Straumhvörf

straumhvorfÞór Sigfússon. Straumhvörf. Útrás íslensks viðskiptalífs og innrás erlendra fjárfesta til Íslands. Reykjavík: Mál og menning, 2005.

Efni: Í bókinni er fjallað um það sem átti sér stað í íslensku viðskiptalífi á árunum fyrir 2005. Á þeim tíma var mikil útrás íslenskra fyrirtækja en upp var að hefjast nýtt tímabil hnattvæðingar íslenskra stórfyrirtækja. Þau hösluðu sér völl á alþjóðamarkaði og erlend fyrirtæki sóttu í ríkara mæli til Íslands. Samt sem áður kvörtuðu stjórnendur þeirra yfir gjaldmiðli og höftum. Höfundur fjallar um að íslenskt viðskipta- og efnahagslíf standi á krossgötum og skoðar þau tækifæri sem felast í aukinni hnattvæðingu.

Bakgrunnur: Þór Sigfússon er með meistaragráðu í hagfræði frá The University of North Carolina og hefur einnig stundað doktorsnám í alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands. Hann hefur fjallað um framtíðarsýn og hnattvæðingu íslensks viðskiptalífs og gefið út nokkrar bækur um efni því tengt. Þór tengist viðfangsefninu að því leyti að hann hefur mikið fjallað um þetta, er með meistaragráðu í hagfræði og var því vel inn í þessum heimi sem hlutlaus fræðimaður. Hann byggir á reynslu sinni við skrif bókarinnar, styðst við margar heimildir og skrá yfir þær er aftast í bókinni en engin nafnaskrá.

Umfjöllun: Í bókinnni útskýrir Þór hnattvæðingu íslensks efnahags- og viðskiptalífs á árunum 1995-2005 frá sjónarhorni síns fags, hagfræðinnar. Bókinni er skipt í sex kafla; í þeim fyrsta hnattvæðing er fjallað um hvernig hnattvæðingin hefur haft áhrif á Ísland t.d. með erlendri starfsemi s.s. Alcoa. Annar kafli nefnist kenningar og þar er fjallað um hvernig fyrirtæki hnattvæðast, hvort sem það er í þrepum, stökkum, með tengslanetum eða klösum. Þriðji kaflinn út fjallar um útrás íslenskra fyrirtækja, hvers vegna þau hófu hana og hvernig þau fóru að því. Fjórði kaflinn inn fjallar um innflutning erlendra fyrirtækja til Íslands og hverjar ástæðurnar eru fyrir litlum fjárfestingum erlendra aðila hér á landi. Fimmti kafli nefnist skapandi þjóðfélag. Þar er því lýst hvernig fjölbreytni geti fjölgað tækifærum og aukið þekkingu. Síðasti kaflinn heitir straumhvörfin og snýst um það hvernig lítil fyrirtæki eiga erfitt uppdráttar vegna stóru fyrirtækjanna sem kæfa þau.

Í bókinni er frekar stiklað á stóru þótt farið sé í smáatriði af og til. Það má segja að bókin sé bæði ætluð almenningi og fræðasamfélaginu því hún útskýrir á einfaldan hátt hvað hefur verið að gerast en fræðasamfélagið getur nýtt sér þessa bók því þarna koma fram hugmyndir þessa hagfræðings þó ekki sé mikið um fræðimál í henni. Málfar og stíll bókarinnar er mjög góður og því auðvelt að lesa hana, eins og sést hér á dæmi úr textanum:

„Þótt viðhorf í þjóðfélögum skipti sköpum um velferð landa fer því þó fjarri að þessi viðhorf geti ekki breyst sem annaðhvort leiði til hnignunar eða blómaskeiðs. Í þessum efnum stöndum við Íslendingar á krossgötum. Við erum bæði að sækja af krafti fram í miðjunni en um leið má benda á alvarleg dæmi um þröngsýni og andvaraleysi sem draga okkur meira að jaðrinum, svo notuð séu hugtök Itamars“. (s. 22)

Þór tekst vel ætlunarverk sitt sem er að útskýra á mannamáli straumhvörfin sem urðu í íslensku viðskiptalífi á árunum 1995-2005.  Mér finnst hann hrósa útrásinni of mikið en bókin er skrifuð árið 2005 og Þór gat því ekki vitað að allt myndi hrynja þremur árum seinna. Því er kannski frekar fyndið að lesa hana einmitt vegna þess að maður veit hvað gerist og Þór er mikið að áætla hvað gæti gerst í framtíðinni. Hann taldi t.d. að Ísland yrði eitt af ríkustu löndum í heimi árið 2010. Sú varð ekki raunin. Það er ekki hægt að tala um staðreyndavillur í þessu samhengi þó svo að framtíðarspárnar séu ekki réttar því það eru aðeins vangaveltur Þórs um framtíðina sem enginn gat og getur séð fyrir. Straumhvörf er því vönduð bók að flestu leyti, heimildirnar áreiðanlegar en Þór dregur þó upp heldur fagra mynd af efnahagslífinu og bendir sjaldan á gallana eða veikleikana í kerfinu. Hann er því ekki alveg nógu hlutlaus í umfjöllun sinni.

Ég gæti trúað því að Þór hafi valið úr heimildir eða ekki vitað almennilega hvað var að gerast því aðeins þremur árum eftir að bókin kom út varð hrun á Íslandi. Það er ekki fræðilegur möguleiki að fyrirtækin hafi öll verið fullkomin svo skömmu fyrir hrun. Málflutningur er ekkert endilega svo skynsamlegur því Þór hefði mátt skoða gallana betur og ekki hrósa útrásinni jafn óhugnanlega mikið eins og hann gerði. Hagfræðingur ætti að vita að kreppur í útrás og þenslu geta haft skelfilegar afleiðingar í för með sér eins og við fengum að kynnast og þær gerast reglulega.

Andri Freyr Björnsson, nemandi í sagnfræði, nóvember 2014