Guð blessi Ísland. Leikstjórn: Helgi Felixson. Handrit: Titti Johnson og Helgi Felixson. Framleiðendur: Titti Johnson, Helgi Felixson, Heino Deckert, Eva Rink. Reykjavík: Íris Film, Felix Film, 2009.
Efni: Heimildamynd Helga Felixsonar, Guð blessi Ísland, snýst um afleiðingar bankahrunsins fyrir venjulegt fólk á Íslandi en varpar einnig ljósi á sjónarmið áhrifamanna, eins og segir í kynningartexta hennar: „Við kynnumst lögreglumanni, vörubílstjóra og einstæðri móður og við sjáum nýjar hliðar á Björgúlfi Thor, Bjarna Ármannsyni, Jóni Ásgeiri og Geir H. Haarde.“ Dæmi um dóma sem myndin fékk voru: „áhugaverð og skemmtileg“ (Dr Gunni í Morgunblaðinu) og „tímamótamynd“ (Erpur Eyvindarson tónlistarmaður í DV).
Bakgrunnur: Helgi er búsettur í Svíðjóð og hefur þar starfað að kvikmyndagerð. Hann var staddur á Íslandi 6. október 2008 þegar Geir H. Haarde hélt sína frægu ræðu rétt fyrir setningu neyðarlaganna og bað guð að blessa Ísland.
Umfjöllun: Myndin hefst á viðtali við Geir H. Haarde. Engu er líkara en hann geri sér ekki grein fyrir því að verið sé að taka upp og í kjölfarið kemur ávarpið fræga; „Guð blessi Ísland“. Á meðan eru sýnd andlit á örvinglaðs fólks á Austurvelli. Tekin eru viðtöl við sjómenn sem eru þarna greinilega í hlutverki hinna eldri og vitrari spekinga sem geyma öll „gömlu, góðu gildin“ sem fólki átti að vera farið vanta. Þeir minnast á Davíð Oddsson og að „þessir menn“ eigi að koma fram við menn eins og fólk, þyrftu fleiri að vera eins og Sæmi rokk, ekki með þennan hroka og yfirgang. Í kjölfarið fylgja fleiri viðtöl. Vert er að víkja að hverju þeirra sérstaklega.
Vörubílstjórinn: Viðtalið við Sturlu Jónsson, vörubílstjóra virðist allt vera tekið á þann veg að híbýli hans og allt innbú eru sýnd í mynd; fínt stórt einbýlishús ofl. og allt á lánum. Hann segir þau hjónin hafa keypt það fokhelt 1996: „Við lögðum rosalega mikla vinnu í það í tíu til ellefu ár“. Hann segist hafa komið á hverjum degi fyrstu níu mánuðina til að vinna í húsinu. Hann segir að þau hjónin hafi bæði átt blokkaríbúð áður, en fáum ekki að vita hversu mikið þau áttu í hreinni eign. Sturla virkar sem óraunsær draumóramaður sem krefst allra þæginda eða að minnsta kosti þeirra sömu og hátt launaðir einstaklingar. Hann síendurtekur út alla myndina að hann ætli að flytja til Flórída og „bara að yfirgefa þetta pleis“ og „bara að láta aðra sjá um uppvaskið“. Eiginkona Sturlu er hundasnyrtir, hún sér ekki fram á að mikil vinna verði hjá sér í framtíðinni. Í lok myndarinnar er talið upp það sem þau eiga að hafa misst í hruninu; bílinn, jeppann, gröfuna ofl. Konan segir að nú keyri þau um á fermingargjöf sonarins. Hann hafi fengið frá þeim mótorkrosshjól en þau hafi lofað að borga honum þegar betur áraði. Fólk gæti spurt sig: Er raunhæft að bílstjóri og hundasnyrtir gefi syni sínum mótorkrosshjól í fermingargjöf, búandi í risaeinbýlishúsi með bíl og jeppa? Fólk getur spurt sig að þessu því allt er tekið fram, allt er sýnt. Í útvarpinu er sérstaklega tekið fram að það sé verkamaður sem óttist að þurfa að greiða 400.000 kr. af húsnæðisláninu sínu um mánaðamótin. Á sama tíma opnar konan hans reikninga frá Intrum. Strákurinn þeirra virðist ósköp fáskiptinn, jafnvel hálf sljór þegar hann biður móður sína um klink fyrir strætóferð. Hún spyr hvort ekki sé hægt að fá skiptimiða og virðist hún vera sýna áhorfendum að á þessu heimili skipti hver króna máli. Strákurinn svarar mjög kæruleysislega, „ég veit, sko, ekkert hvað við verðum lengi”, eins og honum sé sama um fjárhag foreldra sinna talda í nokkrum krónum. Þegar líður að lokum myndarinnar kemur framboð vörubílstjórans í ljós sem hann segir vera draum. Hann segist vera í framboð fyrir fólkið, en heldur að ef hann geti orðið ríkari þá komist hann til Flórída. Viðtal er tekið við strákinn og þar sem hann kjamsar kæruleysislega á seríósi og virðist heldur fáskiptinn segir hann að Flórida hafi alltaf verið ætlunin; „við erum búinn að vera að tala um það síðan 2007, það var bara aldrei til peningur í það ….svo núna ef pabbi kemst á þing, þá líður kannski.. svona ár eða eitthvað og þá, þá flytjum við út“ . Móðir hans straujar skyrtur og brosir í fyrsta skiptið í myndinni. Sturla náði að lokum ekki kosningu og fór því ekki til Bandaríkjanna.
Lögreglumaðurinn: Dúni Geirsson virðist vera í hlutverki „góða gæjans“ enda er hann lögreglumaður og sonur Geirs Jóns Þorfinnssonar, yfirlögregluþjóns í Reykjavík. Hann kemur fyrir sjónir sem heilbrigður og aktívur, er kafari og meðlimur í hljómsveit. Hann á líka að vera með hús á lánum, úti á landi, segist skulda allt en eiga ekkert. Hann gantast með það að nýja pikkuplínan sé að vera með starf hjá ríkinu og á greinilega að finnast atvinnuleysi vera eitthvað af verstu sort. Hann er ekki að mótmæla við Alþingi, hann er að verja það, og er sýnt frá þegar hann er að biðja og lýtur út fyrir að hann fái huggun sína og útrás í gegnum trúna, en ekki með því að mótmæla.
Einstæða móðirin: Tekið er viðtal við Evu Hauksdóttur, þáverandi eiganda Nornabúðarinnar. Það virðist sem hún sé ekki þessi venjulega einstæða móðir. Hún virðist vera á skjön við samfélagið, nægjusöm og ekki peningamanneskja, en öfugt við Sturlu Jónsson lítur út fyrir að hún lifi lífi sem er raunsætt miðað við hennar hagi. Það lítur út fyrir að hún sé hætt að trúa á kerfið, hún segir að hún sé hætt að borga af lánum og það sé fyrir henni alveg nýtt viðhorf. Eftir mótmælin er tekið annað viðtal við hana og hafði hún þetta um „sigurinn“ að segja: „Þetta er bara fyrsti áfanginn nú höfum við komið ríkistjórninni frá, en við þurfum líka að fá stjórnkerfisbreytingar og fólk mun ekki sofna á verðinum. Núna verður væntanlega skipuð þjóðstjórn eða utanþingsstjórn“. Hún telur að fólk sætti sig ekki við minni breytingar en að stjórnkerfinu öllu sé breytt og segir að „það sé ekki hægt að halda þessu rugli áfram; að nokkrar manneskjur geti ráðið öllu í landinu og haldið upplýsingum leyndum fyrir hinum.“ Hún segir að lokum: „Þetta endar með því að við missum sjálfstæðið okkar, missum ráðstöfunarrétt yfir auðlindunum okkar, erlendir skíthælar koma bara í staðinn fyrir íslenska skíthæla.“
Bankastjórinn: Þung, dimm ský eru sýnd yfir Kaupþingi og grár filter virðist vera yfir myndinni sem á væntanlega að endurspegla ástandið og taka mið af stemningunni í bankanum. Það sést þröngt skot af húsdyrum þar sem Bjarni Ármannsson, fyrrum bankastjóri Glitnis, kemur út og fljótlega á eftir honum kemur sonur hans sem virðist á unglingsaldri, í Byko-peysu. Hann á því greinilega að virðast vinnandi ungur maður þótt faðir hans og fjölskylda séu augljóslega peningafólk. Þeir aka saman frá húsinu en ferðinni er heitið að fjárhúsi rétt fyrir utan bæinn, eins og Bjarni vilji sýna sig sem sveitastrák í viðtalinu. Þeir eru saman að moka hjá rollunum þegar strákurinn spyr: „Er ekki einhver önnur hjólbara þarna?“ Bjarni svarar honum: „Nei, þetta er svo lítið“ og virðist hann vera að láta ljóst vera að hann veigri sér ekki við erfiðisvinnu, en um leið er auðséða að einhversskonar sýning er í gangi, því strákurinn hefur greinilega ekki farið með föður sínum þangað áður fyrst hann veit ekki að „þetta er svo lítið“ að það þurfi bara einar hjólbörur. Í fjárhúsinu segir Bjarni að hann hafi ekki vitað betur en að hann hafi verið að skilja bankann sinn eftir í góðu ásigkomulagi og verið að afhenda tíu ára uppbyggingarstarf, um leið og hann stingur skóflunni djúpt í flórinn. Þegar tekið er annað viðtal við Bjarna heima við er, þvert á við tökurnar hjá Sturlu Jónssyni, ekkert umhverfi sýnt og engar myndir teknar um húsið, einungis eru gluggatjöld í baksýn þegar viðtalið er tekið. Bjarni segir: „Ég hef aldrei hugsað um peninga þannig, af því að ég er búinn að vera að fást við svo stórar tölur í svo langan tíma að þá verða þetta líka bara tölur á blaði skilurðu? Þetta verður svona ekki beint raunverulegt en þetta verða svona táknmyndir en kannski beint svona peningatáknmyndir.“ Um leið koma krakkarnir inn og tala um 30 kall sem hafði gleymst að láta þau hafa fyrir strætóferð, sem, ef ekki viljandi hefur verið gert, er þá frábær aðferð til að fá fólk til að skilja hvernig litlar upphæðir verða ómerkar þegar fengist er við miklu hærri tölur allan daginn.
Fjárfestirinn: Í viðtali sem tekið er við Björgólf Thor Björgólfsson sést þar sem hann mætir ásamt aðstoðarmanni sínum og eru þeir að ræða saman og eiga að líta út fyrir að gera sér ekki grein fyrir því að kveikt sé á myndavélinni: „Var það þrjár eða fjórar?“ spyr Björgúlfur aðstoðarmanninn. „Heildarverðmæti viðskiptanna voru 6,3 milljarða evra,“ svarar hann. Áhorfendur eiga þar með að gera sér grein fyrir því að Björgólfur er ekki inn í öllum málum. Hann reynir að draga mjög úr Icesave málinu og spyr hvort þurfi ekki að hafa meiri áhyggjur af lánakjörum heimilanna og gapinu sem hefur myndast eftir að skattar bankanna fyrir opinberar framkvæmdir hurfu. Í miðju viðtali segist hann þurfa að bregða sér á salernið. Á meðan hann er í burtu segir aðstoðarmaður hans við Helga: „Þú verður að gera þeir grein fyrir því að Björgólfur var aldrei í stjórn Landsbankans, aldrei í bankaráði Landsbankans, hann hafði aldrei neinar upplýsingar um Icesave, skilurðu? Hann tók bara þátt í að ráða bankastjóra 2003 og síðan, sko, þannig að…“ og Helgi svarar: „Jú jú. Hann var bara hluthafi,“ og aðstoðarmaðurinn hans hefur eftir honum: „Já, hann var bara hluthafi en ekki…. hann var hins vegar stjórnarformaður í Straumi.“ Þá er klippt og þeir klára samtalið: „Hann var semsagt aldrei í stjórninni, hann var bara svona…“ og þeir líta báðir laumulega í myndavélina þegar Björgólfur kemur aftur inn. Þá er auðvelt fyrir hann að koma inn samtalið þeirra; „það eru svo margir sem halda að ég hafi verið eitthvað inn í þessu, en ég er þannig séð útlendingur, bý erlendis“. Hann líkir sér við fótboltaþjálfara, hann geti ekki stjórnað hvernig fótboltaliðinu gengur. Svo segir hann: „Ég er ekki nógu nálægt þessu, ég er svo frá allri pólitík og svona, ég þekki þettta svo lítið!“ Það sannast, með næsta myndbroti það er frá „Kryddsíldinni“ 2008, þar sem Sigmundur Ernir Rúnarsson segir við Guðjón Anar Kristjánsson, formann Frjálslynda flokksins: „Við afhentum bankana í hendur óreyndra bankamanna sem höfðu aldrei komið að þessu áður og því fór sem fór.“ Seinna í myndinni er Björgólfur spurður: „Hvað er peningur fyrir þig?“ Hann svarar að peningur sé bara verkfæri eða fræ sem bóndi sáir í frjóan svörð, nærir og ræktar og komi í hús og geri það sama að ári. Hann segir að fólk eigi það til að spyrja hvað hafi orðið um alla peningana. Hann segir að peningar séu ekki steinhlunkur sem er til í þúsund ár, þeir séu eins og matvara; ef það sé ekki farið vel með þá, þá rotni þeir og hverfi. Peningar tapast, ekki þannig að einn tapi og annar græði, það sé marxísk hagfræði. Þegar peningar tapast þá hverfa þeir.
Athafnamaðurinn: Jón Ásgeir Jóhannesson kemur á bát út í Viðey. Hjákátleg tilviljun að báturinn kemst ekki alveg að landi, hann þarf að henda reipi í átt að landi og segir „núna verður þú að draga okkur að landi“. Aðspurður hvort honum finnist hann hafa brugðist svarar hann: „Ég held að það sé dáldið mannlegt að menn verði kærulausir … kærulausari.“ Hann segir að hann hafi talið að þeir félagar hans væru að stunda viðskipti sem væru góð og telji enn að þau hafi verið það, en kannski hafi verið full mikið frjálsræði í þessu, segir hann flissandi þegar rigningin byrjar að skella á hann. Þegar hann virðist halda að ekki sé verið að taka upp segir hann: „Ertu búin að selja sjónvarpsréttinn af þessu hérna heima?“ sem gæti verið lýsandi fyrir peningamann. Í lok myndarinnar er Jón Ásgeir spurður, ef hann ætti að kenna einum hlut um hrunið, hvað það væri, hvort hann gæti bent á einn hlut eða manneskju, þá svarar hann: „Hér hefði ekki þurft að vera neitt hrun“.
Þótt viðtölin í myndinni eigi að sýna nokkurs konar þverskurð af þjóðfélaginu kemur í ljós að hér eru söguhetjurnar Sturla Jónsson, vörubílstjórinn með gjallarhornið sem fór í framboð, einstæða móðirin er Eva Hauksdóttir, ein þeirra sem gekk hvað harðast fram í mótmælunum og lögreglumaðurinn er Dúni Geirsson, sonur Geirs Jóns Þórissonar, fyrrum yfirlögregluþjóns í Reykjavík. Helgi lætur heimildir vissulega tala sínu máli en eins og Sigurður Nordal komst að orði þá er „jafnvel annálaritari sem skrifar fáeinar línur eða blaðsíður um atburði líðandi ára og gera engar athugasemdir um þá frá eigin brjósti er með hverju orði að kveða upp dóma og láta skoðanir sínar í ljós“, (Íslenzk menning I. Reykjavík 1942, s. 7-8).
Arndís Þóra Sigfúsdóttir, nemandi í sagnfræði, nóvember 2014
Önnur umfjöllun:
- Arnar Eggert Thoroddsen. „Þetta kom allt upp í hendurnar á mér.“ Morgunblaðið 5. júlí 2009, s. 52.
- Helgi Snær Sigurðsson. „Mikil sorgarsaga.“ Morgunblaðið 2. október 2009, s. 44.
- Tómas Þór Þórðarsson. „Sprengja að fara að falla.“ DV 2. október 2009, s. 30–31.
- Erpur Eyvindarson. „Frábær forréttur.“ DV 7. október 2009, s. 29.
- Sæbjörn Valdimarsson. „Drottinn blessi heimilið.“ Morgunblaðið 7. október 2009, s. 30.
- Klemens Ólafur Þrastarson. „Fagmenn gagnrýna Guð blessi Ísland.“ Fréttablaðið 7. október 2009, s. 10.
- Dr. Gunni. „Reitt fólk og álkulegt í hruninu.“ Fréttablaðið 8. október 2009, s. 40.
- [freyrgigja@frettabladid.is]. „Útrásarvíkingum boðið í bíó.“ Fréttablaðið 30. október 2009, s. 22.