Vonarstræti

vonarstraetiVonarstræti. Leikstjóri: Baldvin Z. Handrit: Baldvin Z og Birgir Örn Steinarsson. Framleiðendur: Ingvar Þórðarson og Júlíus Kemp. Reykjavík: 2014.

Efni: Kvikmyndin Vonarstræti er þriðja mynd leikstjórans Baldvins Z. Hún segir sögu þriggja persóna hverra leiðir liggja saman með ólíkum hætti. Áhorfendur kynnast ungu einstæðu móðurinni Eik sem vinnur á leikskóla og stundar vændi til að framfleyta sér og dóttur sinni, ógæfumanninum og skáldinu Móra sem burðast með erfiða fortíð og fyrrum fótboltastjörnunni Sölva sem er í upphafi myndar að hefja störf í banka í uppgangi. Hann færist þar hratt upp metorðastigann en þarf að taka vafasöm spor til þess. Myndin hlaut mikið lof gagnrýnenda og vann til 14 Edduverðlauna, flestra sem hafa verið veitt einni og sömu kvikmyndinni.

Bakgrunnur: Sölvi er bankamaður og áhorfendur fá nokkra innsýn í það starf hans. Sölvi kemst fljótt til metorða og fer að lifa og hrærast í heimi ríkra Íslendinga. Bankinn flýgur til að mynda völdum starfsmönnum út til Flórída þar sem þeir svalla og skemmta sér, meðal annars á snekkjunni Víkingnum, sem ber áþekkt nafn og snekkja Jóns Ásgeirs Jóhannessonar athafnamanns. Gefið er í skyn að athafnamenn eyði peningum sem þeir eigi ekki í alls konar vitleysu og vafasöm viðskipti meðan hinn venjulegi borgari getur ekki séð fyrir sér og sínum nema með ólöglegu athæfi. Dæmi um fyrringuna gagnvart peningum má sjá í tilraunum bankamanna til að kaupa húsið af Móra, en þeir hyggjast ljúka samningum sama hvað það kostar.

Umfjöllun: Myndin er vel gerð og áhrifarík og svíkur engan, án þess þó að koma sláandi mikið á óvart. Þetta er fyrsta íslenska skáldaða bíómyndin sem fjallar um útrásina og hrunið á líkan hátt og  gert hafði verið í allmörgum skáldsögum. Frásögninni er skipt upp í þrjár sögur þar sem þrjár persónur eru í brennidepli, ein í hverri sögu, en leiðir þeirra allra eiga þó eftir að liggja saman. Ein sagan er um Eik, unga einstæða móður af velstæðu fólki komin en býr þó í fátækt og vinnur sem leikskólakennari. Eik er í skuld við bankann og stundar vændi á kvöldin til að láta enda ná saman. Hún kynnist Móra, skáldi og bóhem, kvöld eitt og á milli þeirra skapast óvenjuleg vinátta. Móri er einmitt í miðpunkti annarar sögu myndarinnar, en áhorfandi fylgist með hans daglega lífi auk þess sem smátt og smátt flettist ofan af sorglegri fortíð hans. Móri býr í gömlu húsi við Vonarstræti sem bankinn vill kaupa og rífa. Það fellur í hlut þriðju aðalpersónu myndarinnar, bankamannsins Sölva, að reyna að sannfæra Móra um að selja bankanum húsið sitt. Sölvi þessi á einnig dótturina Maísól sem er í dagvistun á leikskólanum þar sem Eik vinnur. Leiðir Eikar og Sölva liggja einnig saman í svallferð bankans til Flórída, þar sem Eik er ráðin til að skemmta karlpeningnum. Eik þekkir Sölva af leikskólanum en hann ekki hana, og eyða þau nótt saman þrátt fyrir að Sölvi sé giftur.

Persóna Móra, sem leikinn er glæsilega af Þorsteini Bachman, brýtur skemmtilega – og um leið átakanlega – upp frásögn sem hefði án hans verið fullmikil og innantóm ádeila á bankana. Frásögnin af Sölva er saga sem maður hefur heyrt margoft áður – þar er í brennidepli spilling ungs manns og valdagræðgi og samband hans við konu sem á erfitt uppdráttar. En samband Móra og Eikar gefur myndinni mannlegan tón og dregur hana um leið frá því að vera bara klisjukennd ádeila ádeilunnar vegna. Sökum uppbyggingar myndarinnar munu vanir áhorfendur kvikmynda eflaust bíða eftir afhjúpun tengslanna á milli aðalpersónanna þriggja (að Móri væri jafnvel faðir Sölva eða Eikar). En engin slík afhjúpun kemur í lokin. Það gerir myndina svolítið raunverulegri og óvenjulegri. Þegar upp er staðið fjallar myndin meira um breyskleika og átök manneskjunnar en um útrásina og misskiptingu auðs og valda. Þessi atriði eru fremur í bakgrunni, en þau veita henni dýpt og um leið lengra líf en ella.

Sjöfn Hauksdóttir, nemandi í bókmenntafræði, nóvember 2014

Önnur umfjöllun: