Draumrof

Úlfar Þormóðsson. Draumrof. Reykjavík: Veröld, 2016.

Efni: Sagan hefst á falli: miðaldra maður dettur á miðjum Skólavörðustígnum og í örvinglun sinni fær hann lögreglufylgd heim. Seinna verður maðurinn sannfærður um að fall hans hafi ratað í skáldsögu eftir rithöfund sem hafði áður verið góður vinur hans en það slitnaði upp úr samband þeirra vegna ósætta. Maðurinn finnur sig knúinn til þess að rita sanna útgáfu af sögu sinni og senda rithöfundinum. En fyrst hakkar hann sig inn í tölvu rithöfundarins og stelur allskyns skrifum sem hann svo vitnar í samhliða eigin endurminningum í fyrstu persónu. Í texta skáldsögunnar ávarpar sögumaður rithöfundinn í annarri persónu, með fornafninu „þú“, og því býr verkið yfir innbyggðum viðtakanda. Úr verður saga sem minnir um margt á knappar franskar tilvistarbókmenntir með tilheyrandi uppstokkun á tíma og vangaveltum um mörk raunveruleikans, minninga, skáldskapar, svefns og vöku.

Bakgrunnur: Sagan hverfist um hrunið: sögumaður segir frá starfi sínu sem almannatengill á þensluárunum, samlífi með konu úr bankageiranum, hörmungum í persónulegu lífi þeirra, samhliða gífurlegum áhrifum bankahrunsins á sambúðina og svo eigin baráttu við gleymskuna eftir að maðurinn verður fullviss um að hann sé að fá Alzheimer. Draumrof er því hreinræktuð hrunssaga og fall bankanna verður mikið áfall fyrir persónurnar, nokkurskonar tilvistarlegt hrun þeirra og paradísarmissir. Því er síðan teflt saman við raunverulegan missi eftir að barn hans og sambýliskonunnar fæðist andvana. Þess má geta samanburður á tráma við hrun hagkerfis og persónulegu tráma er þekkt minni í íslenskum hrunbókmenntum. Samhliða er rakin saga fólks sem kleif hratt upp metorðastiga viðskiptalífsins og lagði allt sitt traust á fjármálakerfi sem svo hrundi. Þá tók við skuldafen með tilheyrandi alkhólisma, þunglyndi og almennu vonleysi. Verkið tekur á þensluárunum, hruninu og endureisninni. Það er skrifað í gagnrýnistóni, sem beinist einna helst að fólki í bönkunum og viðskiptalífinu, en einnig að stjórnmálamönnum og almenningi.

Umfjöllun: Þegar sögumaður og aðalpersóna Draumrofs er farinn að gleyma ýmsu, líkt og húsnúmerinu sínu, verður hann hugsi:

„Talnaminnið var eitt af því sem datt úr mér við hið svokallaða Hrun, sem ég og aðrir mér nánir nefna Fallið. Í fyrstu hélt ég að þetta væru áhrif af sjokkinu sem ég varð fyrir þegar heimurinn féll saman. En þegar ég var farinn að gleyma því í miðju samtali við menn um hvað samræðurnar snerust, læddist að mér sá grunur að þetta væri aðkenning að alshæmer, sú hremming sem konan mín óttast meira en nokkuð annað af biturri reynslu.“ (52)

Margt ber á góma í þessu textabroti: í fyrsta lagi kýs sögumaður að kalla hrunið „Fallið“ sem tengir fjármálakreppuna beint við hans eigið fall á Skólavörðustígnum en vekur líka upp minningar um önnur þekkt föll, til dæmist sjálft syndafallið og jafnvel samnefnda skáldsögu eftir Albert Camus. Í öðru lagi líkir hann sjokkinu sem fylgdi hruninu við einskonar heimsendi enda umturnast tilvera hans við fall bankanna. Í þriðja lagi segir hann frá einkennum Alzheimer, sem hann er viss um að hrjái sig, og tengir sjúkdóminn við hræðslu konu sinnar sem missti báða foreldra sína eftir baráttu þeirra við sjúkdóminn. Gleymska og minnisglöp eru sterkustu þemu verksins og sögumaður er oft tvístígandi í textanum sjálfum, afsakar hvað frásögnin sé sundurleit og endurtekur sig. Undir lok verksins fer maðurinn loks til læknis og fær þá greiningu að gleymskan stafi ekki af heilabilun heldur sé hún tilkomin vegna áfalls. Minnisglöpin eru því að hluta tilkomin vegna hrunsins og freistandi er að greina gleymskuna sem alegórískt stef í verkinu. Ef til vill má heimfæra minnisleysið á alla íslensku þjóðina sem virðist hafa verið fljót að gleyma öllu bruðli, spillingu og græðgi því þegar sagan kom út var hún aftur á svipaðari vegferð með sömu flokka við stjórnvölinn og fyrir hrun.

Gleymskan gerir sögumanninn óábyggilegan en það er þó ekki það eina sem vinnur gegn trausti lesenda á honum. Maðurinn starfar sem almannatengill og segir sjálfur að starf sitt felist í því „sem Kaninn kallar „mindfucking““ (51), þar sem verkefnin snúast flest um að sigla undir fölsku flaggi, ljúga og hreinlega skálda. Til dæmis fær hann úthlutað verkefni í einni af ótal veislum viðskiptalífsins þar sem áhrifa- og valdafólk landsins hittist, blandar geði og skemmtir sér. Þar kynnist hann ráðherra, sem hann kallar sjálfur „þessi með riddarakrossinn“ og bætir svo við: „hann spurði hvort ég gæti tekið að mér starf fyrir „flokkinn, eða mig“, eins og hann tók til orða, „til þess að athuga hvernig gera mætti fólk afhuga stjórnmálum“.“ (49). Í kjölfarið greinir sögumaðurinn hugmyndafræðilegt ástand þjóðarinnar fyrir hrun svo:

„Á þeim tíma voru flestir landsmenn hættir að velta fyrir sér hugmyndafræði flokkanna og mosi farinn að breiðast yfir hugsjónir. Þær voru ekki í tísku. Einhvers staðar hafði sú hugmynd fæðst að stela tímanum frá fólki svo að því gæfist færri stundir til þess að lesa sér til og hugsa um andleg og veraldleg grundvallaratriði. Nýir og ævintýralegir tímar með fartölvum, interneti, snjallsíma og öðrum ávanabindandi tímaþjófum voru að renna upp. Unga fólkið hafði þá þegar fengið meiri áhuga á því sem tæknitólin buðu upp á en stefnum stjórnmálaflokka og massinn hætti sjálfviljugur pólitískri umræðu. Fólk varð pirrað þegar stjórnmál bárust í tal.“ (49-50).

Hér kemur fram frekar neikvæð sýn sögumanns á þjóð sína en um leið ber hann litla virðingu fyrir ráðherranum; sem hann leikur á með því að þykjast ekki hafa áhuga á verkefninu, til þess eins að kreista út úr honum meiri peninga. Honum er augljóslega í nöp við alla þá sem komu að hruninu: bönkunum, viðskipalífinu, stjórnmálunum og þjóðinni allri en leitar aldrei að eigin sök. En um leið er ljóst að sögumaður tók sjálfur fullan þátt í þenslunni:

„Á árunum fyrir Fallið hafði ég rífandi tekjur. Konan var hálaunamaður og flutti trúverðugleika bankans með sér heim úr vinnunni. Daglega. Okkur safnaðist fé. Og við fórum að fjárfesta í öllu mögulegu og lögðum fé í peningasjóði sem áttu að skila meiri arði en áður hafði verið markað fyrir á heimsmælikvarða. Og á styttri tíma. Hún sá um þetta, konan. Þáði ráð hjá sínum yfirmanni. Hún treysti honum. Ég treysti þeim, aðallega þó henni. Athugasemdalaust. Reyndar var ég ekki mjög upptekinn af peningum þó að ég hefði enga löngun til þess að vera án þeirra. Hvað það varðar er ég enn sömu skoðunar og ég var á okkar samvistardögum; að peningar væru til þess að eyða þeim þegar færi og tími gæfist til. Kannski var það vegna þess að ég vann við að skapa bjartsýni og efla traust sem ég var ekki að hugsa um auð og eignir frá degi til dags og hélt stórum hluta minna tekna utan við þetta glæsta fjárhættuspil og geymdi þá í erlendum bönkum. Sem varasjóð til seinni tíma brúkunar. Á mínu nafni. Án vitundar konunnar.“ (67-68)

Augljóst er að bankarnir voru spilltir en í þessu textabroti kemur einnig fram hversu ótraustur sögumaðurinn er í raun og veru: hann segist treysta konu sinni en geymir samt hluta af auði sínum inni á erlendum bankareikningum, utan við íslenskt hagkerfi (sem hann kallar „þetta glæsta fjárhættuspil“) án vitundar konu sinnar. Einnig segist hann hafa litla löngun í peninga en annað virðist þó uppi á teningnum í rás sögunnar, sérstaklega þegar hann lítur til baka með söknuði á glæsta tilveru sína á þensluárunum. Sá veruleiki var auðvitað nátengdur hinu íslenska efnahagsundri en sem almannatengill segist hann aldrei hafa trúað á þann spuna sem hann spann til að stuðla að glórulausri bjartsýni í samfélaginu. Hann er maður í afneitun á eigin sök á þróun mála og svipuð afneitun er einnig ljós í  persónulegu lífi hans.

„Konan var á bráðamóttökunni, hafði fengið kviðverki með blæðingum. Hún missti fóstrið. Ég náði í hana á sjúkrahúsið og þegar heim var komið lokaði hún sig af í þögn; fór ekki út fyrir hússins dyr og byrjaði aftur að drekka. Í kjölfarið lagðist þunglyndi yfir hana og hefur haldið henni fanginni síðan.“ (73)

Stuttu seinna bætir sögumaður við:

„Fósturmissirinn gerði mér ekki sama sár og konunni vegna þess að ég þóttist vita að ég ætti barn úti í bæ. Telpu. Stúlku. Unga konu. Ég hafði að vísu ekki hugsað mikið um það á hinum hraðfleygu stundum góðærisins. En eftir að hafa gerst fésbókarvinur móður hennar á fölskum forsendum get ég fylgst með uppvexti hnátunnar þar og þegar hún komst á unglingsár fór ég oft inn á hennar eigin síðu án þess að gerast „vinur“.“ (77)

Tilfinningalegt fall hjónaleysanna á sér uppsprettu í barnsmissi. Það verður þeirra draumrof sem fyrir tilviljun á sér stað á sama tíma og efnahagskerfið hrynur og draumrof verður hjá allri íslensku þjóðinni. Þau vakna upp við vondan draum og vilja bæði gleyma. Hún leitar í vín en hjá honum verður gleymskan að veruleika. En samhliða gleymskunni lokar hann augum fyrir eigin aðild að hruninu og áfallinu sem fylgdi því við að missa barn. Á sama tíma hefur sjaldan verið meira að gera hjá almannatenglinum en eftir hrun:

„Eftir Fallið hef ég haft nóg að gera. Þó svo að nokkrir viðskiptamanna minna hefðu orðið undir skriðunum, komust ærið margir þeirra undan þeim. Þeir þurfa aðstoð við að sýnast nýjir menn. Og hafa efni á að kaupa hana. Einnig skutu upp kolli menn sem höfðu ekki verið mjög sýnilegir fyrir fall. Þeir vildu koma heiðarleika sínum á framfæri og voru tilbúnir að kosta nokkru til.“ (76)

Á milli lína viðist sögumanni finnast sem uppgjör þjóðarinnar við hrunið hafi ekki tekist sem skyldi og ennþá er sama vitleysan viðhöfð. Undir lok verksins fer að birta til hjá honum og samhliða lifnar yfir textanum en hann verður einnig óræðari og draumkenndari. Sögumaður reynir að myrða konuna sína og heldur svo út fyrir landsteinanna til að vitja peninganna sem hann geymdi í erlendum bönkum. Þangað kominn uppgötvar hann að konan lifði af morðtilræðið og varð fyrri til að ná í peningasjóði hans. Hún komst þó ekki í einn bankareikning í Svíþjóð svo sögumaður heldur þangað. Við lok verksins er gefið í skyn að þar finni hann loks það sem hann þráði en missti.

Sögupersónur Draumrofs eru erkitýpur þeirra sem raunverulega komu að íslenska efnahagskerfinu á þensluárunum og fjallar einna helst um afleiðingar hrunsins. Hins vegar er ekki leitast við að skilja hvatir, trú og vonir leikenda heldur tekur sögumaður sér stöðu fyrir utan kerfið, bendir og dæmir. Gagnrýnin er af hefðbundnum toga, og verður á köflum hreinn heimsósómi um stöðu mála í þjóðfélaginu. Draumrof er af þeim sökum enn eitt gagnrýnið skáldverk í flóru hrunbókmennta.

Einar Kári Jóhannsson, nemandi í bókmenntafræði.

Önnur umfjöllun: