Stoðir FL bresta

stodir FLÓli Björn Kárason. Stoðir FL bresta. Reykjavík: Bókafélagið Ugla, 2008.

Efni: Stoðir FL bresta var ein af fyrstu „hrunbókunum“, hún kom út aðeins fáeinum mánuðum eftir að fjárfestingarfélagið FL Group (eða Stoðir) fór í greiðslustöðvun, 29. september 2008, sama dag og tilkynnt var um þjóðnýtingu Glitnis. Í bókinni segir Óli Björn Kárason frá ævintýralegu risi og falli FL Group. Sagan nær frá Flugleiðum, forvera fyrirtækisins, og til þeirrar stundar er það stendur á heljarþröm eftir fall Glitnis. Þótt saga FL Group teygi sig aðeins yfir hálft fjórða ár er hún engu að síður stórmerkileg dæmisaga um hinn mikla vöxt fjármálageirans á árunum fyrir hrun þar sem helstu þátttakendur útrásarinnar fengu drauma sína uppfyllta í gegnum óheft aðgengi að lánsfé frá bönkum og fjárfestum. Á endanum snerust draumar upp í martraðir.

Bakgrunnur: Höfundur bókarinnar Stoðir FL Bresta, Óli Björn Kárason, er einn reynslumesti viðskiptablaðamaður landsins, hann var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins um nokkurt skeið, og er þaulkunnugur íslensku viðskiptalífi. Bókin átti að vera sú fyrsta í röð rita um íslenskt viðskiptalíf og athafnamenn en ekkert hefur bólað á fleiri ritum.

Umfjöllun: Stoðir FL Bresta er yfirlitsrit fremur en hefðbundið rannsóknarrit. Hvorki er vísað í neðanmálsgreinar né heimildaskrá þótt oft sé vísað til heimilda í texta. Nafna- og tímaskrá fylgir. Efnið sækir höfundur að stærstum hluta í dagblöð, aðra fjölmiðla, ársreikninga og árshlutareikninga, fréttatilkynningar frá FL Group og efni frá greiningardeildum banka. Margt hefur síðar komið fram sem varpar ljósi á starfsemi FL Group og athafnir helstu stjórnenda þess en sökum nálægðar í tíma náðu þau gögn ekki inn í bókina. „Saga FL Group er langt frá því að vera rituð að fullu. Veigamiklar upplýsingar liggja ekki fyrir en eiga eftir að líta dagsins ljós. Þáttur einstakra leikenda verður þá skýrari og andrúmið sem einkenndi allt starf innan veggja fyrirtækisins verður skiljanlegra,“ segir Óli Björn í eftirmála (s. 111).

Án einkavæðingar ríkisbankanna á árunum 2002-2003 er ólíklegt að FL Group hefði orðið að einu stærsta fjárfestingarfélagi á Norðurlöndum með markaðsvirði yfir 200 milljarða króna í árslok 2006. Kaup Björgólfsfeðga á Landsbankanum áttu þátt í því að leysa úr læðingi mikla krafta í viðskiptalífinu þar sem skorið var á gömul eignatengsl og krafa gerð um aukna arðsemi fyrirtækja. Breytingar gerðu út við „Kolkrabbann“ sem leiðandi valdablokk í íslensku samfélagi en eitt af mikilvægustu fyrirtækjunum innan þeirrar valdablokkar voru Flugleiðir sem enduðu í höndum Straums fjárfestingarfélags. Þaðan komst yfir 30% hlutur í hendur Hannesar Smárasonar og þáverandi tengdaföður hans, Jón Helga Guðmundsson í BYKO. „Það er mikil ábyrgð fólgin í því að taka að sér eignarhald á svo stórum hlut í Flugleiðum. Þeir Jón Helgi Guðmundsson og Hannes Smárason og fjölskyldur þeirra hafa sýnt að þeir eru til þess fallnir að standa undir slíkri ábyrgð,“ sagði í ritstjórnargrein Morgunblaðsins um þetta leyti. Hannes tók síðar við stýrinu þegar leiðir þeirra skildu. Á þessum tíma lágu sóknarfæri Flugleiða í áætlunarflugi fremur en ferðaþjónustu (s. 23).

Rekstur Flugleiða tók algjörum stakkaskiptum snemma á árinu 2005 þegar fjárfestingararmur félagsins varð að móðurfélagi en sjálft rekstrarfélagið var gert að dótturfélagi. Undirstaða í þessum breytingum var hið sterka sjóðstreymi, sem oftast hafði einkennt rekstur Flugleiða og síðar Icelandair Group . Óli Björn heldur því fram að þessi breyting hafi verið feigðarflan og öll saga FL hafi einkennst af „stefnu og ístöðuleysi“ – stöðugum nafnabreytingum og sundurlausri fjárfestingarstefnu (s. 111).

Sumar fjárfestingar FL Group heppnuðust reyndar vel, eins og fjárfestingin á 16% hlut í breska lággjaldaflugfélaginu EasyJet á árunum 2004-2005. Líklega tókst skráning Icelandair Group á hlutabréfamarkað síðla árs 2006 ágætlega frá sjónarhóli seljanda. Með sölunni á Icelandair losaði FL um 26 ma. kr. í söluhagnað og varð hreint fjárfestingarfélag án tengsla við rekstrarfélög en Óli Björn bendir réttilega á að þar með hafi mjólkurkýrin verið seld (s. 75-76). Gott aðgengi að bönkum, skuldabréfa- og hlutabréfamarkaði auk mikils söluhagnaðar af EasyJet og Icelandair Group gaf FL Group færi á að hlaða í fallbyssur fyrir gríðarlegan vöxt. En jafnframt markaði það upphafið að falli félagsins. Frá því seint á árinu 2006 er hægt að segja að nær allar fjárfestingar FL Group hafi misheppnast og sumar illa. Þar ber að nefna Commerzbank, American Airlines, Royal Unibrew, Aktiv Capital, Finnair og auðvitað kjölfestuhlut FL Group í Glitni sem var langstærsta eignin.

Það er þó einfalt af hálfu Óla Björns að horfa á sögu FL Group sem einstakt tilvik, það er fjárfestingarfélag sem stundaði sundurlausa fjárfestingarstefnu sem einkenndist af „hringlandahætti“(s. 111). Saga FL Group er ekkert einsdæmi fyrir árin fyrir hrun en hvarvetna urðu til fjárfestingarfélög, framtakssjóðir og vogunarsjóðir sem þrifust á ódýru lánsfé sem streymdi eins og kranavatn um alla fjármálamarkaði. Samrunar og skuldsettar yfirtökur voru daglegt brauð á fjármálamörkuðum og var litla Ísland engin undantekning í þeim efnum. Hraður vöxtur bankanna og innlends hlutabréfamarkaðar skóp fyrirbæri eins og FL Group, Exista, Milestone og fleiri fjárfestingarfélög.

Eins er áhugavert að velta upp þeirri spurningu hvort FL Group hafi ekki einnig verið fórnarlamb sífellt versnandi markaðsaðstæðna og slæmra tímasetninga. FL lagði einkum áherslu á fjárfestingar í fjármálafyrirtækjum og flugfélögum, og var virkur fjárfestir á markaði. Undirmálslánakrísan bandaríska hófst snemma árs 2007 og leiddi til sífellt versnandi aðstæðna á lánsfjármörkuðum. Hafði þessi þróun slæm áhrif á verðþróun banka og annarra fjármálafyrirtækja. Þá tók olíuverð að hækka samhliða þrengingum á fjármálamörkuðum sem hafði verulega neikvæð áhrif á verðmæti flugfélaga (sjá: Ármann Þorvaldsson: Ævintýraeyjan, s. 198-199). Þó er ekki laust við að fjárfestingar FL Group í flugfélögum á borð við Finnair, AMR og Commerzbank hafi einkennst af ofmetnaði þar sem smávaxið íslenskt fjárfestingarfélag ætlaði að gera sig gildandi innan alþjóðlegra stórfyrirtækja. Hvað höfðu stjórnendur FL Group fram að færa þar?

Það veikir verkið óneitanlega að höfundur hafi forðast ræða við helstu stjórnendur FL Group. „Ég tók þá ákvörðun, með réttu eða röngu, að ræða ekki við helstu leikendur í FL ævintýrinu. Það eru bæði kostir og gallar sem fylgja slíkri aðferð. Blaðamenn gæfu ekki leyft sér slíkt enda skylda þeirra að draga fram ólík viðhorf og skoðanir“ (s. 8). Kannski taldi Óli að forvígismenn FL Group væru ófáanlegir að tjá sig um fall félagsins. Á það má benda að forvígismenn FL hafa ekki komið opinberlega fram og hrakið efni bókarinnar.

Textinn er knappur og beittur enda verður seint sagt að höfundur sé hræddur við að flíka skoðunum sínum. Það er óhætt að segja að helstu stjórnendur og hugmyndafræðingar FL Group ævintýrisins fái hressilega á baukinn en saga þessi „ … er dapurlegur vitnisburður um framgöngu íslenskra viðskiptajöfra á undanförnum árum“(s. 112). Fleiri fá sína sneið frá höfundi, þar má nefna sinnulausa hluthafa, dómgreindarlausa hlutabréfagreinendur og veika fjölmiða. Fjármálaeftirlitið er gagnrýnt fyrir að hafa látið viðgangast að fjárhagslega veikum hluthafa hefði verið heimilt að gerast kjölfestuhluthafi eins af stærstu bönkunum (s. 113).

Þótt Stoðir FL Group bresta sé að miklu leyti yfirlitsrit og bent hafi verið á þann ókost að höfundur hafi tekið þá afstöðu að ræða ekki við stjórnendur FL Group koma áhugaverðar upplýsingar fram. Ein sú forvitnilegasta er hvernig staðið var að yfirtöku FL Group á Tryggingamiðstöðinni haustið 2007. Þar virðist sem Glitnir banki, sem var að stórum hluta í eigu FL Group og tengdra fjárfesta, hafi verið notaður í þeim tilgangi að tryggja FL Group yfirráð yfir TM. Glitnir veitti seljendum tæplega 47% hlutafjár í TM með sölurétti á hlutabréfum í Glitni og FL Group sem þeir fengu í skiptum fyrir bréf í TM. Þessar sölutryggingar áttu eftir að kosta bankann nokkra milljarða króna. Óli Björn bregður ágætu ljósi á hvernig hagsmunir stærstu eigenda Glitnis og FL Group voru jafnan samofnir. Hann bendir líka á að Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs Group (sem var stærsti hluthafinn í FL Group á þessum tíma), hafi í raun og veru leitt viðræður fyrir hönd kaupenda og jafnframt bankann. Hann var því nokkurs konar skuggastjórnandi Glitnis (s. 51-53).    

Það er þó ekki ævintýralegur uppgangur og röð slæmra fjárfestingarákvarðana sem standa helst upp úr þegar saga FL Group er gerð upp. Stóra spurningin er sú hvort FL Group hafi verið almenningshlutafélag eða einfaldlega peningabaukur stærstu hluthafa og helstu stjórnenda. Stjórnarhættir FL Group voru bágbornir og gerir bókarhöfundur því ágæt skil. Mikil uppákoma varð um mitt ár 2005 þegar helmingur stjórnarmanna gekk út til að mótmæla stjórnarháttum stjórnarformannsins Hannesar Smárasonar. Síðar kom í ljós að Hannes hafði millifært í heimildaleysi tæpa þrjá milljarða króna inn á reikning Fons til þess að fjármagna kaup þess félags á Sterling Airlines, viðskiptahringekju sem skilaði FL Group miklu tapi á endanum. Þegar þetta er ritað bíður það mál niðurstöðu dómstóla og mögulega fleiri mál.

Þegar tók að halla undan fæti kom í ljós að rekstrarkostnaður félagsins hækkaði ævintýralega mikið á síðustu mánuðum ársins 2007 og nam rúmum einum milljarði króna á mánuði á síðasta ársfjórðungnum samanborið við rúman hálfan milljarð króna á mánuði á fyrstu níu mánuðum ársins. Sokkinn kostnaður vegna yfirtökutilboðs í leikjafyrirtækið Inspired Gaming nam einn og sér 800 milljónum króna og hefur engin skýring fengist á því hvernig hann skiptist (s. 86).

Örlög FL Group og Stoða voru ömurleg og er það meginniðurstaða höfundar. Hluthafar töpuðu miklum fjárhæðum, eða jafnvel öllu sínu. Kröfuhafar komu þó sennilega betur út en í tilviki annarra fjárfestingarfélaga, enda var ákveðið að vinda ofan af félaginu með stórfelldri eignasölu frá seinni hluta árs 2007 fram á árið 2008 og með því að taka yfir hlutabréf skuldsettra eigenda (s. 93). Tangarhald helstu lánardrottna, einkum Kaupþings, á FL Group var mikið og því var félagið neytt til eignasölu til að forða kröfuhöfum frá frekara tapi.

 Eggert Þór Aðalsteinsson, nemandi í sagnfræði, nóvember 2014

Önnur umfjöllun: