Sofðu ást mín

Andri Snær Magnason. Sofðu ást mín. Reykjavík: Mál og menning, 2016.

Efni: Í safninu Sofðu ást mín er að finna sjö smásögur eftir Andra Snæ Magnason í  raunsæislegum og oft persónulegum stíl. Í sögunum kveður við nýjan tón í höfundarverki Andra eða eins og hann orðaði það sjálfur í viðtali í Fréttatímanum, 8. desember 2016, þá hefur hann vanalega „skapað heim sögunnar frá grunni og jafnvel lögmál þess heims. Þetta er í fyrsta sinn sem ég skrifa skáldverk þar sem ég nota heiminn sem skapaði mig“ (24).

Fyrsta sagan í safninu ber heitið „Randafluga“ og gerist á níunda áratugnum, þegar ungur drengur fer með foreldrum sínum í fjallaferð um hálendið. Næst er það sagan „Rex“ þar sem segir frá grafískum hönnuði sem tekur að sér verkefni fyrir stórt viðskiptafyritæki á þensluárunum. Þá er það titilsagan „Sofðu ást mín“ sem geymir vangaveltur sögumanns um ástina og íslenska tungu. Fjórða sagan er „Lególand“, sem áður kom út hjá forlaginu Tunglið, en í henni segir maður á fertugsaldri frá fjölskylduferð hans og vinafólks til Lególands í Danmörku þar sem nýlegt sjálfsmorð vinar hvílir þungt á þeim. Fimmta sagan heitir svo „Wild boys“ og fjallar um mikið teiti íslenskra útrásarvíkinga í London á góðæristímanum. Því næst er það „Hamingjusagan“ þar sem arkitekt lýsir ævarandi ást á konu sinni og hamingjunni sem henni fylgir. Og að lokum er það sagan „2093“ þar sem ungur drengur minnist langafa síns sem er við það að falla frá. Sögurnar tengjast lítillega, bæði með endurkomu persóna á milli sagna og þematískt.

Bakgrunnur: Safnið má skoða sem einskonar uppgjör Andra Snæs við eigin kynslóð, enda eru margar persónurnar, á þeim tímum sem sögurnar eiga sér stað, á svipuðum aldri og hann sjálfur. Söguna „Lególand“ má svo lesa sem sjálfsævisögulegt verk þar sem sögumaður er nokkurra barna faðir úr Árbænum sem stritast við að skrifa barnabók. Í verkum Andra má gjarnan greina sterkan pólitískan undirtón og þó að hann sé nokkuð léttvægari í Sofðu ást mín þá er hann til staðar. Umfjöllunarefni sem ber á góma eru til dæmis hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar, uppgangur íslenskra viðskiptablokka og áhrif góðærisins og síðan hrunsins. Margar persónur eru nýríkir einstaklingar á hápunkti góðærisins fyrir hrun, en þær þekkja samt hið gamla Ísland sem foreldrar þeirra tilheyrðu. Þannig eru dregnar fram sterkar þversagnir sem ná hápunkti í lýsingum á frægum partíum útrásarvíkinga, sem einkenndust af ýktri neyslu, þátttöku erlendra stórstjarna, glæstum veigum og ferðalögum heiman og heim í einkaþotum. Nokkuð ljóst er að sögumönnum flestra sagnanna þykir sem siðferði margra hafi raskast eða týnst fyrir hrun og í staðinn eru ný sannindi sterklega boðuð sem felast í að skynja fegurð hversdagsleikans.

Umfjöllun: Bókarkápunni er skipt í tvennt með dökkum lit neðst, sem er eins og sandur, en heiðbláum að ofan, eins og himininn, og fyrir miðju rís þríhyrnt fjall. Yfir allt saman er svo teiknuð hauskúpa af dýri með miklar vígtennur. Kápan er eignuð Alexöndru Buhl en við lestur sögunnar „Rex“ verður ljóst að greina má áhrif frá aðalpersónunni, Arnari, sem er grafískur hönnuður og segir söguna í fyrstu persónu. Frásögnin hefst þegar athafnamaðurinn Atli hefur samband við Arnar og bíður hann um að teikna lógó fyrir nýja fyrirtækið sitt. Atli vill þó ekki greiða honum fyrir verkið en í staðinn býðst hann til þess að styrkja næstu listasýningu Arnars. Mennirnir tveir voru æskuvinir en vinskapur þeirra slitnaði eftir röð atvika sem urðu til þess að Arnar kynntist vafasömu eðli Atla. Enda er hönnuðurinn Arnar strax skeptískur á boðið sem berst bréflega „frá ráðgjafafyrirtæki sem innihélt háleitt orðalag um gildi, markmið, vaxtarmöguleika og framtíðarsýn“ (21) . Honum verður hugsað til Atla sem hann „vissi ekki til þess að hefði áhuga á listum en kannski var hann kominn á þann stað að það var talið nauðsynlegt út á við. Ég er líklegast eini listamaðurinn sem hann kannaðist við.“ (22) Arnar tekur þó boðinu, hannar lógó fyrirtækisins og heldur listasýningu í boði Atla, sem notar tækifærið til að stíga í pontu og tala um mikilvægi lista í samfélaginu. Hann ræðir það efni líka beint við Arnar: „Gaman að geta látið þessa sýningu verða að veruleika, sagði hann svo, en ég beit í vörina. Kostnaðurinn rétt nægði fyrir víninu sem hann sjálfur og einhverjir viðskiptafélagar hans voru að drekka. Lógóið var miklu meira virði“ (23).

Atla er lýst í þeim tilgangi að benda á hið misjafna eðli sem leynist undir jakkafötunum. Ekki er nóg með að hann haldi reglulega fram hjá konu sinni Brynju, sem Arnar ber nokkuð hlýjan hug til, heldur var hann mikill hrotti sem barn. Hönnuðurinn rifjar upp sögur af Atla með túttubyssu að skjóta á önnur börn, dúfur og máva og um leið man hann þá skömm sem hann sjálfur fann fyrir vegna níðingsverka vinarins. Tvö dæmi hvíla þyngst á Arnari: hið fyrra þegar Atli fékk afhentan kassa með kettlingum sem hann tók að sér að drekkja í hyl við Elliðarár og hið síðara var þegar hönnuðurinn sá Atla ganga með gamla golden retriever-tík sér við hlið og vissi um leið að sömu örlög biðu hennar og kettlingana. Síðar fékk hann grun sinn staðfestan þegar hann fann hauskúpu hundsins í gjótu í Elliðarárdalnum. Þannig er dregið fram illt innræti Atla, sem þó er ekki reynt að útskýra og greina, og er því jafnvel stefnt saman við hinn fullorðna mann sem stundar nú bæði veiðar og viðskiptabrask:

„Hann var ekki eins og villingarnir í Iron Maiden-jökkunum, hann reykti ekki og var snillingur í stærðfræði, langbesti skákmaður skólans og hafði alltaf heilmikið viðskiptavit. Hann fjölfaldaði Sinclair Spectrum-tölvuleiki í fermingargræjum eldri bróður síns með spólum sem ég er viss um að hann hafi stolið niðri í bæ.“ (30-31)

Sögumaður gefur lesendum því nokkuð einhliða mynd af Atla, sem er ekki hinn venjulegi afbrotamaður heldur andstyggilegur snillingur, og svo nær hann sjálfur fram hefndum þegar Atli biður hann um að hafa lógóið innblásið af grameðlum sem þeir vinirnir voru vanir að skoða saman í bókum sem strákar:

„Framan á sýningarskránni blasti lógóið við. Í frekar grófri röstun átti mönnum að finnast þeir horfa beint á stílfærðan haus á grameðlu, tyrannosaurus rex, tákni fyrir hraða, snerpu og áræðni, en í rauninni var þetta bara rex, teiknaður eftir brotinni hauskúpu af gamalli golden retriever-tík.“ (35-36)

Í lengstu sögu safnsins, „Wild Boys“, eru dregnar upp svipaðar myndir af menningarsnauðum íslenskum útrásarvíkingum og mikilli skemmtun þeirra á hápunkti góðærisins. Sagan fjallar um Brynju, eiginkonu athafnamannsins Atla, sem ferðast í einkaþotu til London til að mæta í teiti sem haldið er af íslenskum bankamönnum. Á leiðinni hjálpar hún samstarfsmönnum eiginmannsins við að klára að sjúga upp í nefið „hvíta rák“ sem fyllir hana af gleði og þegar hún mætir í veisluna trúir hún ekki sínum eigin augum enda hefur öllu verið tjaldað til af vinahóp Atla:

„“Gestgjafarnir kölluðu sjálfa sig Wild Boys, það hafði verið óopinbert nafn á klíkunnni þeirra um nokkurt skeið. Allir voru þeir komnir vel yfir tíunda milljarðinn, allir í hvítum Armani-jakkafötum, skemmtilega hallærislegir en samt flottir, fötin keypt bara fyrir kvöldið, 350.000 króna brandari en hvað var það – Wild Boys voru búnir að toppa allt þegar kom að lúxus og óvæntri stemningu en núna náðu þeir nýjum hæðum. […] Efstu þrjár hæðirnar á hótelinu, full júmbó þota og fjórar einkaþotur. Allt í boði Wild boys. (92-93)

Stuttu seinna er bætt við:

„Þetta var svo mikið flipp og kostaði Wild Boys ekki nema hundrað milljónir. Ótrúlegt flipp og out of the box „Hundrað milljónir!“ öskraði einhver en Atli sagði að þetta væri ekki neysla heldur fjárfesting. Þarna væru þrjú hundruð sérvaldir boðsgestir, þetta skilaði sér allt í trausti og viðskiptavild, það mætti bókfæra þetta kvöld sem fasteign. Það mætti jafnvel gíra það upp og veðsetja það.“ (96)

Allt er þetta gert í kaldhæðni og nostalgíu sem nær hámarki þegar ein vinælasta hljómsveit níunda áratugarsins, Duran Duran, stígur á svið. Partíið minnir óneitanlega á einkasamkvæmi útrásarvíkinga á þensluárunum þar sem sambærilegir listamenn voru oft keyptir til að koma fram. Fyrir sögumanni smásögunnar „Wild Boys“ virðist vaka að draga upp mynd af ráðandi týpum viðskiptalífsins á þensluárunum en lýsa samhliða þeim meinlætajarðvegi sem þær spruttu upp úr. Í því skyni farið aftur til menntaskólaáranna, lýst er basli foreldranna og afturhaldsömu þjóðfélagi fortíðarinnar: „Þegar þau voru yngri þótti framandi að fara til London. Þegar þau voru í háskólanámi þótti heimsborgaralegt að kunna á neðanjarðar-lestakerfið í París. Sumarstarf í New York kallaði á viðtal í Morgunblaðinu. Fyrir tíu árum hefði verið hægt að komast í blöðin fyrir að hafa setið nálægt poppstjörnu á veitingastað.“ (93) Nú lætur þetta sama fólk eins og það eigi heiminn og viðskiptin draga það víða um lönd. En myndin er stækkuð þegar Brynja lítur á veislugestina í kring um sig:

„Þau þekktu alla og föðmuðu alla – gleðilega hátíð! Þetta var ein stór fjölskylda, allir meðvitaðir um að það væri ekki sjálfsagt að vera þarna, meðvitaðir um að þetta væri söguleg stund. Vinnufélagarnir, bisnessfélagarnir, þingmenn, blaðamenn, skólafélagar, háskólaklíka og handboltafélagarnir, baráttulið úr ungliðahreyfingum, en núna var vinstrið og hægrið bráðnað saman, niðurstaða fengin, ekkert eftir til að rífast um. Þessi leið hafði sigrað og sigurvegarinn var umburðarlyndur og bauð hinum í partíið. Allt þetta fólk hafði náð hámarksárangri á sinn hátt, þau voru að verða hópur, klíka, jafnvel stétt.“ (100)

Í partíinu er einskonar þverskurður þjóðarinnar og allir taka fullan þátt. Landið sem áður var ómerkilegt sker í Norður-Atlandshafi var þarna orðið leiðandi afl í alþjóðaviðskiptum og innst inni vissi fólk að slík staða væri ekki sjálfsögð. Brynju finnst óvenjulegur gljái yfir öllum, enda borða allir vel, snyrta sig og lifa eftir hæstu gæðastöðlum. Sjálf heldur Brynja fast í sína jarðtengingu og vinnur enn sem kennari á Íslandi, þrátt fyrir að hún passi ekki lengur í hópinn heima. Í veislusalnum fer hún að finna fyrir sífelldum kláða samhliða því að hún fer yfir líf sitt og ákvarðanir. Framan af fá lesendur ekki að vita af hverju kláðinn stafar og því er auðvelt að skoða hann sem einkonar kláða á sálinni, sem gerir það að verkum að Brynja getur ekki notið sín eins og hún vildi, enda er eitthvað við stöðu mála sem angrar hana. Atli og vinir hans eru vanir að heyja harða keppni sín á milli, slást og veðja um hver eigi að borga alla himinháu reikningana, svo þeir sem veikir voru fyrir eru fljótir að heltast úr lestinni. Hópurinn Wild Boys ferðast því um heiminn og gerir það sem honum sýnist á meðan konurnar, hópur sem kallaður er „ekkjurnar“, sitja eftir heima og eyða peningum. Loks kemur í ljós að kláðinn stafar af kynsjúkdómi, sem gefur til kynna að Atli hafi verið Brynju sinni ótrúr.

Ljóst er að sögurnar tvær, „Rex“ og „Wild Boys“, tengjast og fjalla um sömu persónur. Í báðum sögum er Atli andstyggilegur athafnamaður sem heldur m.a. fram hjá konu sinni. Hönnuðinum Arnari, úr fyrri sögunni, var líka boðið í partíið í London: „Þarna var Arnar, gamall vinur úr hverfinu. Hann skar sig úr hópnum, tilheyrði ekki alveg. Hann hafði hannað nýtt lógó fyrirtækisins“ (??).  Í miðju partíinu fer Atli upp á svið og greinir frá kaupum sínum á heilli beinagrind af grameðlu sem fannst í eyðimörk Montana. Beinagrindinni er ætlað að standa í anddyri nýrra höfuðstöðva fyrirtækisins í London, rétt eins þegar stytta af Leifi heppna með rafmagnsgítar á bakinu, sem keypt var af Hard Rock Café við gjaldþrot veitingarstaðarins í Reykjavík, átti að taka á móti viðskiptavinum í anddyri á íslenskum banka í London.

Fleiri sögur í safninu nefna eða fjalla um hrunið og fela í sér uppgjör við frjálshyggjuna og þensluárin. Tónninn er ávalt frekar ásakandi og fram er dregið margt það ýktasta sem átti sér stað á þessum árum án þess að tilraun sé gerð til þess að skilja til hlítar af hverju hlutirnir þróuðust eins og þeir gerðu. Atli, og hinir athafnamennirnir, eru afgreiddir sem siðlausir menn sem ber að refsa. Rétt eins og hönnuðurinn Arnar náði fram sínum hefndum þá sefur Brynja hjá einum hljómsveitarmeðlimi Duran Duran (þó ekki söngvaranum eins og hana dreymdi um þegar hún var 15 ára). Þannig linar hún kláðann.

Einar Kári Jóhannsson, nemandi í bókmenntafræði.

 

Önnur umfjöllun: