LÖG & DÓMAR

Í samantekt þeirri sem hér fylgir eru birtar tilvísanir til heimilda sem beint eða óbeint tengjast fræðasviði lögfræðinnar, lagasetningu eða dómaframkvæmd sem fjalla um aðdraganda og afleiðingar bankahrunsins árið 2008 og efnahagskreppunnar sem fylgdi í kjölfarið.

Birtar eru tilvísanir til bæði innlendra og erlendra gagna, með megináherslu á íslenskar heimildir. Heimildum þessum er skipt upp í flokka sem tilgreindir eru hér að neðan og með því að smella á heiti hvers flokks opnast síða þar sem tilvísanirnar er að finna. Leitast er við að setja inn tengingar þar sem lesandinn fær beinan aðgang inn á viðkomandi heimild. Þetta á við um alla dóma, lagasetningu og helstu skýrslur en misjafnt er hvort aðgangur er opinn að þeim fræðilegu heimildum sem taldar eru upp.

Tekið skal fram að ekki er um tæmandi talningu eða umfjöllun að ræða um lögfræðilegar heimildir sem tengjast þessu umfangsmikla sviði og stefnt er að því að bæta við og uppfæra heimildirnar með tímanum. Fyrsta birting þessarar samantektar miðast við réttarástandið 1. júní 2017.

Gagnaöflun annaðist Andrés Fjeldsted, meistaranemi í lögfræði, undir handleiðslu Bjargar Thorarensen, prófessors við Lagadeild Háskóla Íslands. Allar ábendingar um heimildir sem eiga erindi inn á síðuna eða aðrar gagnlegar athugasemdir eru vel þegnar en senda má tölvupóst á netfangið bjorgtho@hi.is eða andres.fjeld@gmail.com.