Styrmir Gunnarsson. Hrunadans og horfið fé – Skýrslan á 160 síðum. Reykjavík: Veröld, 2010.
Efni: Um er að ræða úttekt Styrmis Gunnarssonar á grundvallaratriðum Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem kom út um miðjan apríl 2010. Bók Styrmis var gefin út einungis fjórum vikum eftir útgáfu skýrslunnar, sem spannar ríflega 2000 síður, og þykir bókin því gagnleg og greinargóð umfjöllun um meginþætti hennar. Ásamt því að koma á framfæri yfirliti og kjarna Skýrslunnar reifar höfundur þau álitamál sem honum þykir skipta máli á persónulegan hátt. Tímabil bókarinnar tekur yfir langan tíma, eða frá einkavæðingarferli ríkisbankanna um síðustu aldamót og fram til ársins 2010 þegar Skýrslan er gefin út. Þá horfir höfundur einnig til framtíðar íslensks samfélags.
Bakgrunnur: Styrmir Gunnarsson var áhrifamikill ritstjóri Morgunblaðsins í hartnær 40 ár. Hann er yfirlýstur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins og hefur því mikil tengsl inn í heim stjórnmálanna og þeirra sem lengst af hafa haldið á valdataumunum í íslensku þjóðfélagi. Hann hefur jafnvel verið ráðgjafi þeirra á örlagatímum – og þekkir því vel til þeirrar atburðarásar sem rakin er í Skýrslunni. Styrmir hafði áður skrifað bók í tengslum við fall íslensku bankanna, Umsátrið – Fall Íslands og endurreisn, sem kom út árið 2009.
Umfjöllun: Bókin er í senn yfirlit og greining; yfirlit yfir þá þætti Skýrslunnar sem höfundi þykja markverðastir og greining á niðurstöðum hennar. Hún er skrifuð út frá sjónarhorni höfundar sem talar gjarnan í fyrstu persónu, en það gefur henni einkar persónulegan blæ. Þannig fléttar Styrmir saman umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis á orsökum og afleiðingum bankahrunsins og eigin upplifun af atburðunum.
Bókin skiptist í sjö kafla ásamt inngangi. Köflunum er skipt upp eftir meginþáttum Skýrslunnar, eins og þeir koma höfundi fyrir sjónir. Fyrsti kaflinn fjallar um bankana, einkavæðingu þeirra og starfsemi. Annar kaflinn snýr að hinum svokölluðu útrásarvíkingum. Hlutverk Fjármálaeftirlitsins er tekið fyrir í þriðja kafla og sá fjórði segir af Seðlabanka Íslands og þætti þeirra ríkisstjórna sem áttu þátt í atburðarásinni í hruninu og aðdraganda þess. Í fimmta kafla beinir höfundur svo sjónum að Icesave málinu og tilskipun Evrópusambandsins, og í þeim sjötta að gagnrýni á efnahagsstefnu landsins. Að lokum er niðurstöðukafli þar sem Styrmir fjallar um það sem honum þótti vel takast til í Skýrslunni og hvað hefði betur mátt gera. Þar fjallar hann til að mynda um aðra gerendur í hruninu, líkt og fjölmiðla og veltir einnig upp hugmyndum sem lúta að hjarðhegðun þjóðarinnar, svo sem fjallað er um í áttunda bindi Skýrslunnar.
Eðli málsins samkvæmt er nær eingöngu stuðst við Skýrsluna sem heimild, en þó vitnar Styrmir í nokkrar heimildir til viðbótar sem getið er um í heimildaskrá bókarinnar. Þá vísar hann á stöku stað í fyrri skrif Morgunblaðsins um þau mál sem til umfjöllunar eru í Skýrslunni. Sömuleiðis vitnar Styrmir töluvert í fyrri bækur og greinar sem hann sjálfur hefur skrifað.
Bókin er ætluð sem yfirlit fyrir almenning sem hvorki hefur tíma né getu til að fara í gegnum öll níu bindi Skýrslunnar og skilja inntak þeirra til hlítar. Segir Styrmir í formála bókarinnar að hann vilji leggja sitt af mörkum „til þess að umræður um þjóðfélagsumbætur geti farið fram með málefnalegum hætti…“ (bls. 10-11). Bókin er skrifuð á þægilegu og auðskiljanlegu máli og ætti því ekki að vera of flókin fyrir hinn almenna lesanda sem ekki hefur kynnt sér allar hliðar bankahrunsins, aðdraganda þess eða afleiðingar.
Bókin kom út einungis fjórum vikum eftir útgáfu Skýrslunnar en þrátt fyrir það er hún vel skrifuð, veitir góða innsýn inn í atburðarásina fyrir bankahrun og gefur heilsteypta mynd af helstu gerendum. Styrmir fjallar þó einungis um ákveðna þætti úr Skýrslunni sem hann telur vera markverðasta. Vissulega er nánast ómögulegt að ætla sér að fjalla um allar niðurstöður og ályktanir í yfir 2000 blaðsíðna skýrslu sem skilur lesendann oft og tíðum eftir með fleiri spurningar en svör. Af þessum sökum er varla hægt að lýsa bókinni sem „greinargóðri og heildstæðri úttekt” líkt og fram kemur á baksíðu.
Á engan hátt er hægt að segja að Styrmir sé hlutlaus. Hann býr yfir gífurlegri þekkingu úr heimi stjórnmálanna og hefur því mjög athyglisverða og ákveðna sýn á þá atburði sem fjallað er um í Skýrslunni. Því er ekki óeðlilegt að hann hafi sterkar skoðanir á því sem rannsóknarnefnd Alþingis varpar fram. Styrmir skrifar vissulega um allan aðdraganda bankahrunsins og niðurstöður Skýrslunnar á hlutdrægan hátt og setur fram sínar eigin kenningar og gagnrýnir það sem ekki er að hans skapi. Hins vegar er vert að taka fram að Stymir reynir aldrei að vera hlutlægur, heldur gerir sér fulla grein fyrir hlutdrægni sinni og reynir hvergi að dylja afdráttarlausar skoðanir sínar. Til að mynda er hann harðorður í garð hinna svokölluðu útrásarvíkinga og segir niðurstöðu Skýrslunnar hafa leitt það í ljós að þeir beri meginábyrgð á orsökum bankahrunsins en ekki Seðlabankinn eins og einnig hafi verið haldið fram. Þá er hann ekki feiminn við að viðra skoðanir sínar um þær niðurstöður og ályktanir sem fram koma í Skýrslunni. Til að mynda gagnrýnir hann í fjórða kafla (sem fjallar um Seðlabankann og ríkisstjórnina) ályktanir rannsóknarnefndarinnar um yfirtöku Glitnis í lok september 2008. Þar segir hann fyrstu viðbrögð sín eftir lestur þess kafla í Skýrslunni hafa verið þessi:
„Hafa þeir, sem þennan texta skrifuðu, aldrei dýft hendi í kalt vatn? Fjármálakerfi landsins stendur í ljósum logum síðustu helgina í september 2008 og rannsóknarnefnd Alþingis hefur hugann að verulegu leyti við það, hvort allra formsatriða hafi verið gætt! Hvort þetta skjal hafi verið áritað með réttum hætti eða kallað eftir öðru skjali úr því að Glitnismenn voguðu sér að tala við Seðlabankann án þess að leggja fram skjöl. … Þetta er ekki trúverðug gagnrýni.“ (s. ??)
Ef tilgangur bókarinnar er að veita heildstæða úttekt á grundvallaratriðum Skýrslunnar hefur Styrmi ekki tekist ætlunarverk sitt að mínu mati. Bókin er fremur úttekt á ákveðnum atburðum sem höfundi telur að skipti mestu máli. Lesandinn getur því ekki treyst því að fá greinargóðan og heildstæðan skilning á niðurstöðum Skýrslunnar eftir lesturinn – heldur þarf að reiða sig á frekari fróðleik til að ná tökum á grundvallaratriðum hennar. Bókin getur því að mínu mati ekki talist fullnægjandi yfirlit, heldur er hún þess í stað áhugaverð viðbót við þá flóru bóka sem skrifaðar hafa verið um orskakir bankahrunsins 2008.
Birta Sigmundsdóttir, nemandi í stjórnmálafræði, nóvember 2014
Önnur umfjöllun:
- Guðni Th. Jóhannesson. „Sýn Styrmis á Hrunið og Skýrsluna“. Stjórnmál og stjórnsýsla 6/2 (2010).