Margrét Tryggvadóttir. Útistöður. Reykjavík: Hansen & synir, 2014. 530 bls.
Efni: Margrét Tryggvadóttir bókmenntafræðingur ákvað að láta til sín heyra í mótmælunum á Austurvelli í kjölfar bankahrunsins 2008. Þessi hægláta en ákveðna kona úr Kópavogi stóð skyndilega frammi fyrir mestu áskorun lífs síns þegar hún var kjörin á þing vorið 2009. Í bók sinni Útistöður lýsir hún lævi blöndnu andrúmslofti innan Borgarahreyfingarinnar og Alþingis; átökunum um Icesave, umsókn um inngöngu Íslands í ESB, nýja stjórnarskrá og fleira sem setti mark sitt á einhverja mestu pólítísku umbrotatíma á lýðveldistímanum.
Bakgrunnur: Þarna gefur að líta margvíslegt áhugavert sem snertir einstaka persónur; samstarfsmenn Margrétar, andstæðinga og aðra. Lesendum kann að finnast hnýslegt að grennslast nánar fyrir um Þráins-málið fræga þegar Margrét sendi tölvupóst algerlega óvart á alltof marga þegar hún vildi leita ráða hjá vinkonu sinni varðandi heilsufar Þráins Bertelssonar. Úr varð mikið moldviðri; Margrét sökuð um illt innræti og svo fór að Þráinn kvaddi félaga sína í Borgarahreyfingunni – þótt ekki hafi verið póstsendingunni einni um að kenna. Fleiri mál af þessu tagi, dularfulla tölvan, leynimappa „Svavarssamningsins“ og deilurnar um fjármuni hreyfingarinnar eru áhugaverðar – og kveikja jafnvel vangaveltur um þörf á frekari rannsóknum. Hún ver líka miklu rými í að fjalla um hugmyndir um afnám verðtryggingar og lausnir á skuldavanda heimilanna, hún fjallar um landsdómsmálið og vitaskuld um Icesave deiluna og umræðurnar um inngöngu Íslands í ESB. Stjórnarskráin nýja – sem var eitt af meginbaráttumálum Borgarahreyfingarinnar – á sinn sess í bókinni og mögnuð lýsing er á síðustu dögum kjörtímabilsins þegar Margrét lagði frumvarp stjórnlagaráðs fram sem breytingatillögu við breytingatillögu nokkurra stjórnarþingmanna um breytingaákvæði gildandi stjórnarskrár.
Umfjöllun: Margrét Tryggvadóttir var óvænt kosin til setu á löggjafarþingi Íslendinga vorið 2009. Um nokkra hríð hafði sjálfsmynd samfélagsins verið útþanin af fullvissu um að það væri langbest og auðugast í öllum heimi en skyndilega skall á angist vegna framtíðar í örbirgð og aumingjaskap. Efnahagshrunið haustið 2008 varð til þess að Margrét, líkt og fleiri, fann að hún gæti ekki lengur látið sem ekkert væri og látið atvinnustjórnmálamönnum eftir að leysa nánast óvinnandi verkið sem við blasti. Hún tók að venja komur sínar á Austurvöll þar sem búsáhöld voru lamin sundur og saman – hún vildi gera hvað hún gæti að koma hlutunum í lag á Íslandi að nýju (bls.13).
Sá sem hér ritar fylltist miklum áhuga þegar fréttist að Margrét væri að skrifa bók um setu sína á þingi kjörtímabilið 2009 til 2013. Þrátt fyrir að einstaka hjáróma bloggari teldi að hér yrði á ferðinni frægðarsaga stjórnmálamanns, einhvers konar réttlætingarbók í kjölfar darraðadans átakamikillar þingsetu, er óhætt að fullyrða að sú sé ekki raunin. Í Útistöðum rekur Margrét tæpitungulaust – á yfir 500 síðum – atburðarás áranna frá hruni fram til nútímans. Bókin er margslungin og tekur á fjölda atriða og atvika sem sett hafa mark sitt á þjóðfélagsumræðuna á liðnum árum. Bjartsýnin, baráttuandinn og bláeygðin við stofnun Samstöðu og Borgarahreyfingarinnar eru áberandi þáttur í bókinni. Átökin og upplausnin, slagsmálin um fjármagnið ætluð hreyfingunni, hugsjónaárekstrarnir, breiskleikar fólks, lymskan og lævísin blandin öllu hinu úr litrófi mannlegra tilfinninga fá sinn sess tæpitungulaust og án beiskju.
Bókin er á margan hátt lýsing á lífsskoðunum Margrétar sjálfrar – enda má hún það – þetta er hennar bók. Það er áhugavert að horfa á þingstörfin öll með augum algers nýgræðings eins og Margrét var í upphafi þingferils síns, einnig er merkilegt hve hratt þingmenn Borgarahreyfingarinnar náðu tökum á starfi sínu, kynntu sér mál í hörgul og spurðu óþægilegra spurninga. Augljóst er að margt hugnast henni ekki, margt finnst henni harla undarlegt og annað bráðfyndið. Ein skemmtilegasta lýsingin á slíkum þætti er fyrsta jólagleði þingsins sem hún tók þátt í – rétt eins og verið væri að lesa handrit að fáránleikasögu (bls. 142-144).
Útistöður Margrétar Tryggvadóttur virðast unnar af miklum heilindum. Ef til vill gæti einhverjum þótt hún full djörf í umfjöllun sinni um einstaklinga sem að máli koma. Hún rekur t.d. samskipti sín við Þráin Bertelson rækilega og fjallar tæpitungulaust um hegðan andstæðinga sinna jafnt og félaga í stjórnmálunum. Ekki er að sjá annað en það sem höfundur greinir frá sé sannleikanum samkvæmt og af sanngirni gert. Kaflarnir sem snúa að deilunum við Þráin, argaþrasinu innan Borgarahreyfingarinnar og inni á þingi gætu þó innihaldið efni sem kynni að vekja upp reiði þeirra sem um er fjallað. Enn hafa lítil sem engin viðbrögð komið frá þeim – hvað sem verða kann.
Það er afar forvitnilegt að fá bók sem þessa í hendurnar – einkum fyrir þá sem rannsaka samtímasögu. Atburðir undanfarinna rifjast upp í vel skrifaðri bókinni; Margrét rekur hvernig Icesave deilan þróaðist og viðbrögð stjórnar og stjórnarandstöðu við henni. Þar gefur oft að líta upplýsingar sem ekki eru í opinberum skjölum, heldur greinir hún frá orðum og athöfnum fólks – stundum mætti jafnvel velta fyrir sér hvort hún fari út fyrir persónulegan trúnað. Til framtíðar er það þó mikill kostur við bókina þótt stundum mætti höfundur vera ögn nákvæmari varðand um hvern er verið að ræða – einkum þegar hún nefnir ráðherra án þess að tilgreina nafn þeirra. Það kemur ekki að sök nú en gæti tafið rannsakendur framtíðar. Bókin er hvalreki á fjörur þeirra sem eru að rannsaka söguna, stjórmálafræðingum gæti nýst hún vel og jafnvel fleiri fræðimönnum. Einkum er það vegna tæpitunguleysis höfundar og löngunar hennar til að segja satt og rétt frá. Ekki síst er áhugavert að sjá þingstörfin og amstrið tengt þeim með augum Margrétar – sem er nánast eins og gestur utan af götunni – allavega til að byrja með. Útistöður er líka eins konar þroskasaga Margrétar sjálfrar – hún kom inn á þingið blaut bak við eyrun í pólitískum skilningi en þegar hún kvaddi þingið var hún orðin fullþroska stjórnmálamaður með skýra sýn á framtíð Íslands og leiðirnar út úr ógöngum hrunsins.
Víða er meginmálið brotið upp með innslögum sem komið er fyrir í grásköluðum textakössum. Þar má m.a. sjá tölvupóstsamskipti, fundargerðir og yfirlýsingar ásamt ýmsum skemmtisögum sem hafa ekki endilega mikið með heildarmyndina að gera. Eins og áður hefur komið fram liggur Margrét ekkert á skoðunum sínum – bókin er eins konar pólitísk yfirlýsing hennar sjálfrar. Útistöður eru afskaplega vel skrifaðar, stíllinn lipur, málfar gott og nánast ekkert um stafsetningar- eða innsláttarvillur. Titillinn er sá margræðasti sem sést hefur lengi; hann lýsir efni bókarinnar vel – margskonar útistöður koma við sögu.
Heimildaskrá bókarinnar er fremur rýr að vöxtum en gallar ritsins eru helst fólgnir í skorti á efnisyfirliti, atriðisorða- og nafnaskrá. Í verki sem getur nýst svo mörgum við heimildavinnu eru þessir þættir algerlega nauðsynlegir – og reyndar kom verulega á óvart að Margrét skyldi láta undir höfuð leggjast að hafa þá með – enda margreynd í útgáfubransanum. Að þessum göllum frátöldum mætti ef til vill bæta við að bókin hefði kannski mátt við styttingu – en til framtíðar hygg ég að lengdin verði talin henni til kosta því Margréti tekst að koma ótalmörgu að, sem vitaskuld hefði þurft að sleppa í styttra verki.
Útistöður er því greinargott rit um nýliðna atburði í innsta hring björgunarstarfanna eftir hrun; höfundurinn fór úr því að vera hluti öskureiðs almennings yfir í að vera – á stundum – harðlega gagnrýndur þingmaður. Hún er gagnrýnin á sjálfa sig, á stjórnvöld, á félaga sína og andstæðinga í pólítík og ekki síst á það samfélag sem olli hruninu. Því eru lokakaflar bókarinnar lagðir undir vangaveltur um hvernig hægt sé að vinda ofan af afleiðingum þess og hvernig eigi að koma í veg fyrir að annað eins endurtaki sig. Útistöður er bók fyrir áhugafólk um þjóðmál en ekki síður fyrir þá sem faglega fjalla um efnahagshrunið og margvíslegar afleiðingar þess.
Markús Þórhallsson, meistaranemi í sagnfræði, nóvember 2014
Önnur umfjöllun:
- Atli Þór Fanndal. „Reiðustu börn byltingarinnar.“ DV 16. desember 2014, s. 36.
- Jón Daníelsson. „Útistöður“, Herðubreið, 29. október 2014.
- Teitur Atlason: „Hvað skal varast þegar flokkur er stofnaður?“, Kvennablaðið, 25. nóvember 2014.