persónulega og sá fyrrnefndi sýndi þeim síðari virðingu og umhyggju innan og utan vinnu. Þegar líður á bókina fer höfundur, nokkurn veginn í tímaröð, yfir merkilega atburði í sögu Íslands og hvernig þeir breyttu smám saman hugarfari landans í átt að einstaklingshyggju og græðgi. Breytingin var sú að fleiri urðu ríkir og þeir ríku urðu miklu ríkari en áður þekktist. Bera fór á öfgakenndum lífstíl þeirra í þjóðfélaginu. Ríka fólkið var eftirlæti bankanna, fór í laxveiðiferðir, dýrar veislur og matarboð. Bilið breikkaði og tenging þeirra ríku við fátæka og venjulega fólkið varð veikari.

Höfundur leggur upp með að gera lesenda grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa á íslensku samfélagi á síðustu 50-70 árum. Honum tekst ágætlega til og er verkið heilt yfir gott. Undirritaður varð ekki var við neinar áberandi staðreyndavillur en það skal þó tekið fram að honum gæti hafa yfirsést eitthvað smávægilegt af því tagi. Guðmundur virðist þekkja þá sögu sem hann er að segja mjög vel. Það getur hann líklega þakkað bæði menntun sinni og störfum yfir ævina. Við lestur verksins fékk maður á tilfinninguna að höfundur væri frekar hlutdrægur. Hann virðist sakna tímans þegar Ísland var land jöfnuðar og bræðralags og vera illa við þá græðgi og ójöfnuð sem einkennir landið í dag. Þessi fortíðarþrá Guðmundar er forvitnileg fyrir margar sakir. Til dæmis vegna þess að höfundur var ritstjóri Frelsisins og tengdur Sjálfstæðisflokknum, flokki sem þekktur hefur verið í gegnum tíðina fyrir áherslu sína á ágæti einkaframtaksins og mikilvægi einstaklingsfrelsis. Við lestur verksins er þó ekki hægt að sjá að höfundur tali máli hægri afla og þeirra gilda sem gjarnan hafa verið tengd við þau. Málflutningur er skýr og rökréttur. Verkið Nýja Ísland er mjög þægilegt aflestrar, kaflaskipting er góð og málfar í fínu lagi. Sem dæmi um þetta getum við gripið niður í kaflanum „Bilið breikkar“. Þar sjáum við hvernig Guðmundur upplifir hið nýja Ísland. Hann segir: „Stundum er sagt að svo mikill munur sé orðinn á lífskjörum fólks hér á landi að tala megi um að þrjár þjóðir búi í landinu: fátækt fólk, millistétt, sem allur þorri landsmanna telst til, og auðstéttin nýja, kannski eitt til tvö prósent af þjóðinni, sem þjóðfélagsbreytingin frá miðjum tíunda áratugnum hefur skapað“. Þessi setning dregur ágætlega saman efni bókarinnar.

Þórður Jóhannsson, BA-nemi í stjórnmálafræði

Önnur umfjöllun: