Lára Björg Björnsdóttir. Takk útrásarvíkingar. [Reykjavík]: Sena, 2010.
Efni: Bókin fjallar um það sem á daga hefur drifið hjá aðalpersónunni og sögumanninum Láru frá bankahruni árið 2008. Bókin er byggð upp á stuttum pistlum sem raðast saman í tólf kafla. Lára vinnur í Landsbankanum þegar hrunið verður og segir frá því hvernig hún og aðrir í kringum hana höndluðu aðstæðurnar í kjölfar þess. Hún fer hratt yfir sögu, leggur áherslu á persónulegar lýsingar og oft minnir ritstílinn á talmál. Þannig kynnast lesendur Láru vel sem og hennar lífi. Upplifun hennar er oft mjög kómísk og hún gerir óspart grín af sjálfri sér og sínum. Ádeila bókarinnar beinist að mestu leyti að Láru sjálfri fremur en að útrásarvíkingum, þó svo að kaldhæðinn titill bókarinnar gefi til kynna annað.
Bakgrunnur: Í upphafi fjallar Lára um hrunið sem óbreyttur starfsmaður Landsbankans, sem heldur starfinu í einhvern tíma eftir hrun. Hún vísar til mótmæla í kjölfar hrunsins og segir til dæmis frá því þegar að sérsveitin tekur yfir bankann til þess að vernda starfsmenn fyrir hættu sem á að vera að skapast vegna mótmælenda.
Umfjöllun: Bókin er bæði fljótlesin og skemmtileg. Oftar en ekki verður textinn jafnvel til þess að lesandinn þarf að leggja hana frá sér og flissa yfir því sem höfundur skrifar. Lára fjallar á kómískan hátt um þann raunveruleika sem almennir íslenskir borgarar bjuggu við í kjölfar hrunsins. Sögumaður hleypur lesandanum að sér og veitir innsýn í líf sitt. Bókin er ádeila á Láru sjálfa sem fylgdi straumi hins venjulega Íslendings á þessum tíma. Hún segir til dæmis frá því í einum kaflanum þegar að það upphófst æði fyrir því að hamstra vörur haustið 2008, enda höfðu margir áhyggjur af skorti í landinu á þeim tíma. Ein vinkona hennar hamstar til dæmis parmesan-ost sem hún ætlar sér að nota sem gjaldmiðil, en Lára sjálf hamstrar tómatsósu en hún endar reyndar á að hella meirihlutanum niður þegar vörurnar eru útrunnar. Það er ekki allt kómískt í bókinni heldur er alvarlegur undirtónn, til dæmis þegar Lára segir frá atvinnuleysi sínu undir lok bókarinnar. Fyrst um sinn finnst henni jákvætt að fá frí en síðar fer svartur raunveruleikinn að bíta á hana. Hún segir frá því að ekkert sé til að borða heima hjá henni nema útrunninn kúskús-pakki og það er þá sem hún minnist þess að hafa notað hugtakið „Takk útrásarvíkingar“ í fyrsta skipti. Henni er oft eignað þetta hugtak en sá sem fyrstur varð til þess að nota það á opinberum vettvangi var líklega Páll Óskar Hjálmtýsson í viðtali við Fréttablaðið 18. desember 2008.
Bókin ber þess merki að hafa verið rituð upp úr bloggfærslum og -pistlum. Sögumaður veður úr einu í annað og fer svo jafnvel aftur að skrifa um það sem hún byrjaði á. Hólmfríður Gísladóttir gagnrýnir þetta í ritdómi sínum á mbl.is: „Þetta er einum of mikið af því góða, þegar öll meining og innihald drukkna í orðaflaumnum.“ Lára tekur á hruninu á annan hátt en almennt er gert í hrunbókum; hún segir frá eigin reynslu og áhrifum breytinganna á eigið líf. Bókin er sjálhverf og söguheimur hennar snýst um Láru og hennar nánustu. Áhugavert væri að vita hver er muninn á Láru sem birtist í bókinni og höfundinum Láru. Við lesturinn hugsar lesandinn sífellt um hvar mörk raunveruleikans birtast, því að margt sem þar er skrifað er eitthvað sem auðvelt er að tengja sig við. Lára segir sjálf frá tilurð verksins í viðtali við SunnudagsMoggann 5. desember 2010: „Ég hafði aldrei í huga að gefa út bók þegar ég fór að skrifa á Miðjuna haustið 2009. Ég skrifaði um það sem mér datt í hug þá stundina og í raun hvarflaði aldrei að mér að eitthvað meira yrði úr þessum skrifum. Meira að segja þegar ég fór að skrifa bókina mína ímyndaði ég mér aldrei að hún kæmi nokkurn tímann út … hún er auðvitað dálítið persónuleg og prívat.“ Þessi orð gefa til kynna að bókin sé mjög persónuleg og þrátt fyrir að einhver hluti hennar sé kannski ýktur er Lára að segja sína sögu og lýsa sinni upplifun á misserunum eftir hrunið.
Á bókinni er enginn skýr byrjun eða endir, það er enginn skýr söguþráður heldur dregur Lára lesandann áfram með því að reyna að segja frá öllu sem á daga hennar hefur drifið á árunum 2008-2010. Hún stærir sig af því að hafa ekki tekið þátt í góðærinu en viðurkennir að hafa orðið fyrir barðinu á stressinu sem heltók fólk í kjölfar hruns. Hún á það til að tala í mótsögn við sjálfa sig. Í einum kafla hneykslast hún á fótboltaáhorfi vinnufélaga sinna en síðar í bókinni kemur fram einskær áhugi hennar sjálfrar á fótbolta og færni á því sviði. Lesandinn skilur við bókina brosandi út í annað yfir fíflaskapnum sem ræður þar ríkjum en skynjar þó alvarleikann sem býr að baki, þar með talið ádeiluna sem Lára setur fram á kynjamisrétti og skerðingu á réttindum barna með sérþarfir. Einnig er alvarlegur undirtónn í frásögninni um atvinnuleysið í lokin. Lára reynir að viðhalda sama lífstíl og hún naut fyrir hrun en finnur að við breyttar aðstæður er það ekki eins auðvelt og það var áður. Hugtakið „Takk útrásarvíkingar“ notar Lára í kaldhæðni þegar allt er á niðurleið hjá henni. Þakklætinu er beint að útrásarvíkingum á þann hátt að hún kennir þeim um hvernig fór og ekki bara í hennar lífi heldur í samfélaginu almennt.
Anna Björg Auðunsdóttir, nemandi í almennri bókmenntafræði, nóvember 2014
Önnur umfjöllun:
- Álfrún Pálsdóttir. „Hnyttin þjóðfélagsrýni.“ Fréttablaðið 10. desember, s. 70.
- Björg Magnúsdóttir. „Takk útrásarvíkingar – Nei, takk Lára Björg.“ Pressan 14. desember 2010.
- Hólmfríður Gísladóttir. „Allt, allt of mikið.“ Morgunblaðið 27. nóvember 2010.
- Sigríður Björg Tómasdóttir. „Útrásarvíkingar eru fyrirtaks blórabögglar.“ Fréttablaðið 15. nóvember 2010, s. 16.