Jón F. Thoroddsen. Íslenska efnahagsundrið: Flugeldahagfræði fyrir byrjendur. Reykjavík: Brúðuleikur, 2009.
Efni: Bókin fjallar um langan aðdraganda íslenska efnahagshrunsins sem skall á árið 2008. Umfjöllun spannar tímabilið frá árinu 1980 til ársins sem hún var skrifuð, 2009. Þar er fjallað um þá atburði og einstaklinga sem höfundur telur hafa skipt mestu í atburðarás Hrunsins sem og tengsl þeirra innbyrðis. Hugtakið flugeldahagfræði mun vera nýtt og vísar til þess að aðilar á markaði geri „ekki ráð fyrir hagsveiflum. Þ.e.a.s. gert er ráð fyrir endalausum vexti en að lokum springur allt” (s. ?). Efnið er sett fram á myndrænan hátt með það markmið að ná til lesenda sem ekki hafa mikla þekkingu á atburðarásinni. Má því segja að bókin sé hagfræðibók fyrir byrjendur með nýjum blæ og kenningum.
Bakgrunnur: Höfundur bókarinnar, Jón F. Thoroddsen, er menntaður hagfræðingur. Hann vann sem verðbréfamiðlari á Íslandi í aðdraganda hrunsins. Þetta er fyrsta bók hans.
Umfjöllun: Bókin skiptist í tvo hluta, „Risið“ og „Hrunið“. Fyrri hlutinn skiptist í fjóra kafla: „Forsmekkurinn 1980-2001“, „Einkavæðing bankanna“, „Nýjar valdablokkir“ og „Góðærið – og þá var kátt í höllinni…“. Þarna er fjallað um aðdraganda Hrunsins, allt frá stofnun bankanna, aðild að Evrópska efnahagssvæðinu til útrásar og að viðskiptaháttum bankanna rétt fyrir bankahrunið. Margir einstaklingar, fyrirtæki og stjórnmálamenn eru kynntir til sögunnar og tengsl þeirra rakin. Einnig eru ný hugtök kynnt eins og „hringekjukaup“ í umfjöllun um Sterling flugfélagið. Síðari hluti bókarinnar og skiptist í sex kafla: „Undarleg viðskipti“, „Hrunið hefst“, „Blekkingin“, „Lífeyrissjóðirnir“, „Kerfishrunið“ og „Tapið“. Tímabilið rétt fyrir hrun til ársins 2009 þegar bókin var skrifuð, er þarna til umfjöllunar. Fleiri einstaklingar, fyrirtæki og lífeyrissjóðir eru kynntir til leiks. Fjallað er um viðbrögð valdamanna við viðvörunum erlendis frá árið 2006, hruni efnahagskerfisins árið 2008 og tapi þeirra og annarra aðila. Meira er fjallað um útrás bankanna, spillingu, blekkingar og lánasöfnun bankanna. Höfundur gerir tilraun til að gefa mynd af tengslum einstaklinga, fyrirtækja og lífeyrissjóða á íslenskum markaði. Hann reynir einnig að segja til um hvert peningarnir hafi farið eftir Hrunið og nefnir t.d. í því samhengi fjármagnsflutninga til eyjarinnar Tortola.
Hvorki eru neðanmálsgreinar né heimildaskrá í ritinu. Helstu heimildir Jóns koma frá fréttamiðlum en aðrar eru settar fram sem sögusagnir. Það má finna mikið af orðasamböndum á borð við „sagt er að“ og „ef til vill“ sem gerir höfundi kleift að koma skoðunum sínum og sögusögnum á framfæri. Í umfjöllun um Kaupþing er fjallað um forstjóra bankans: „Sagt er að Hreiðar Már hafi verið til í að gera allt til að verða ríkur“ (s. 38). Dæmi um til vitnun í fréttamiðil án heimilda er: „Það virtist hafa vaxið hratt en um sumarið 1985 fjallaði Helgarpósturinn um málefni félagsins í grein sem bar yfirskriftina „Hafskip að sökkva“. (s. 54). Dæmi um sögusagnir í umfjöllun um einkavæðingu bankanna er: „Þeir einstaklingar sem nutu mestrar ávöxtunarinnar áttu líklegast alls ekki fyrir kaupunum heldur áttu þeir vini á réttum stöðum” (s. 31). Margir einstaklingar eru kynntir til leiks, saga þeirra rakin stuttlega og hlutverk þeirra í aðdraganda Hruns skilgreint. Höfundur ásakar líka fjölda fólks um spillingu eða ýjar að henni. Þar notast hann áfram við sögusagnir og talar t.d. um Davíð Oddson sem „Dabba kóng“ (s. 23).
Uppsetning bókarinnar minnir á dagblað. Framsetningin er myndræn og textanum er oft skipt niður í dálka. Bókin er myndskreytt með ljósmyndum, af fólki og byggingum, myndritum og grafískum teikningum sem eru skýrandi fyrir viðfangsefnið. Engin nafna- eða atriðisorðaskrá er í bókinni en aftast má finna orðskýringar. Þar eru útskýrð hagfræðileg hugtök, stofnanir og margt annað. Sumir kaflar í bókinni líkjast blaðagreinum sem skilað var inn tveim mínútum fyrir prentun og eru satt að segja illa unnir. Margar staðreyndavillur eru í bókinni, t.d. er fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, Halldór J. Kristjánsson, sagður Kristinsson. Á einum stað (s. 125 og 126) er ekkert samhengi í frásögninni og virðist sem seinni opnan sé vitlaust staðsett. Vinnubrögð sem þessi gera það að verkum að erfitt er að treysta innihaldi bókarinnar. Sums staðar finnst mér höfundur vera með sleggjudóma t.d. þegar hann segir um Búsáhaldabyltinguna: „Barist var á götum Reykjavíkur og lögreglan beitti táragasi á húsmæður einnar friðsömustu þjóðar heims” (s. 9). Þessi staðhæfing er algjörlega órökstudd, var ekki fólk úr öllum stéttum að mótmæla?
Þrátt fyrir margháttaða galla er bókin á köflum skemmtileg. Hún er auðveld í yfirlestri og hentar einstaklingum sem ekki hafa mikla hagfræðikunnáttu. Málfarið er nútímalegt og læsilegt. Jón setur stundum gagnrýni fram á frumlegan hátt sem eykur skemmtanagildi bókarinnar. Sem dæmi um það er umfjöllun um Jón Sigurðsson, aðstoðarforstjóra Kaupþings: „Margir kinkuðu kolli og röktu góðar ættir piltsins. Börn og einfeldningar sáu hins vegar að keisarinn var allsber. Piltinum rétt óx grön. Hann var greinilega ekki eldri en tvævetra. Ef til vill var hann líka bara leikbrúða annarra afla” (s. 76). Efnistök höfundar gefa ákveðna mynd af tíðarandanum. Vissulega getur heimildaröflun hafa verið erfið þegar sum atriði voru einfaldlega sögusagnir. Þá má varpa fram spurningunni um það hvort eigi að skjalfesta sögusagnir um einstaklinga í samtímanum? Hafi ætlunarverk höfundar verið að skrifa fræðirit, mistókst honum það. Hefði höfundur tilgreint bókina sem sína skoðun eða sínar kenningar hefði honum tekist ætlunarverk sitt.
Heiða Vigdís Sigfúsdóttir, nemandi í hagfræði og sagnfræði, nóvember 2014
Önnur umfjöllun
- Egill Helgason. „Íslenska efnahagsundrið, skyldulesning“. Silfur Egils, Eyjan, 15. júní 2009.
- Ingi F. Vilhjálmsson. „Hroðvirknisleg bók um hrunið“. DV 23. júní 2009.